"Minningarfyrirlestur um Snorra Sturluson. Náttúrulaus sagnalist,  eða lifandi gróður og lífrænir ávextir?"
1. október 2019

"Minningarfyrirlestur um Snorra Sturluson. Náttúrulaus sagnalist, eða lifandi gróður og lífrænir ávextir?"

Bókhlaða Snorrastofu

Viðar Hreinsson. Mynd Steini Surmeli 2016

Um forna sagnagerð og steingervinga textafræðinnar í ljósi vistrýni. 

Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur og sérfræðingur við Náttúruminjasafn Íslands og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar flytur.

Umhverfishugvísindi og vistrýni eru fræðasvið eða stefnur sem vaxið hefur ásmegin samfara vaxandi umhverfisvá. Umhverfisvandinn kallar á djúpstæðar breytingar á sambúð manna við umhverfi og náttúru og á svipaðan hátt hafa vistrýni og umhverfishugvísindi rutt nýjar leiðir og kveikt nýjan skilning í greiningu og túlkun bókmennta. Í erindinu verða viðraðar leiðir til að kanna fornsögur sem lífrænar menningarafurðir, með stuðningi vistrýni, fornrar náttúrusýnar og nýrrar (eða efnislegrar) textafræði.

Þriðjudagurinn 1. október kl. 20. Athugið breyttan tíma á fyrirlestrum vetrarins.

Kaffiveitingar og umræður - Aðgangseyrir 1000 kr. - Verið velkomin

Viðar Hreinsson lauk mag art prófi í bókmenntafræði frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1989. Hann kenndi í framhaldsskóla í tvö ár og síðan í tvö ár við Manitobaháskóla en var síðan sjálfstætt starfandi fræðimaður um langt árabil, lengst af við ReykjavíkurAkademíuna þar sem hann var einnig framkvæmdastjóri 2005-2010. Nú starfar hann sem vísindamaður við Náttúruminjasafn Íslands og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri.

Hann ritstýrði rómuðum enskum þýðingum Íslendingasagna og hefur lengi unnið að rannsóknum á íslenskri bókmennta- og menningarsögu, birt fjölda fræðigreina á Íaslandi og erlendis og ritað þrjár ævisögur. Ævisaga Stephans G. Stephanssonar, sem einnig er til í enskri gerð, hlaut tilnefningar og verðlaun á Íslandi og vestanhafs. Nýleg bók hans um Jón Guðmundsson lærða (1574-1658), Jón lærði og náttúrur náttúrunnar er í senn ævisaga, hugmyndasaga, vísindasaga og aldarfarslýsing. Sú bók var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlaut Viðurkenningu Hagþenkis sem besta fræðirit ársins 2016.

Undanfarin ár hefur hann rannsakað handritamenningu frá sjónarhóli umhverfishugvísinda og vistrýni og tekur þátt í nokkrum alþjóðlegum rannsóknarverkefnum á þeim vettvangi. Hann vinnur um þessar mundir að bók um náttúru, umhverfi og forna frásagnarlist.

 

 

Myndasafn

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.