Féll niður vegna veikinda: Fyrirlestrar í héraði: List- og verkgreinar í grunnskóla: Nauðsyn eða afgangsstærð?
Bókhlaða Snorrastofu
Kristín Á. Ólafsdóttir, kennari við Menntavísindasvið Háskóla Íslands flytur.
Þriðjudagur 9. febrúar 2016 kl. 20:30 í Bókhlöðu Snorrastofu. Kaffiveitingar og umræður. Aðgangur kr. 500.
Í fyrirlestrinum verður byggt á rannsókninni Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar sem gerð var á 20 íslenskum grunnskólum í fjórum sveitarfélögum. Rannsóknin kom út í árslok 2014 og að henni unnu á þriðja tug fræðimanna við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Fyrirlesarinn skoðaði sérstaklega, ásamt fleirum í rannsóknarhópnum, list- og verkgreinar í skólunum og í þeirri athugun voru viðhorf nemenda, starfsmanna og foreldra til námsgreinanna könnuð. Í fyrirlestrinum verður einnig sagt frá öðrum nýlegum rannsóknum á list- og verkgreinum í íslenskum grunnskólum. Gildi og markmið greinanna verða rædd og einnig litið aftur um rúma öld til að rifja upp það sem forkólfar í skólamálum sögðu þá um menntun hugar og handa. Þeir sem gengu í barnaskóla upp úr miðri síðustu öld kannast kannski við að þessar greinar hafi verið kallaðar „aukagreinar“. Getur verið að þess gæti enn í viðhorfum foreldra grunnskólabarna og jafnvel innan skólanna?
Kristín Á. Ólafsdóttir býr í Véum í Reykholti og er kennari við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Þar kennir hún meðal annars verðandi kennurum leiklist í skólastarfi og tjáningu í töluðu máli. Kristín er menntaður leikari frá Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur og hefur bæði leikið og leikstýrt auk þess að vinna við dagskrárgerð í sjónvarpi og útvarpi. Hún lauk meistaranámi í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands 2007.
Segja má að fyrirlesturinn sé upptaktur að listavori í Snorrastofu en þriðjudaginn 3. maí næstkomandi verður haldin barnamenningarhátíð í Reykholti. Þar verður skapaður vettvangur fyrir afrakstur skapandi vinnu nemenda í grunnskólum héraðsins, sem tengist Snorra Sturlusyni og samtíð hans. Nemendur fylgja vinnu sinni sjálfir úr hlaði og býðst einnig að eiga stefnumót við ýmis konar verkstæði og vinnu, sem tengjast þessum tíma.
Myndasafn
Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu
Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi
Opnunartímar Gestastofu
1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00
1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.