Fornsagnanámskeið

Sturla Þórðarson og Sturlunga

Um langt árabil hafa Snorrastofa, Landnámssetur Íslands og Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi staðið fyrir námskeiði um fornsögur, sem farið hefur fram yfir vetrarmánuðina til skiptis í Landnámssetri og Snorrastofu. Námskeið vetrarins 2019-2020 verður um Sturlu Þórðarson og hans þátt í Sturlungu og það þótti því vel við hæfi að leita til nýstofnaðs Sturlufélags í Dölum um samstarf. Þannig breikkar enn grundvöllur þessa ánægjulega og frjóa mennta- og menningarstarfs á Vesturlandi.

Námskeiðið verður haldið 6 mánudagskvöld í vetur.  Leiðbeinendur þess koma úr ýmsum áttum, allir þekktir sérfræðingar hver á sínu sviði. Þeir eru Einar Kárason rithöfundur, Guðrún Ása Grímsdóttir fyrrv. rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar, Guðrún Nordal forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Sverrir Jakobsson sagnfræðingur við Háskóla Íslands, Úlfar Bragason fyrrv. rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar og Þórdís Edda Jóhannesdóttir íslenskufræðingur. Lokakvöldið verður í Vínlandssetrinu í Búðardal, sem þar er í burðarliðnum.

Allir eru boðnir velkomnir að sækja námskeiðið, það kostar 21 þúsund krónur og skráning fer fram hjá Símenntunarmiðstöð Vesturlands.

Prenthæf auglýsing…

Fyrri námskeið:


2018-2019: Tolkien og íslenskar miðaldabókmenntir – námskeið

dr. Ármann Jakobsson

Leiðbeinandi dr. Ármann Jakobsson.

Margir vita að hinn kunni rithöfundur JRR Tolkien, höfundur Hobbitans og Hringadróttinssögu, var sérfróður um miðaldabókmenntir og ekki síst norrænar bókmenntir. En nákvæmlega hvernig mótuðu fræðastörf hans skáldsagnaritunina? Hvernig var sambandi hans við Ísland háttað? Hvernig leit hann á Völuspá og Snorra-Eddu? Hvernig nýtti hann sér norræna kvæðið Fáfnismál.

Ármann ræðir um Tolkien og Ísland sex mánudagskvöld í vetur. Meðal umfjöllunarefna hans eru drekar, álfar, dvergar, draugar og hinn norræni hetjuskapur en um öll þessi efni hefur hann ritað. Nýjasta fræðibók hans er The Troll Inside You, sem kom út árið 2017.

Námskeiðið verður á mánudagskvöldum kl. 20-22, að venju til skiptis í Landnámssetri og Snorrastofu.

Upplýsingar og skráningar hjá Símenntunarmiðstöðinni á Vesturlandi, s.: 437-2390, netfang simenntun@simenntun.iswww.simenntun.is

Dagskrá:

Mánudagur 1. október, fyrsta kvöld í Landnámssetri 

Tolkien, menntun hans og störf

Mánudagur 5. nóvember, annað kvöld í Snorrastofu

Tolkien og álfar – Snorra-Edda og Heimskringla; kynþáttahugsun

Mánudagur 7. janúar, þriðja kvöld í Landnámssetri

Tolkien og dvergarnir – Völuspá

Mánudagur 4. febrúar, fjórða kvöld í Snorrastofu

Tolkien og draugar – Grettissaga og Bjólfskviða

Mánudagur 4. mars, fimmta kvöld í Landnámssetri

Drekar Tolkiens – Fáfnismál

Mánudagur 1. apríl, lokakvöld í Snorrastofu

Tolkien, ragnarök og hetjuskapur – Snorra-Edda

Allt námskeiðið kostar kr. 21.000, stakt kvöld kr. 4.000

Verið öll velkomin!

Yfirlit yfir námskeiðið (pdf)…


2017-2018: Landnám Grænlands, fundur Vínlands /  Grænlendinga saga og Eiríks saga rauða

 

Námskeiðið fjallar um hinar tvær fornu sögur um norræna menn á Grænlandi, og rannsóknir á landnámi þeirra þar og á Vínlandi.

Fræðimenn með margvíslegan bakgrunn fjalla um efnið, hver frá sínum sjónarhóli.

Námskeiðið verður á fyrsta þriðjudagskvöldi hvers vetrarmánaðar kl. 20 – 22 til skiptis í Snorrastofu og Landnámssetri.

Allt námskeiðið kostar kr. 21.000, stakt kvöld kr. 4.000

Skráning fer fram á vef Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi eða í s.: 433 6929, netfang: simenntun@simenntun.is. Einnig er hægt að skrá sig á námskeiðskvöldunum.

Verið velkomin!

Yfirlit:

Fyrsta kvöld í Snorrastofu – 10. október kl. 20

Gísli Sigursson prófessor

Mynd fornsagnanna af Vínlandi 

Leiðbeinandi Gísli Sigursson prófessor

Fjallað verður um hvers konar ritheimildir hafi varðveist um Vínland og ferðir þangað. Staldrað verður við spurninguna um hvernig sé hægt og hvernig sé ekki hægt að nota hinar rituðu sögur, Grænlendinga sögu og Eiríks sögu rauða, sem vísbendingu um minningar um Vínland, sem fólk hélt á loft á ritunartímanum; minningar sem verða ekki skýrðar öðru vísu en með því að Vínlandssögur hafi gengið mann fram af manni frá því að fyrstu Vínlandsfararnir komu heim til Íslands og fóru að segja þeim sem heima sátu frá ævintýrum sínum og annarra í löndunum vestan og sunnan við Grænland. 

