Kirkjusaga Reykholts
Kirkja í Reykjaholti
Sonur Gríms hins háleygska, landnámsmanns á Hvanneyri var Úlfur hinn auðgi er nam Geitland. Goðorðsmenn af ætt Úlfs hins auðga í beinan karllegg stofna til kirkjuhalds og mjög snemma til staðar í Reykjaholti og flytja þangað búsetu sína og höfuðból. Kirkjan er ecclesia propria hereditatis, einkakirkja þeirra að öllu leyti í öndverðu. Reykjaholtsmáldagi er elzti máldagi á norðurlöndum sem varðveittur er í frumriti. Lýsir hann stofnfje kirkju þar.
Reykjaholtskirkja og goðorðsmenn
Goðorðsmenn af ætt Úlfs hins auðga í beinan karllegg stofna til kirkjuhalds og mjög snemma til staðar í Reykjaholti og flytja þangað búsetu sína og höfuðból. Kirkjan er ecclesia propria hereditatis, einkakirkja þeirra að öllu leyti í öndverðu.
Reykjaholtsmáldagi er elzti máldagi á norðurlöndum sem varðveittur er í frumriti. Lýsir hann stofnfje kirkju þar. Því telur hann ekki aðrar bújarðir en heimastaðinn í Reykjaholti auk Geitlandsins og að öðru leytiheimanfylgju sína. Lúðvík Ingvarsson hefur ritað “Um goðorð og goðorðsmenn”, (Egilsstöðum, 1986) Telur hann, að sömu ættmenn hafi farið með goðorð Tungu-Odds um kristnitöku og þá fóru með Geitlendingagoðorð. Næsta víst er, að goðorðsmenn þessir lögðu Reykjaholtskirkju til stofnfje sitt og er í máldaganum næst á eftir eign kirkju í heimalandi staðarins talin eign kirkjunnar í Grímsá, sem hún enn nýtur að hluta, þá selland kirkjunnar í Kjör og afrjettur hennar á Hrútafjarðarheiði, ítök í Faxadal og Geitland með skógi. Þvínæst er talin skógur kirkjunnar, Pétursskógur í Sanddal með landamerkjum og skógur í Þverárhlíð að viða til sels þar. Þessi heimanfylgja er talin í elzta hluta máldagans og er stofnfje kirkjunnar í Reykjaholti.
Fjórar kynslóðir Geitlendinga höfðu farið með eignarhald Geitlands, áður en kirkjuhald hófst í Reykjaholti á vegum Geitlendinga. Síðasti “Geitlendingurinn”, Hrólfur, var kenndur við Geitland, en sonur hans, Þórður, kenndur við Reykjaholt. Sonur hans var Magnús prestur, faðir Sölva prests, en Páll prestur, sonur hans, skjalfestir eignarheimild kirkjunnar að landinu að flestum líkindum. Hann er fjórði ættliður frá þeim, sem fyrstur er talinn til Reykholtspresta.
Fyrstu prestar í Reykjaholti, – síðustu Geitlandsgoðarnir
Frá Grími háleygska, um 860, eru raktir goðar kenndir við Geitland, síðar Reykjaholt. Sonur Gríms var;
- Úlfur hinn auðgi, um 883, hans sonur;
- Hrólfur hinn auðgi, um 907 og Hróaldur Úlfssynir; hans sonur;
- Hrólfur hinn yngri Hróaldsson, um 930, hans sonur;
- Sölvi Hrólfsson í Geitlandi, bróðir Illuga rauða; var faðir
- Þórðar prests í Reykjaholti, sem Lúðvík telur vera fæddan um 1005 -1015. Hans er getið í öllum heimildum. “Þar sem faðir hans var kenndur við Geitland en Þórður við Reykjaholt, liggur nærri að álykta, að annar hvor hafi fyrstur gert bæ í Reykjaholti”. ( Lúðvík Ingvarsson, Goðorð og goðorðsmenn, II, 389 )
- Magnús prestur Þórðarson um 1048 er sá, sem talinn er meðal þeirra kynbornu höfðingja, sem vígðir voru á dögum Gizurar byskups. Ef til vill hefur Magnús ekki lifað fram yfir 1118, því að í Kristni sögu er hans ekki getið í hópi höfðingja, sem voru í landinu, þegar Gissur biskup dó, – segir Lúðvík og telur hann geta hafa þá verið um sjötugt, hafi hann lifað. Í tíð Magnúss prests telja margir fræðimenn, að staður hafi verið settur í Reykholti, en þar er orðinn staður þegar Þorlákur Runólfsson var vígður byskup eftir Gizur Ísleifsson. Var hann vígður að Gizuri byskupi lifanda og neitaði erkibyskup að setja höfuð á höfuð ofan í Skálholti. Var því herra Þorlákur vígður til Reykjaholts. Bendir þetta til þess, að Reykholt hafi þá þegar verið í óskoraðri kirkjunnar eigu og staður svo burðugur, að borið hafi getað svo tigið embætti að nafni til, sem byskup var, en þá voru engin klaustur til orðin á Íslandi, að borið gætu. Magnús Þórðarson er faðir;
- Sölva Magnússonar sem vígður var 1128 skv. Gottskálksannál. Sonur hans er Páll Sölvason, faðir Magnúss prests, sem seldi Snorra Sturlusyni heimildir að staðnum í Reykjaholti um 1206. Annan hvorn þessara feðga og þó líklega Pál, telur Guðvarður Már Gunnlaugsson að hafi ritað elzta hluta Reykjaholtsmáldaga.
