Þjóðsiðurinn að fara í sund
4. mars 2025

Þjóðsiðurinn að fara í sund

Bókhlaða

Þriðjudaginn 4. mars kl. 20 flytur Katrín Snorradóttir þjóðfræðingur fyrirlestur í Snorrastofu um samfélag og sögu sundlauga á Íslandi. Fyrirlesturinn, sem er hluti af fyrirlestraröðinni „Fyrirlestrar í héraði“, er öllum opinn og er aðgangur ókeypis.

Sundlaugum mætti allt í senn lýsa sem félagsheimili, líkamsræktarstöð, skólastofu, leikvelli eða heilsulind. Saga sundlauganna frá upphafi 20. aldar greinir frá breytilegu hlutverki þeirra; þær voru í upphafi byggðar sem slysavarnir og uppeldisstöðvar hreinna og hraustra líkama en þróuðust ekki síður sem samkomustaðir og félagslegur vettvangur. Um leið varð til ný þekking, sögur, siðir og háttalag á þessum blauta vettvangi mannlífsins. Kafað verður í sögu sundlauganna og menninguna sem skapast hefur á milli fólks í laugum landsins, þar sem sundgestir tengjast hver öðrum í heitu vatni á köldu landi.

Katrín, sem er frá Kleppjárnsreykjum í Reykholtsdal, lauk MA prófi í hagnýtri þjóðfræði frá Háskóla Íslands árið 2021. Lokaverkefni hennar fjallaði um þróun og einkenni sundlaugamenningar á Íslandi og 2023 kom út bókin SUND með rannsóknum Katrínar og Valdimars Hafstein þjóðfræðings um þessa uppáhaldsiðju margra Íslendinga.

 

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.