Annað kvöld í Landnámssetri  – 7. nóvember kl. 20

Leiðbeinandi Gunnar Marel Eggertsson, skipasmíðameistari

Þriðja kvöld í Snorrastofu – 7. janúar kl. 20

Orri Vésteinsson fornleifafræðingur

Vitnisburður fornleifa um landnám og landkönnun í Vesturheimi á víkingaöld 

Leiðbeinandi Orri Vésteinsson fornleifafræðingur

Vitnisburður fornleifa um landnám og landkönnun í Vesturheimi á víkingaöld
Sagt verður frá fornleifafundum sem varpa ljósi á landnám og landkönnun evrópumanna á Grænlandi og Nýfundnalandi á 10. og 11. öld.  Gefið verður yfirlit um mismunandi tegundir vísbendinga sem fornleifafræðingar styðjast við til að skilja hvað gekk á og fjallað um helstu kenningar sem eru í umræðunni nú um stundir. 

Fjórða kvöld í Snorrastofu – 6. mars kl. 20

Páll Bergþórsson veðurfræðingur

Vínlandsgátan

Leiðbeinandi Páll Bergþórsson veðurfræðingur

Fimmta kvöld í Landnámssetri – 20. mars kl. 20

Örnólfur Thorsson norrænufræðingur

Bókmenntaleg einkenni Íslendingasagna

Leiðbeinandi Örnólfur Thorsson norrænufræðingur

Um bókmenntaleg einkenni Íslendingasagna, persónur og leikendur, sögusvið, stíl og orðaforða með dæmum úr ýmsum áttum, m.a. úr Vínlandssögum. Örnólfur vinnur nú að formála nýrrar endurbættrar heildarútgáfu sagnanna sem byggir á útgáfu sem gerð var fyrir þremur áratugum og kennd er við Svart á hvítu.

Lokakvöld í Landnámssetri – 3. apríl kl. 20

Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur

Grænlandsgátan 

Leiðbeinandi Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur

Grænland byggðist af norrænum mönnum fimmtán vetrum áður en kristni var í lög tekin á Íslandi, segir Landnáma. Þau sem komust alla leið heilu og höldnu námu land á tveimur landsvæðum á vesturströnd Grænlands og kölluðu Eystribyggð og Vestribyggð. Snemma á 14. öld lagðist Vestribyggð af en í Eystribyggð var búið þar til um miðja 15. öld. Síðasti skjalfesti atburðurinn í Eystribyggð er brúðkaup í Hvalseyjarfjarðarkirkju 16. september 1408. Eftir það er allt hljótt. Enginn veit hvað varð um hina fornu Grænlendinga en ýmsar tilgátur hafa verið settar fram um hvað olli brotthvarfi þeirra: drepsóttir, hallæri og hungursneyð, sjórán, átök við inúíta, flutningar til Íslands eða jafnvel vestur um haf til Vínlands hins góða. 

 Vinsamlegast athugið að hægt er að sækja stök kvöld og skrá sig á námskeiðsstað.

Yfirlit um námskeiðskvöldin…


2016-2017: Borgfirðinga sögur – rætur reifaðar og rýnt í tengsl

Óskar Guðmundsson rithöfundur í Véum Reykholti.

Endurmenntun í Borgarfirði 2017 á vegum Snorrastofu, Landnámsseturs og Símenntunarmiðstöðvar.  Fjögur þriðjudagskvöld í febrúar–apríl 2017, til skiptis í Snorrastofu og Landnámssetri.

Óskar Guðmundsson rithöfundur í  Véum flytur fyrirlestra – og efnt  er til umræðna meðal þátttakenda.

Fjallað verður um Borgfirðinga sögur (aðrar en Eglu).  Þótt sögurnar séu ekki meðal þekktustu Íslendinga sagna, þá búa þær allar yfir sögulegum þokka – og hafa að sviði hið víðfeðma goðaveldi Snorra Sturlusonar. Engu að síður eru sögurnar innbyrðis ólíkar en það gerir viðfangsefnið spennandi.

Námskeiðið allt kostar kr. 13.500 og stök kvöld kr. 3.500

Sögurnar  sem teknar verða fyrir  eru:

  1. Hænsa Þóris saga, þriðjudaginn 7. febrúar kl. 20 í Landnámssetri
  2. Gunnlaugs saga ormstungu, þriðjudaginn 7. mars kl. 20 í Snorrastofu
  3. Bjarnar saga Hítdælakappa, þriðjudaginn  4. apríl kl. 20 í Landnámssetri
  4. Heiðavíga saga og Gísls þáttur Illugasonar, þriðjudagurin 2. maí kl. 20 í Snorrastofu

Sjá auglýsingu…


2015-2016: Konungasögur ritaðar í Borgarfirði

 

Sjá auglýsingu…