"Fyrirlestrar í héraði: Klausturhald, konur og pólitík - 2. apríl"
2. apríl 2019

"Fyrirlestrar í héraði: Klausturhald, konur og pólitík - 2. apríl"

Bókhlaða Snorrastofu

Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur flytur.

Kristnitakan um árið 1000 fól í sér nýja stjórnskipan í landinu, byggðri á reglugerðum frá höfuðstöðvum kaþólsku kirkjunnar í Róm. Í fyrstunni gekk ágætlega að fylgja þeim eftir en eftir að Gregor páfi VII hóf að innleiða siðbætur sínar uppúr miðri 11. öld urðu um þetta deilur. Hérlendis var deilt um staðina, skipan í kirkjuleg embætti, refsingar og – síðast en ekki síst – ríkjandi sambúðarform. Eftir að deilunum lauk undir lok 13. aldar náði Rómarkirkja að koma sér í býsna vænlega stöðu hér á landi, m.a. í gegnum öflugt klausturhald. Í fyrirlestrinum verður farið yfir sögu klausturhalds í landinu á kaþólskum tíma og það hvernig konur og nýjar reglur um sambúðarmál fléttuðust í deilur kirkjuvalds og höfðingja.

Kaffiveitingar og umræður.

Aðgangseyrir er kr. 500.

Steinunn Kristjánsdóttir  fæddist í Barðastrandarsýslu árið 1965. Hún stundaði m.a. nám við Héraðsskólann í Reykholti en lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði 1986 og stundaði síðan nám í fornleifafræði við háskólann í Gautaborg. Þaðan lauk hún BA prófi í greininni árið 1993 og meistaraprófi ári síðar. Doktorsprófi lauk hún við sama skóla árið 2004. Steinunn stjórnaði fornleifarannsóknum á Skriðuklaustri frá 2002 til 2012 og hefur sinnt rannsóknum á klausturhaldi hérlendis síðan þá. Hún hóf störf sem lektor í fornleifafræði árið 2006, fékk framgang í stöðu dósents árið 2010 og síðan stöðu prófessors árið 2012. Steinunn er einnig deildarforseti Sagnfræði- og heimspekideildar HÍ.

Myndasafn

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.