Fyrirlestrar í héraði: Sjálfsbókmenntir í sögulegu ljósi - stigmögnun sjálfstjáningar
22. október 2019

Fyrirlestrar í héraði: Sjálfsbókmenntir í sögulegu ljósi - stigmögnun sjálfstjáningar

Bókhlaða Snorrastofu

Sigurður Gylfi Magnússon prófessor

Þriðjudaginn 22. október 2019 kl. 20. Sigurður Gylfi Magnússon prófessor í menningarsögu við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands flytur.

Árum saman voru félagssagnfræðingar tregir til að nýta sér við rannsóknir persónulegar minningar fólks nema í mjög afmörkuðum tilgangi. Á síðari árum hefur orðið grundvallarbreytinga á hugmyndum fræðimanna um stöðu slíkra minninga í vísindarannsóknum. Í fyrirlestrinum verða reifuð helstu rök og gerð grein fyrir þeim hugmyndum sem ég hef sjálfur um efnið eftir þriggja áratuga reynslu af notkun þeirra. Ég mun sýna fram á að minningar fólks geti verið varhugaverðar í vísindarannsóknum en engu að síður óhjákvæmilegt viðfangsefni allra sem kljást við fyrri tíð. Skoðaðar verðar ólíkar tegundir sjálfsbókmennta og rætt um kosti og galla þeirra.

Kaffiveitingar og umræður

Aðgangur kr. 1000

Verið velkomin og athugið breyttan tíma

Dr. Sigurður Gylfi Magnússon er prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands auk þess að vera yfir Miðstöð einsögurannsókna á sama stað (sjá heimasíðu hans: www.sgm.hi.is). Hann er höfundur 24 bóka og fjölda greina sem hafa birst á Íslandi og annarsstaðar í heiminum. Nýjustu bækur hans á ensku eru: Wasteland with Words. A Social History of Iceland (London: Reaktion Books, 2010); What is Microhistory? Theory and Practice (London: Routledge, 2013), meðhöfundur er dr. István M. Szijártó og Minor Knowledge and Microhistory (London: Routledge, 2017), meðhöfundur er dr. Davíð Ólafsson.

Sigurður Gylfi er einn þriggja ritstjóra Sýnisbókar íslenskrar alþýðumenningar en í ritröðinni hafa birst 24 bækur á sviði hversdagssögu, einsögu og heimildafræði (www.sia.hi.is). Hann er ásamt István M. Szijártó ritstjóri nýrrar ritraðar sem hið alþjóðlega bókaforlag Routledge gefur út og nefnist Microhistories. Hann fer fyrir öndvegisverkefni Rannís sem nefnist „Heimsins hnoss“ (www.hh.hi.is) og tekur þátt í öðru öndvegisverkefni sem ber heitið „Fötlun fyrir tíma fötlunar“ (www.dbd.hi.is) og dr. Hanna Björg Sigurjónsdóttir leiðir.

 

Myndasafn

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.