(Lúðvík Ingvarsson: Goðorð og goðorðsmenn II, 371-379.)
Ecclesia propria hereditatis
Reykholtskirkja á rætur að rekja til tveggja landnámsætta: Geitlendinga og Breiðbælinga: Reykjaholt byggðist úr landnámsjörð Breiðbælinganna, en prestarnir koma úr ranni Geitlendinganna.
Á skrám Landnámu um göfugustu landnámsmenn er talinn síðastur í Sunnlendingafjórðungi Önundur breiðskeggur. Sonur hans var Tungu-Oddur, sem enginn efi leikur á, að hafi verið goðorðsmaður. Eru verulegar líkur til, að goðorð næst fyrir sunnan Hvítá hafi í fyrstu verið í eigu tveggja ætta; ættar frá Önundi breiðskegg Krömu- Oddssonar annars vegar og hinsvegar Geitlendinga, afkomenda Úlfs Grímssonar hins háleygska, en en báðir komu hingað út með Skalla- Grími Kveld- Úlfssyni. Að líkindum fóru niðjar þessara landnámsmanna með vestasta goðorð sunnlendingafjórðungs, unz það sameinast og verður Reykhyltingagoðorð.
Sjá nánar auk Landnámu:“ Um goðorð og goðorðsmenn: Lúðvík Ingvarsson, (II, 371):
Ríkin að baki kirkju í Reykjaholti
Nyrztu byggðir vestast í Sunnlendingafjórðungi eru Reykholtsdalur og Hálsasveit. Landfræðilega er Hálsasveit framhald Reykholtsdals, sem að fornu nefndist Reykjadalur hinn nyrðri til aðgreiningar frá Reykjadal hinum syðra, sem nú nefnist Lundar-Reykjadalur. Eru þessir megindalir, er ganga í austur upp af láglendi Borgarfjarðar sunnan Hvítár. Segir í Landnámu, að Krömu-Oddur hafi numið Reykjadal hinn nyrðra og alla tungu á milli Reykjadalsár og Hvítár og upp til Deildargils og bjó á Breiðabólsstöðum, um það bil í miðju landnámi sínu. Hans sonur var Önundur breiðskeggur, faðir Tungu-Odds á Breiðabólsstöðum. Kemur Reykjaholt fyrst við ættarsögu niðja hans, er Hallbjörn Oddsson frá Kiðabergi vóg konu sína, Hallgerði dóttur Tungu-Odds.
Landnám Úlfs hins auðga tekur þar við upp frá Deildargili og markast annars af Hvítá og suðurjöklum. Illugi rauði bjó á Hraunsási, áður en hann flutti sig að Hofsstöðum í Hálsasveit “vegna hofskyldunnar” svo sem segir í Landnámu.
