Tónleikar. Nordsjællands Sinfonia
Reykholtskirkja
Hljómsveitin kemur í tónleikaferð til Íslands 12. - 17. október næstkomandi.
Á efnisskránni eru Píanókonsert í a-moll, ópus 16 eftir Edvard Grieg
Stjórnandi: Jesper Grove Jørgensen, einleikari: Aladár Rácz.
Á efnisskránni eru Symfónía nr. 1 eftir Carl Nielsen; Forleikur að "Elverhøj" ópus 100 eftir F. Kuhlau og Nordiske fostbrødre (Norrænir fóstbræður) eftir H.C.Lumbye.
Hljómsveitin Nordsjællands sinfonia var stofnuð árið 2014 með velheppnuðum samruna tveggja þekktra hljómsveita, Københavns Sinfonia (stofnuð 1983) og Nordsjællands Symfoniorkester sem á rætur að rekja til ársins 1941. Tæplega sjötíu dugandi hljóðfæraleikarar leika nú í hljómsveitinni, sem er ein stærsta áhugamannahljómsveit í Danmörku. Sveitin er skipuð metnaðarfullum einstaklingum á öllum aldri og og leikur sígilda tónlist.
Verkefnaval hennar nær frá Vínarklassík til 20. aldar. Íslandsferðin er fyrsta tónlistarferð sveitarinnar eftir að hljómsveitirnar voru sameinaðar, en á síðustu áratugum höfðu báðar hljómsveitirnar áður haldið tónleika í Austurríki, Frakklandi, Ítalíu, Englandi. Lettlandi, Spáni, Tékklandi, Póllandi, þýskalandi, Rúmeníu, Slóveníu og Írlandi.
Hljómsveitarstjórinn, Jesper Grove Jørgensen lagði stund á tónfræði við Kaupmannahafnarháskóla og lauk prófi í kór- og hljómsveitastjórn við Konunglega danska tónlistarháskólann. 1975, að námi loknu, stjórnaði hann fyrst Tívolí symfóníuhljómsveitinni og hefur síðan verið mikilvirkur kór- og hljómsveitarstjóri.
Hann hefur stjórnað fjölmörgum dönskum atvinnu- og áhugamannahljómsveitum og fjölmörgum kórum í Noregi, Svíþjóð, Hollandi og Englandi. Á árunum 1982 - 1989 var hann fyrsti hljómsveitarstjóri og tónlistarráðunautur Kammerhljómsveitarinnar í Randers og hann hefur stjórnað fjölmörgum óperum og óperettum við Jótlandsóperuna, Óðinse leikhúsið og Sumaróperuna í Árósum. Frá 1985 hefur hann verið fastráðinn stjórnandi Lille MUKO (kór tónlistarnemenda við Kaupmannahafnarháskóla) og hann hefur mörgum sinnum stjórnað Nordsjællands Sinfonia.
Píanistinn Aladár Rácz er fæddur í Rúmeníu árið 1967. Hann stundaði fyrst nám í píanóleik við Georges Enescu tónlistarskólann í Búkarest en síðan framhaldsnám við Tónlistarháskólana í Búkarest og Búdapest. Einnig hefur Aladár tekið þátt í mörgum námskeiðum í Evrópu og sjálfur haldið masterclassnámskeið fyrir píanónemendur.
Hann hefur leikið á tónleikum víðsvegar um heiminn, leikið inn á geisladiska og unnið til verðlauna fyrir píanóleik í alþjóðakeppnum, m.a. á Spáni, Ítalíu og í Tékklandi. Síðan árið 1999 hefur Aladár starfað sem tónlistarkennari við Tónlistarskóla Húsavíkur, leikið með ýmsum kórum og söngvurum á Norður- og Austurlandi (s.s. Leikhúskórnum á Akureyri og Kammerkór Austurlands) og leikið einleik í Salnum í Kópavogi og með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í píanókonsert nr.1 eftir Ludwig van Beethoven og Brahms. Aladár hefur leikið Goldberg-tilbrigðin eftir J.S. Bach á tónleikum (m.a. í Salnum í Kópavogi) og fengið mikið lof fyrir leik sinn.
Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu
Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi
Opnunartímar Gestastofu
1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00
1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.