Af rannsóknarverkum tengdum Snorrastofu má nefna Reykholtsverkefnið, sem er þverfaglegt, alþjóðlegt miðaldarannsóknarverkefni á sviði bókmennta, fornleifafræði, landafræði og sagnfræði.
Verkefninu var hleypt af stokkum 1999 og er skipt í þrjá verkþætti sem eru:
- Fornleifarannsóknir
- Mannvist og umhverfi
- Miðstöðin Reykholt
Stjórn
Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu.
dr. Guðrún Gísladóttir, Raunvísindastofnun Háskóla Íslands
dr. Guðrún Sveinbjarnardóttir, Þjóðminjasafni Íslands.
dr. Haukur Jóhannesson, Náttúrufræðistofnun Íslands.
dr. Helgi Þorláksson, Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands.
Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður (formaður).
Svavar Sigmundsson, forstöðumaður Örnefnastofnunar Íslands.
Verkþættirnir
Viðfangsefni í hverjum hinna þriggja verkþátta eru þverfagleg (interdisciplinary), þátttakendur glíma við sömu meginspurningar, en tengslin milli þáttanna eru fjölfagleg (multidisciplinary), þeim er settur heldur rúmur rammi eða almenn heildarmarkmið á þessa leið:
Að varpa ljósi á valdasamþjöppun á þjóðveldistíma, tilurð pólitískra og kirkjulegra miðstöðva og tengsl þessa við landsnytjar, byggðarþróun og bókmenntasköpun. Reykholt í tíð Snorra Sturlusonar er kjarninn í rannsókninni og kannaðar verða norrænar og vesturevrópskar hliðstæður. Áformað er að gera þetta með því að sameina rannsóknir á sviði hugvísinda, félagsvísinda og raunvísinda.
Stefnt er að útgáfu rits um allar meginniðurstöður og er markmiðið þverfagleg heildarniðurstaða.
Með verkefninu er stefnt að því,
a) að tefla saman innlendum fræðimönnum úr ólíkum greinum í von um að meiri árangur náist en ella í hverri grein fyrir sig;
b) að fá til samstarfs við erlenda fræðimenn úr ýmsum greinum til að örva innlenda fræðastarfsemi (og vonandi öfugt líka).
c) að örva ungt fólk, innlent og erlent, til rannsókna, í BA/BS, MA/MS og doktorsritgerðum.
Fornleifarannsóknir
Stjórnandi: Guðrún Sveinbjarnardóttir
Uppgröftur á bæjarstæði
Rannsóknininni, sem hófst 1998, er nú lokið. Bærinn virðist alla tíð hafa staðið á svipuðum slóðum á milli gömlu kirkjunnar og skólahússins sem var reist 1929. Undir gangabæ frá 17. til 19. öld, sem stóð beint suður af kirkjunni, fundust heillegar byggðaleifar sem tímasetja má til miðalda. Meðal þeirra eru göngin sem liggja frá Snorralaug og talið er að vísi til þess sem nefnt er forskáli í Sturlungasögu, en um þau mátti ganga frá laug til bæjar, þar sem þau tengjast horni ferhyrnds, niðurgrafins húsgrunns um haglega gerð steinþrep. Undirstöður, sérstaklega í þeim hluta þar sem gengið er inn í húsið um 2m langan hellulagðan gang, eru gerðar úr gríðarlega stórum steinum sem hafa getað borið meiriháttar mannvirki. Líklegt er að þetta sé undirstaða eða kjallari undir hús sem hefur orðið seinni umsvifum á staðnum að bráð.
Norðan við þetta hús fannst lítið hellulagt hús frá sama tíma sem túlkað hefur verið sem baðhús. Byggist sú túlkun á því að í áttina að því liggur stokkur sem líklegt er að hafi leitt gufu inn í það frá hvernum Skriflu. Þetta er fjórði stokkurinn sem finnst í Reykholti. Tveir þeirra flytja vatn úr hvernum í Snorralaug, og tveir liggja í átt að bæjarstæðinu. Allt ber þetta vitni um miklar framkvæmdir og stórhug varðandi nýtingu hveraorkunnar á staðnum á miðöldum.
