Fyrirlestrar í héraði: Bílaverkstæði Guðmundar Kjerúlf 1960-1981
9. maí 2017

Fyrirlestrar í héraði: Bílaverkstæði Guðmundar Kjerúlf 1960-1981

Bókhlaða Snorrastofu

Guðmundur Ingi Kjerúlf Guðmundur Ingi Kjerúlf (1968)

Vorboðinn í fyrirlestrum Snorrastofu að þessu sinni verður erindi Guðmundar Inga Kjerúlf um bílaverkstæði föður hans, Guðmundar Kjerúlf, sem stóð með miklum blóma í Reykholti um tveggja áratuga skeið, 1960-1981.

Fyrirlesturinn verður í Bókhlöðunni þriðjudaginn 9. maí n.k. og hefst að venju kl. 20:30.

Guðmundur Kjerúlf flutti í Reykholt árið 1936 með foreldrum sínum Andrési Kjerúlf bónda á Akri og Halldóru Jónsdóttur. Hann nam bifvélavirkjun og vann þarnæst á bílaverksæði SÍS. Verkstæði sitt í Reykholti reisti hann fyrst í verslunarhúsi Steingríms Þórissonar, en árið 1963 byggði hann Litla-Hvamm í landi Breiðabólsstaðar, sem var sambyggt íbúðar- og verkstæðishús. Auk almennra viðgerða voru bílar ýmist smíðaðir þar, settir saman eða endurgerðir auk þess sem verkstæðið sinnti öðrum áhugaverðum verkefnum. Fjöldi manna og kvenna starfaði hjá Guðmundi og voru þar nær 20 starfsmenn þegar flest var. Smíðaðar voru rútur, eldhúsbílar og jeppar, kerrur og brýr svo eitthvað sé nefnt. Þá voru einnig fluttir inn bílar frá Belgíu, settir saman og aðlagaðir íslenskum aðstæðum. Með félaga sínum, Guðna Sigurjónssyni, smíðaði hann og gerði út tvær rútur, Soffíu II og III. Guðmundur hætti rekstri verkstæðisins 1981 og hlutafélagið Breiðverk tók við.

Nýlega er lokið endurgerð Soffíu II og Arnar Guðnason ekur henni í tilefni kvöldsins að Reykholti og segir frá endurgerðinni.

Guðmundur Ingi Kjerúlf er sonur Guðmundar og Ingibjargar Helgadóttur, fæddur á Akranesi 1968 og ólst upp í Litla-Hvammi í Reykholti. Hann lauk BA námi í heimspeki, MA prófi í stjórnmálafræði og hefur einnig lokið kennslufræði, allt við Háskóla Íslands. Hann starfar nú að fræðslumálum hjá Vinnueftirliti ríkisins.

Arnar Guðnason, húsasmiður, er einnig fæddur í Reykholti árið 1966, sonur Guðna Sigurjónssonar og Elínborgar Kristinsdóttur. Hann var einn af forvígismönnum þess að Soffíu II var bjargað frá eyðileggingu og gerð myndarlega upp.

Kvöldstundin með Guðmundi og Arnari er tilhlökkunarefni og Snorrastofa þakkar óeigingjarnt framlag þeirra í þágu atvinnu- og mannlífssögu héraðsins.

Aðgangseyrir er kr. 500.

Myndasafn

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.