Elztu kirkjurnar
Sölvi Hrólfsson í Geitlandi, bróðir Illuga rauða, var faðir Þórðar prests í Reykjaholti. Ekki er ólíklegt, að hann, fremur en Þórður prestur sonur hans, hafi byggt elztu Reykjaholtskirkju í öndverðri kristni. Lítil, torfhlaðin kirkja, 4,8×3 metrar að innanmáli, hefur verið grafin úr jörðu undan gólfum yngri kirkna. Sú kirkja gæti verið kirkja þeirra feðga, en Þórðar er getið er á staðnum á fyrri hluta 11. aldar. Stærri kirkja af timbri var þar risin á 11. öld. Um 1220 reisti Snorri Sturluson kirkju um 12×6 metra að stærð. Stóð hún fram til siðbótar, en hverfur þá án heimilda. Var hún metin til 5 kýrverða árið 1518, er síra Jón Einarsson sleppti staðnum í hendur síra Ólafi Gilssyni og var þá hrörleg orðin. Síra Ólafur endurbætti kirkjuna með sterklegum stórviðum, sóktum á reka kirkjunnar á Ströndum vestur. Var hún metin til 40 kýrverða, er hann seldi staðinn af hendi til eftirmanns sín árið 1536.
Niðjar Sölva Hrólfssonar héldu staðinn þar til Magnús Pálsson seldi hann í hendur Snorra Sturlusyni í byrjun 13. aldar. Eigi gekk staðurinn úrættis við þessi kaup, því Helga, móðuramma Snorra, var Þórðardóttir Magnússonar, Þórðarsonar Sölvasonar. Höfðu þessir langfeðgar Snorra þá sett stað í Reykjaholti og elft svo, að Reykjaholt er talið á meðal auðugustu staða á 12. öld. Er Reykjaholt í Borgarfirði jafnframt á meðal elztu staða í landinu. Þar var kirkjumiðstöð frá því á öndverðri þeirri öld, jafnframt því, að staðinn héldu virðingarmiklir höfðingjar.
Frændsemi um eflingu kirkjuhalds í Sunnlendingafjórðungi
Um 1100 situr Reykjaholt Magnús Þórðarson, sem líklegt er að stofnað hafi þar til staðar, hafi það ekki verið Þórður Sölvason, faðir hans, sem það gjörði. Í Kristni sögu er hans getið í tölu vígðra goðorðsmanna, samtíðarmanna Gizurar Ísleifssonar og er sennilegt talið að hann hafi gerzt sporgöngumaður byskups og sett stað í Reykjaholti í upphafi 12. aldar. Hróaldur Úlfsson, afi Sölva samkvæmt Sturlubók Landnámu, var faðir Halldóru, er átti Gizur hvíti og þeirra dóttir var Vilborg, kona Hjalta Skeggjasonar. Þar eru augljós tengsl við þá ætt, er setti byskupsstól í Skálaholti og mest gekkst fyrir stofnunum kristni í landinu. Höfðingjar gengust undir skyldur um kirkjuhald við kristnitöku, er tók við af skyldum við hofshald. Sturlubók og Melabók Landnámu ber ekki saman um kyn Sölva í Geitlandi. Sturlubók segir hann vera son Hrólfs yngra Hróaldssonar Úlfssonar Grímssonar hins háleygska, en í Melabók er Hrólfur talinn vera Kjallaksson Bjarnarsonar hins austræna Ketilssonar flatnefs. Hrólfur Kjallaksson í Geitlandi var afi Þórðar Sölvasonar í Reykjaholti, Halldórs Illugasonar hins rauða á Hólmi, sem þar reisti kirkju, og Kjallaks á Lundi, en ekki er ólíklegt að hann hafi komið að stofnun kirkjuhalds þar. Mannamót fylgja hvoru tveggja helgihaldi. Ýmsar félagslegar þarfir manna venzlast við hvort tveggja, blót og eins við tíðahald kristinna manna; viðskipti, leikar og skemmtanir. Baðsetur voru algengar framan af öldum og mönnum gagnlegar í félagslegu samhengi. Laug hefur verið stunduð í Reykjaholti allt frá því á 10. öld. Þar sat Tungu-Oddur, er tengdasonur hans vó konu sína, dóttur Odds, heima á Breiðabólsstöðum. Oddur átti skyldu til að halda uppi hofi á Hofsstöðum á móti Illuga rauða. Hann bjó fyrst á Hraunsási, en fluttist að Hofsstöðum vegna hofsskyldunnar, en síðar að Hólmi, þar sem Halldór sonur hans reisti kirkju. Hvort tveggja kann þetta samhengi að hafa stuðlað að því að kirkja var reist nærri hinni heitu laug Breiðbælinganna og í heimalandi þeirra. Skýrist þá aðkoma Geitlendingagoðanna að kirkjuhaldi í Reykjaholti af hinum gömlu helfningaskiptum um hofshaldið.
