"Fyrirlestrar í héraði: &quote;Var hún á leiðinni?&quote;"
30. apríl 2019

"Fyrirlestrar í héraði: &quote;Var hún á leiðinni?&quote;"

Önnur staðsetning

Svipast um eftir upphafi íslenskrar dægurtónlistar [1901 til 1930] – með fáeinum tóndæmum.

Trausti Jónsson veðurfræðingur og áhugamaður um tónlistarsögu er umsjónarmaður kvöldsins.

Upphaf íslenskrar dægurtónlistar er hulið nokkurri þoku. Henni létti að mestu í kringum 1930 þegar fyrstu lögin birtust á nótum og voru gefin út á hljómplötum. Fyrir þann tíma eru áþreifanlegar heimildir afskaplega óljósar. Dægurlög hafa þó alveg áreiðanlega verið samin og flutt af íslenskum höfundum frá því á 19. öld, því allmikið heyrðist af erlendri tónlist af því tagi og nótnaeign var allútbreidd. Fjöldi manna og kvenna lék á harmónikur, gítara, píanó og fleiri hljóðfæri og öll voru þau notuð á skemmtunum. Við gætum sjálfsagt með lagni og fyrirhöfn endurgert dansleiki þessa tíma.

Hér reynum við þó ekkert slíkt en einbeitum okkur að því „tónlistarléttmeti“ sem út kom á nótum fyrir 1930, eða hefur lifað af í handriti. Ekki var það mikið, en þó nægilega mikið til þess að fylla þessa dagskrá og rúmlega það. Nútíminn er e.t.v. í vafa um hvort þetta sé réttnefnd dægurtónlist – nema þá harmónikulögin. En varla er þetta ljóða- eða kórsöngur – og örugglega ekki sálmalög. Dálítið „lummó“ sumt, en samt hafa höfundarnir ábyggilega flestir hverjir verið bæði ánægðir með afkvæmin og stoltir af þeim – þó ekki hafi þau lifað lengi. Flestir höfundarnir eru líka illa gleymdir (ekki þó alveg allir).  Tími til kominn að einhver nútímaeyru fái að heyra.

Dagskráin fer þannig fram að fyrst gerir Trausti Jónsson grein fyrir lögunum og höfundum þeirra í stuttu erindi í Snorrastofu. Þar er líka stefnt að því að flytja fyrsta íslenska dægurlagið sem birtist á prenti (27. september 1901). Að erindi loknu er gengið til kirkju og þar verða lög eftir 13 höfunda, úrval úr safni þriggja tuga verka sem fundist hafa í þokuheimum, flutt af söngvurum og hljóðfæraleikurum. Tónlistarhópurinn, sem unnið hefur með Trausta að verkefninu, hefur fengið vinnuheitið Leitarsveitin og hún er skipuð tónlistarfólki úr héraði. Það eru þau Bjarni Guðmundsson (söngur og gítar), Jónína Erna Arnardóttir (píanó), Olgeir Helgi Ragnarsson (tenór), Ólafur Flosason (óbó), Sigurgeir Gíslason (harmónika),  Theodóra Þorsteinsdóttir (sópran) og Zsuzsanna Budai (píanó).

Trausti Jónsson (f.1951) er veðurfræðingur að mennt, veit ýmislegt um afkima íslenskrar tónlistarsögu, en kann þó fátt á því sviði. Hann hefur sinnt þar ýmsum verkum á fáförnum slóðum, gerði m.a. fjölmarga tónlistarþætti í útvarp (fyrir meira en 30 árum) og meira að segja líka í sjónvarpi. Hann er stjórnarmaður í „Íslenska einsöngslaginu h/f“.

Athugið breyttan tíma, aðgangseyrir kr. 1000, kaffiveitingar.

Verið öll velkomin

Myndasafn

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.