Fyrirlestrar í héraði: Er það Mímir við sinn brunn? Snorri Sturluson þjóðardýrlingur Norðurlanda
25. apríl 2017

Fyrirlestrar í héraði: Er það Mímir við sinn brunn? Snorri Sturluson þjóðardýrlingur Norðurlanda

Bókhlaða Snorrastofu

Simon Halink Simon Halink

Símon Halink doktorsnemi í sagnfræði flytur.

Kaffiveitingar og umræður.

Aðgangseyrir kr. 500

Á þessu ári eru nákvæmlega sjötíu ár liðin frá því að Snorrahátíðin 1947 var haldin í Reykholti. Á sólríkum degi í júlímánuði sama ár, myndaðist umferðaröngþveiti í Borgarfirði og mannfjöldinn varð meiri en áður hafði þekkst í héraðinu. Talið er að um  fimmtán þúsund Íslendingar, eða um tíu prósent þjóðarinnar, hafi flykkst í  Reykholt til að vera vitni að atburðum þessa sögulegu dags. Fánar voru dregnir að húni, fluttir þjóðsöngvar Íslands og Noregs , og styttan fræga eftir Gustav Vigeland, sem “Norðmenn reistu”, var afhjúpuð. Norskir og íslenskir forystu- og aðalsmenn voru komnir saman til heiðurs manninum, sem fræðimaðurinn Tim Machan kallaði nýlega svo mikilvægan, “að við hefðum þurft að skapa hann ef hans hefði ekki notið við”.

Engu að síður hefur Snorri ekki alltaf verið þjóðardýrlingur Norðurlanda, og minning hans ekki verið óumdeild. Í hátíðarræðu sinni gaf Jónas frá Hriflu til kynna, að bækur Snorra hefðu ekki vakið “ sérlega eftirtekt, fyrr en höfundurinn hafði hvílt öldum saman í gröf sinni.” Meginspurning fyrirlestrarins er því sú : Hvað gerðist? Hvaða sögulegu aðstæður hafa valdið því að Snorri gleymdist ekki alveg, og að hann gegnir enn í dag  mikilvægu hlutverki í menningarlífi Íslands, Noregs og Danmerkur? Hvernig varð hann þjóðardýrlingur tveggja, eða jafnvel þriggja þjóða?

Fyrirlesari mun gera grein fyrir jarðnesku framhaldslífi skáldsins í Skandinavíu, frá því um  1800 fram til dagsins í dag.  Markmið fyrirlestrarins er að útskýra feril Snorra eftir dauða hans, og hvernig hann varð eins konar ‘Homer Norðursins’. Minningarstaðurinn Reykholt verður til skoðunar (memory place) og ímyndir Snorra í nútímanum þar sem netið og dægurvinsældir (popular culture) hafa eytt landamærum. 

Simon Halink er fæddur í Hollandi, þar sem hann lauk meistaranámi í nútíma- og menningarsögu við háskólann í Utrecht árið 2007. Lokarannsókn hans fjallaði um ímyndir af Íslandi í Þýskalandi Hitlers, og upplifun þýskra nasista á Íslandi. Hann lærði íslensku  og árið 2011 hóf hann doktorsnám við háskólann í Groningen í Norður Hollandi. Doktorsritgerð hans fjallar um norræna goðafræði og þjóðernishyggju á Íslandi frá u.þ.b. 1820 til 1918 þegar íslenska konungsríkið var stofnað. Hann vinnur einnig sem leiðsögumaður á Íslandi, og hefur kennslu við Háskóla Íslands haustið 2017.

Snorrastofa býður alla velkomna að hlýða á áhugavert málefni, sem tengist vel þeirri hátíð, sem fyrirhuguð er á sumri komanda til að fagna enn frekar hingaðkomu styttu Gustav Vigeland af rithöfundinum og höfðingjanum Snorra Sturlusyni. Boðið verður til kaffiveitinga og umræðna eins og venjan er.

Myndasafn

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.