Þessar minjar eru taldar geta verið frá 13. öld, eða þeim tíma sem Snorri Sturluson bjó í Reykholti. Eldri minjar hafa fundist, eins og eldstæði sem tímasett hefur verið á bilið frá 10. til 12. aldar og útskorinn trégripur sem hefur verið tímasettur stílfræðilega til 10. eða 11. aldar.
Uppgröftur kirkjustæðis
Í Reykholti var orðin til kirkjumiðstöð, svonefndur „staður“, líklega þegar árið 1118. Kirkja mun hafa verið risin á staðnum um miðja 11. öld. og varð sóknarkirkja en engin slík kirkja hefur verið rannsökuð á Íslandi. Rannsóknin, sem er samvinnuverkefni Þjóðminjasafns og Fornleifastofnunar Íslands, hófst sumarið 2002 með styrk frá Kristnihátíðarsjóði. Norskur sérfræðingur í kirkjufornleifafræði, Alf Hommedal við NIKU í Björgvin, mun koma að rannsókninni sem áætlað er að ljúki árið 2006.
Komið hefur í ljós að rúst kirkjunnar er vel varðveitt, að þar er fjöldi byggingarskeiða og að gamli kirkjugarðsveggurinn liggur sunnar og austar en sá sem nú sést. Undir gömlu kirkjunni sem enn stendur og byggð var 1886–7 fannst forn smiðja þegar undirstaða hennar var endurgerð.
Minjarnar í Reykholti veita nokkra hugmynd um skipulag bygginga á staðnum á miðöldum en heildarmynd fæst ekki vegna eyðileggingar af völdum seinni byggingarframkvæmda.
Tengd verkefni
Hallgerður Pálsdóttir sagnfræðinemi tók saman skýrslu um húsaskipan í Reykholti eftir rituðum heimildum. Guðrún Harðardóttir sagnfræðingur á Þjóðminjasafni tók saman skýrslu um lýsingar á kirkjubyggingum í Reykholti, byggða á ritheimildum. Brynja Birgisdóttir, nemandi í fornleifafræði í Þrándheimi, vann að forkönnun á Hvítárvöllum og umhverfi og tók saman skýrslu. Þóra Pétursdóttir, nemandi í sagnfræði og landafræði, stundaði fornleifaskráningu í Reykholtsdal og víðar, og samdi skýrslu (sjá ritaskrá). Óðinn Haraldsson fornleifafræðinemandi við Háskóla Íslands vinnur nú að mastersverkefni um sel Reykholts.
Guðrún Sveinbjarnardóttir á aðild að verkefninu Landscapes circum Landnám. Viking settlements in the North-Atlantic and its human and ecological consequences. Það hlaut styrk árið 2001 frá Leverhulme Trust í Englandi, tæplega 1.25 millj. punda í 5 ár. Verkefnið snýst um vistfræðilegar afleiðingar landnáms á Norður-Atlantshafs-svæðinu eða um það hvað gerðist þegar fólk settist að í landi þar sem ekki hafði verið búið áður. Guðrún miðaði við í umsókn að Reykholtsverkefnið tengdist þessu náið og að tekin yrðu sýni á vel völdum stöðum í tengslum við það. Þetta verkefni fellur að sumu leyti undir næsta verkþátt.
Umhverfi og mannvist
Stjórnandi: Guðrún Gísladóttir
Í þessum verkþætti verður einkum fengist við gróðurbreytingar og aðrar umhverfisbreytingar frá því fyrir landnám til nútíma. Ástæður breytinganna bæði náttúrlegar og af mannavöldum verða skýrðar. Markmiðið með rannsóknunum er að varpa ljósi á vistfræðilegar breytingar, landnýtingu og búskaparsögu og kanna áhrif þessa á ásýnd lands og landgæði. Landnýting og búskapur í tíð Snorra Sturlusonar er í forgrunni.
Rannsóknir á gróðurfari frá því fyrir landnám og þróun þess til nútíma
Rannsakað verður gróðurfar í Reykholtsdal og Hálsasveit svo og seljalöndum Reykholts. Byggt verður á lýsingum um gróðurfar í fornritum og öðrum ritheimildum, örnefnum og kortum. Einnig verða notuð frjókorn, sem varðveist hafa í jarðlögum og vatnaseti og stuðst við gjóskulög við tímasetningar.
