Prjóna-bóka-kaffið í Norrænu bókmenntavikunni...
11. nóvember 2019

Prjóna-bóka-kaffið í Norrænu bókmenntavikunni...

Bókhlaða Snorrastofu

Teikning Bárðar Óskarssonar fyrir Norræna bókmenntaviku

Í vikunni 11. - 17. nóvember tekur Snorrastofa þátt í Norrænu bókmenntavikunni, sem haldin hefur verið á vegum Norrænu félaganna á hverju ári allt frá árinu 1995. Yfirskrift vikunnar er: Norræn hátíð. Dagur íslenskrar tungu - 16. nóvember - fellur vel að boðskap vikunnar, að iðka tungu og bókmenntir um öll Norðurlönd.

 

 

 

Dagskrá vikunnar í Snorrastofu:

11. nóvember, mánudagur kl. 10

Morgunstund með börnum frá Kleppjárnsreykjum og Hnoðrabóli. Þórunn Reykdal les úr bók Astrid Lindgren þar sem boðið er til hátíðar á Sjónarhóli Línu langsokks. Eftir lesturinn fá börnin að njóta bókhlöðunnar um stund, skoða, teikna, spjalla. Hönnubúð veitir ávaxtasafa í hressingu.

14. nóvember, fimmtudagur kl. 20

Prjóna-bóka-kaffi með baðstofublæ. Hjónin Sigurbjörn Aðalsteinsson og Kristín Gísladóttir, rithöfundar og kvikmyndagerðarfólk kynna verk sín.

14. - 15. nóvember, fimmtudagur og föstudagur

Stefnumót grunnskólabarna við rithöfundana Sigurbjörn og Kristínu, sem kynna eldri nemendum Grunnskóla Borgarfjarðar bókaröð sína um Dagbjart Skugga og útlagana, sem tengist íslenskri arfleifð, norrænni goðafræði, Íslandssögu og þjóðsögunum okkar.  Dagbjartur elst upp við óvenjulegar aðstæður þar sem fjölskylda hans hefur verið gerð útlæg úr byggð og helst við í helli uppi á hálendi. „Tilgangurinn með útgáfu bókanna er að vekja áhuga ungs fólks (12-16 ára) á lestri, þjóðsögum og goðafræði, jafnframt því að segja skemmtilega og spennandi sögu. Í bókunum er notast við ýmis minni úr Íslendingasögum og norrænni goðafræði. Með nútímalegum frásagnarmáta og persónusköpun hyggjumst við gera sögurnar aðgengilegar fyrir unga lesendur í dag”, segja Sigurbjörn og Kristín um bókaröðina.

 

Á vef bókmenntavikunnar segir:

Í ár höldum við Norræna bókmenntaviku fyrir börn, unglinga og fullorðna til að fagna norrænum bókmenntum. Þemað "Norræn hátíð" er kjarninn í valinu á upplestrarbókunum og öðrum atburðum. Vegna 100 ára afmælis norrænu félaganna í Danmörku, Noregi og Svíþjóð viljum við leggja áherslu á skandínavískar bókmenntir í norrænu bókmenntavikunni. Í ár höfum við því valið upplestrarbækur frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð.

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.