Staður og kirkjumiðstöð í Reykjaholti
Það voru prestvígðir goðorðsmenn af ætt Geitlendinga sem gerðu kirkjuhald í Reykjaholti að kirkjumiðstöð þeirri, sem fræðimenn telja þar hafa verið þegar við lok 11. aldar.
Árið 1118 er Þorlákur byskup Runólfsson vígður byskupsvígslu til staðarins í Reykjaholti, en erkibyskup vildi ekki vígja hann til Skálaholts að Gizuri byskupi lifanda. Þetta er fyrir upphaf klaustra í landinu og var því engri slíkri höfuðkirkju til að dreifa, að byskup mætti vígja til við þessar aðstæður. Hins vegar var þá kominn staður í Reykjaholti og höfuðkirkja, er undir slíkri vegsemd mátti standa, enda var Reykjaholt þegar frá öndverðu í tölu auðugustu höfuðstaða kirkju og kristni í landinu.
Þjónustusvæði Reykjaholtskirkju
Á fyrri hluta 14. aldar liggja tíundir af 37 bæjum til Reykholts og skipar það staðnum í tölu stærstu þinga. Um 1600 var þaðan þjónað sex útkirkjum. Hálfkirkjur voru á Hæli í Flókadal, á Stóra-Kroppi, í Deildartungu, á Sturlu-Reykjum, og á Skáney í Reykholtsdal. Kirkna er getið á Hömrum og bænhúss á Steindórsstöðum, þar sem komið hefur upp gröftur kristinna manna við framkvæmdir og eins á Hæli. Kirkjum í Deildartungu og á Stóra-Kroppi þjónuðu að líkindum heimaprestar á 13. öld, en var þjónað síðar frá Reykholti. Kirkja var á Skáney frá því eigi síðar en á öndverðri 14. öld og á Hæli í Flókadal og á Sturlu-Reykjum líklega frá því á 15. öld.
Miklar heimildir eru um sögu staðar í Reykholti í máldögum kirkjunnar. Reykjaholtsmáldagi greinir stofnfé og eignasöfnun kirkjunnar í Reykholti um aldar skeið, en yngsti hluti hans mun vera frá því um 1300.
Samkvæmt Reykjaholtsmáldaga er „kirkja sú, er stendur í Reykjaholti, helguð með Guði Maríu, móður Drottins og hinum helga Petro postula, Dionysio byskupi og henni helgu Barbare meyju.”
Kirkjuskipan
Ákvæði kristinna laga Grágásar um greiðslur fyrir prestsverk og þjónustu benda til mikils hörguls á prestum á 11. öld og fara raunar í bága við almennan kirkjurrjtt, sem bannaði prestum að syngja messu oftar en einu sinni á dag, en hjerlendis var miðað við tvær messur daglega, sem bendir til meiri eftirspurnar um þjónustu við kirkjur bænda en framboð presta. Árangur einstakra presta eða vinsældir gæti einnig hafa haft áhrif á innheimtu tíundanna og orðið til þess að auka hlut þeirra kirkna og kirkjubænda sem hlut áttu í tíund og aukið hróður þeirra um leið og viðkomandi kirkja efldist. Vald byskups fólst einkum í því, að hann rjeði tíundarumdæmum, skiptingu tíunda á milli kirkna, en af tíundarumdæmun þróaðist síðar sóknaskipan í landinu.
Sú kirkjuskipan, er innleidd var á Íslandi í öndverðri kristni, víkur í mörgu frá því, sem gerðist í grannlöndunum. Kirkjan laut forystu innlendra höfðingja, er reistu stofnanir hennar og áttu bæði kirkjur og staði, sem þeir gáfu til kirkju að skilningi landslaga. Þar sem páfalög fóru í bága við landslög, réðu landslög.
Tíund er hjer lögtekin árið 1096 eða 1097. Sjálf tíundarlögin eru til marks um þetta, en páfans lög bönnuðu, að dautt fje væri selt á leigu. Tíundarlögin gera hins vegar ráð fyrir arði af aleigu manna. Menn skyldu virða fje sín sjálfir og gjalda tíunda hluta arðs af skuldlausri eign árlega, en fje var ætlaður tíundi hluti til vaxtar um árið.
