Gestastofa
Verið velkomin í Reykholt, einn sögufrægasta stað landsins. Sagnaritarinn, fræðimaðurinn og höfðinginn Snorri Sturluson settist að í Reykholti 1206 og var veginn þar haustið 1241.
Snorrastofa veitir ferðamönnum fræðslu í Gestamóttöku. Inngangur er á jarðhæð Reykholtskirkju — Snorrastofu, gengið inn frá stóra bílaplaninu að framan undir kirkjuturninum.
Í gestamóttökunni er rekin ferðamannaverslun með íslensku handverki, bókum um Snorra og miðaldir og íslenskri tónlist.
Fræðsla Snorrastofu felst í sýningu um Snorra Sturluson og miðaldir, og leiðsögn um sögu og menningu staðarins. Tekið hefur verið í notkun leiðsagnarappið „Snorri“, sem gestum býðst að hlaða niður í snjalltæki sín og nota á sýningunni jafnt sem úti á göngu um staðinn.
Boðnar eru lifandi kynningar, styttri og lengri, sem hrífa áheyrendur og skapa nýja vídd upplifunar. Þær fara fram á íslensku, norrænum málum, ensku eða þýsku. Kynningar af þessu tagi þarf að panta fyrirfram.
Við leggjum áherslu á persónulega þjónustu og hlökkum til að sjá þig í Reykholti.