Megináhrifavaldar gróðurfarsbreytinga verða skýrðir, bæði náttúrlegir og manngerðir. Þá verður gerður samanburður á niðurstöðum frjógreininga og lýsinga í ritheimildum um gróðurfar. Unnið verður kort um gróðurfar fyrir mismunandi tímabil sem byggja á upplýsingum ritheimilda, örnefna og frjókorna- og gjóskulagarannsókna.
Rannsóknir á áhrifum búsetu og landnýtingar á umhverfi
Áhersla er lögð á stjórnun landnýtingar og áhrif hennar á ásýnd lands og gæði. Kannaður er bústofn, landnýting, eignarhald og völd og þar með réttur til landnýtingar svo og eðli hennar. Rannsóknin nær til Reykholtsdals og Hálsasveitar svo og seljalanda Reykholts frá landnámi til nútíma. Þessar upplýsingar verða tengdar jarðvegsrannsóknum á ræktuðu landi og beitarlandi, fornu og nýju, svo og gróðurrannsóknum. Í kjölfar þess verður unnið vistfræðilíkan þar sem náttúrufarsupplýsingar verða tengdar upplýsingum um mannvist og landnýtingu til þess að varpa ljósi á áhrif landbúnaðarsjórnunar á umhverfisbreytingar og skýra vistfræðilegar breytingar.
Björg Gunnarsdóttir landfræðingur vinnur að doktorsverkefni við Háskóla Íslands um gróðurfarsbreytingar frá landnámi og þróun þess til nútíma. Leiðbeinendur hennar eru Guðrún Gísladóttir dósent, Helgi Þorláksson prófessor og Ingibjörg Jónsdóttir dósent.
Egill Erlendsson landfræðingur vinnur að doktorsverkefni við Háskólann í Aberdeen um umhverfisbreytingar í kjölfar landnáms (500-15000). Hluti rannsókna Egils byggir á frjókornarannsóknum frá Reykholti. Aðalleiðbeinandi hans er dr. Kevin J. Edwards prófessor og meðleiðbeinandi er Guðrún Gísladóttir dósent.
Benedikt Eyþórsson sagnfræðingur vinnur að meistaraprófsverkefni við Háskóla Íslands undir leiðsögn Helga Þorlákssonar prófessors. Sagnfræðirannsóknir Benedikts tengjast einnig þessum verkþætti (sjá nánar 3b).
Meistaranemi við Háskólann í Stirling, mun vinna að stafrænu vistfræðilíkani fyrir seljalönd Reykholts frá landnámi til nútíma. Leiðbeinandi er dr. Ian Simpson
prófessor við Háskólann í Stirling, en auk þess kemur Guðrún Gísladóttir að verkefninu.
Að þessum rannsóknum koma auk leiðbeinanda og doktorsnema Savar Sigmundsson, Guðrún Sveinbjarnardóttir, dr. Andrew J. Dugmore við Edinborgarháskóla og dr. Stefan Brink dósent við Uppsalaháskóla.
Þetta verkefni stendur í nánum tengslum við verkefnið Landscapes circum landnám (sbr.1) sem mun m.a. varpa ljósi á áhrif búskapar og annarrar landnýtingar í kjölfar landnáms.
Miðstöðin Reykholt
Stjórnandi: Bergur Þorgeirsson
Í þessum þriðja verkþætti verður einkum fengist við þrennt: a) Kirkjumiðstöð; b) Valdamiðstöð; c) Miðstöð bókmenningar. Allt þrennt, kirkja, veraldleg völd og bókmenning, skipti miklu máli fyrir Snorra Sturluson sem lagði undir sig hina kirkjulegu miðstöð og gerði úr henni meiri valdamiðstöð en áður hafði verið. Hér samdi hann líka, eftir því sem telja verður, hin kunnu ritverk sín. Spurt verður ma. hvernig hin kirkjulega miðstöð eða „staður“ í Reykholti nýttist Snorra í valdabaráttu og af hverju hann gerði Reykholt að valdamiðstöð sinni.
