Jón Viðar Sigurðsson, professor, instituttleder, head of department  Institutt for arkeologi, konservering og historie, Universitetet i Oslo
23. júlí 2024

Hagkerfi víkingaaldar og landnám Íslands

Bókasafn Snorrastofu

Þriðjudaginn 23. júlí kl. 20 flytur Jón Viðar Sigurðsson, prófessor í sagnfræði við Oslóarháskóla, fyrirlestur í Snorrastofu í Reykholti, sem ber yfirskriftina  „Hagkerfi víkingaaldar og landnám Íslands“. Fyrirlesturinn, sem er hluti af fyrirlestraröðinni „Fyrirlestrar í héraði“, er öllum opinn og er aðgangur ókeypis.

Við Íslendingar erum alin upp í þeirri söguskoðun að landnámið (um það bil 870-930) hafi átt sér stað vegna þess að landnámsmenn hafi flúið Noreg sökum ofríkis Haralds hárfagra. Ekki er ástæða til að efast um að þetta hafi verið örlög nokkurra þeirra, en á ekki við um stærstan fjölda landnámsmanna. Möguleikar þeirra til að koma undir sig fótunum og auðgast tengdust ekki auðlindum sem hér fundust, þær voru (nánast) engar. Því var nauðsynlegt að tengja búreksturinn sem best við hina miklu skipaframleiðslu víkingaaldar. Á tímabilinu ca. 870-1050 voru skip „fjöldaframleidd“ í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Til að byggja skip þurfti timbur, járn og ull í segl. Í þessum fyrirlestri verður þeirri hugmynd haldið fram að landnám á Íslandi og búseta í landinu hafi verið möguleg vegna ullarframleiðslu og að útflutningur á vaðmáli hafi hafist fljótlega eftir að land var numið.

Jón Viðar er sem fyrr segir prófessor í sagnfræði við Oslóarháskóla og deildarforseti Institutt for arkeologi, konservering og historie. Hann hefur birt og ritstýrt fjölda bóka og greina um víkingatímabilið, til dæmis Viking Friendship. The Social Bond in Iceland and Norway, c. 900-1300 (2017), og Scandinavia in the Age of Vikings (2022).

Fyrirlesturinn er styrktur af Uppbyggingarsjóði Vesturlands.

 

 

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.