Kirkjumiðstöð
Stjórnandi: Helgi Þorláksson
Reykholt var einn hinna helstu staða Íslands í kirkjulegri merkingu þess orðs. Kannað skal hver var tilgangurinn með hinum elstu og stærstu stöðum. Vonast er til að könnun á sögu staðanna og erlendur samanburður geti auðveldað mönnum að svara þessu. Heppilegt er að hinn mikilvægi staður, Stafholt í sama héraði, býður upp á samanburðarefni. Snorri Sturluson náði báðum stöðum undir sig. Sigríður Júlíusdóttir lauk árið 2001 BA ritgerð um rekstur staðar í Stafholti og unnið er að sambærilegri BA ritgerð um Reykholt. Auk þess lauk Benedikt Eyþórsson BA ritgerð árið 2002 um stærstu staði og helstu bændakirkjur í Borgarfjarðarhéraði. Verkefnisstjóri er Helgi Þorláksson.
Haldinn var alþjóðlegur vinnufundur í Reykholti 3. október 2002 um kirkjumiðstöðvar. Kristnihátíðarsjóður veitti 1,3 milljóna króna styrk til þessa verkefnis. Ennfremur hefur hann veitt 400.000 krónum til útgáfu efnis sem flutt var á vinnufundinum.
Valdamiðstöð
Valdasamþjöppun á Íslandi á 12. og 13. öld er merkileg. Hvað olli henni? Fyrrnefnd BS ritgerð Tryggva Más Ingvarssonar sýnir að Reykholt lá vel við samgöngum og legan gat því skipt máli fyrir mann sem stefndi að myndun héraðsríkis og vildi víða láta til sín taka. Spurt er ma. hvort Snorri Sturluson hafi sóst eftir Reykholti vegna legu eða tekna af staðnum eða jafnvel frekar vegna táknræns mikilvægis staðarins. Veittu staðirnir virðingu sem tryggði pólitískt fylgi? Um mikilvægi félagslegs heiðurs (virðingar) fyrir Snorra Sturluson er fjallað í nýrri BA ritgerð Viðars Pálssonar. Um þessi atriði og önnur skyld er fjallað í nýrri bók, Sæmdarmenn.
Fengist hefur styrkur frá Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands til verkefnisins Reykholt, búskapur og rekstur. Benedikt Eyþórsson MA nemi safnar sagnfræðilegum gögnum og mun nýta þau í MA ritgerð. Hann vinnur í samstarfi við Óðin Haraldsson MA nema sem grafið hefur könnunarskurði á selstæði Reykholts í Kjarradal undir leiðsögn Orra Vésteinssonar og Guðrúnar Sveinbjarnardóttur. Í undirbúningi eru tengsl við norskt verkefni um sel. Jafnframt vinnur Benedikt í samstarfi við Ian Simpson í Sterling og Björku Gunnarsdóttur (sjá 2 að framan). Þau starfa ásamt Guðrúnu Gísladóttur, Sigríði Júliusdóttur og Helga Þorlákssyni að hinu samþætta, þverfaglega verkefni Rekstur staðar í Reykholti.
Miðstöð bókmenningar
Stjórnandi: Karl G. Johannson
Félagslegur heiður (virðing) var líka tengdur við menningar- og menntastarfsemi, í ritstörfum var fólgið „menningarlegt auðmagn“, svo að vísað sé til Pierre Bourdieus. Snorri Sturluson er frægur rithöfundur og Reykholtsverkefnið gefur sérfræðingum um bókmenningu miðalda færi á að hittast og ræða saman um verkin með hliðsjón af ævi og búsetu Snorra, viðfangsefnum hans, sögulegum kringumstæðum, bókmenntalegu umhverfi og erlendum hliðstæðum.
Ætlunin er að setja íslenska ritmenningu ( texta og ritun) í vítt samhengi, ma. með hliðsjón af læsi og skriftarkunnáttu, samfélagslegu hlutverki og evrópskum tengslum. Þessum undirverkþætti hefur verið skipuð samnorræn stjórn og eiga þar sæti Karl G. Johansson, lektor í Växsjö, sem er verkefnisstjóri, Bergur Þorgeirsson, Simonetta Battista við Árnastofnun í Kaupmannahöfn og Else Mundal, prófessor í Björgvin. Haldinn var samnorrænn, þverfaglegur, vinnufundur á útmánuðum 2001 í Reykholti um umrædd efni og fleiri tengd.
Í framhaldi af fundinum fékkst svo styrkur frá Norfa til þessa verkefnis að upphæð 280.000 nkr (3,2 millj. íkr) árlega, næstu þrjú til fimm ár. Komið verður á fót alþjóðlegu samstarfsneti (tengslaneti, „netverk“) og haldin málþing og rannsóknar-námskeið og gefin út rit um ofangreind efni. Haldið var alþjóðlegt málþing í Reykholti undir heitinu Maktens uttrykk og var efni þess, klaustur, kirkjur og veraldleg lærdómssetur. Þróun valdakerfis og ritmenningar á Íslandi á miðöldum. Málþingið var haldið dagana 4. og 5. október 2002 í beinu framhaldi af vinnufundinum um kirkjumiðstöðvar (sbr. a að ofan).
Ritaskrá
- Benedikt Eyþórsson: Í þjónustu Snorra. Staðurinn í Reykholti og klerkar í tíð Snorra Sturlusonar. Sagnir 25 (2003), 20-26.
- Benedikt Eyþórsson, Kirkjumiðstöðin Reykholt. Hinir stærstu staðir og bændakirkjur í Borgarfjarðar- og Mýrasýslu og sam band þeirra við útkirkjur. (BA ritgerð í sagnfræði. Leiðbeinandi Helgi Þorláksson. Júní 2002).
- Björg Gunnarsdóttir, Samanburður á gróðurlýsingum í Íslendingasögunum og núverandi gróðurfari á sömu stöðum (BS ritgerð í landafræði. Leiðbeinandi Guðrún Gísladóttir. September 2000).
- Brynja Birgisdóttir, Reykholt i Borgarfjördur. Delprosjekt: Hvítárvellir. Forprosjekt 2001.
- Guðrún Harðardóttir, Gerðir horfinna Reykholtskirkna. (Skýrsla fyrir Kristnihátiðarsjóðsverkefnið Rannsókn kirkjunnar í Reykholti).
- Guðrún Sveinbjarnardóttir, Reykholt í Borgarfirði. Framvinduskýrsla 2000. (Þjóðminjasafn Íslands. Rannsóknarsýrslur 2000, 4).
- Guðrún Sveinbjarnardóttir, Reykholt í Borgarfirði. Framvinduskýrsla 2001. (Þjóðminjasafn Íslands. Rannsóknarsýrslur 2001, 7).
- Karl G. Johansson, Reykholt och den europeiska skriftkulturen.
- Orri Vésteinsson, Menningarminjar í Borgarfirði norðan Skarðsheiðar. Svæðisskráning. (Fornleifastofnun Íslands 1996).
- Orri Vésteinsson, Fornleifaskráning í Borgarfirði norðan Skarðsheiðar II. Reykholt og Breiðabólstaður í Reykholtsdal. (Fornleifastofnun Íslands 2000)
- Reykholt in Borgarfjörður. An interdisciplinary research project. Workshop held 20-21 August 1999. Ed. Guðrún Sveinbjarnardóttir.
- Sigríður Júlíusdóttir, Staður í Stafholti. (BA ritgerð í sagnfræði. Leiðbeinandi Helgi Þorláksson. September 2001).
- Sæmdarmenn. Um heiður á þjóðveldisöld (2001).
- Tryggvi Már Ingvarsson, Leiðir tveggja alda í nágrenni Reykholts í Borgarfirði (BS ritgerð í landafræði. Leiðbeinendur Ingibjörg Jónsdóttir og Helgi Þorláksson. Janúar 2001).
- Viðar Pálsson: ‘Var engi höfðingi slíkr sem Snorri’. Auður og virðing í valdabaráttu Snorra Sturlusonar. Saga XLI:1 (2003), 55-96.
- Viðar Pálsson, Var engi höfðingi slíkr sem Snorri. Völd, auður og virðing Snorra Sturlusonar (BA ritgerð í sagnfræði. Leiðbeinandi Helgi Þorláksson. Júní 2001).
- Þóra Pétursdóttir. Fornleifaskráning í Borgarfirði, norðan Skarðsheiðar, IV. Jarðir í Reykholtsdal og um neðanverða Hálsasveit. (Fornleifastofnun Íslands 2002).
Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu
Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi
Opnunartímar Gestastofu
1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00
1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.