Tíund skiptist hjer í fjóra hluti: Kirkjuhlutur, prestshlutur, fátækra hlutur og byskups hlutur. Þeir höfðingjar, sem kirkjur áttu og hjeldu presta, fengu haldið þremur hinum fyrst nefndu fjórðungshlutum, en urðu að skila byskupstíund. Hvatti þetta fyrirkomulag þá til þess að efla kirkjur sínar að eignum, en kirkjufje var undanþegið tíund. Höfðingjar gátu þannig eflt kirkjur sínar til stóreigna og sparað sjálfum sér tíundargjald, en fóru með eign alla og rjeðu henni. Hvorki máttu þeir rýra hana að verðgildi né skipta henni. Kristnirjettur sá, er hér var í lög leiddur á fyrsta þriðjungi 12. aldar, breytir í engu þessari skipan. Á hana fór fyrst að reyna, er Þorlákur helgi hóf upp kröfu um forræði kirkjueigna á síðasta fjórðungi 12. aldar.
Hin elztu umdæmi tíundarinnheimtu virðast vera mjög misstór og hin stærstu þeirra gætu hafa orðið grundvöllur kirkjumiðstöðva svo sem þeirra lykilstaða, er báru uppi kirkjulega þjónustu frá því á 12. öld.
Nokkrar ástæður eru taldar fyrir setningu staða: Auðugir menn gjörðu það til Guðs þakka og til eflingar Guðs kristni og sáluhjálpar sjálfra sín. Var þetta og liður í skipan kirkjulegrar þjónustu í landinu. Stórlyndum mönnum gat verið það metnaðarmál að efla kirkju sína svo að tekjum og þjónustuburðum að sómi þeirra og staða yxi af verkinu um leið og þeir höfðu íhlutun um ráðstöfun þeirra tíunda er til staðar lögðust. Staðir og staðaféje var undanþegið tíundargjaldi, enda kirkjueign, en sá er staðinn hélt fór með fje þetta, nánast eins og hann ætti sjálfur. Staðir eru stundum nefndir erfðastaðir, enda erfðist hald þeirra í ætt gefandans, að minnsta kosti framan af, með öðrum erfðarjetti. Í því sambandi varðar það miklu, að staðir erfðust óskiptir. Gat hald þeirra því orðið ætt gefandans til mikils styrks þess höfðingja hennar, sem staðinn varðveitti.
Staðirnir urðu þær miðstöðvar kirkjunnar, sem þjónuðu kirkju- og kristnihaldi í landinu. Þaðan var þjónað öðrum kirkjum svo sem bændakirkjunum og kapellum, þaðan voru prestverk unnin. Tekjur staðanna stóðu undir framfærslu nokkurra klerka á hverjum stað og fór fjöldi þeirra eftir því, hversu mörgum kirkjum þjónað var frá staðnum og þá einnig eftir stöðu þessara kirkna, hvort þær voru hálfkirkjur, fjórðungskirkjur eða áttu rjett á fullri prestsþjónustu. Hver klerkur mátti syngja messu tvisvar á dag. Nokkrir klerkar þjónuðu því þeim stöðum þar sem voru útkirkjur. Virðist það vera algengt að presti fylgdi djákni. Þar sem tveir prestar voru við staðarkirkju var þá djákni og subdjákn. Á 13. og 14. öld virðist vera, að 12 staðir á Íslandi hafi haft fjóra klerka eða fleiri. Þing þau, er um þessa þjónustu mynduðust, urðu undanfari þeirrar sóknaskipanar, sem síðar leiddi af tíundarlöggjöfinni og enn varðveitir í stórum dráttum það skipulag kirkjulegrar þjónustu, sem varð til á tveimur fyrstu öldum kristni í landinu. Á slíkum stöðum var því komin forsenda til þess að taka við klerkum til mennta. Urðu þeir því einnig menntastofnanir kirkjunnar, er sáu henni fyrir þjónum og bjuggu þá jafnframt undir frekara nám erlendis, svo sem mörg dæmi eru um. Virðist svo vera, að flestir helztu prestar í landinu hafi menntazt á slíkum stöðum fyrstu tvær til þrjár kynslóðir kristni í landinu. Slíka staði hafa fræðimenn kallað kirkjumiðstöðvar.
Um 1030 sat í Bæ í Borgarfirði Rúðólfur byskup, einn þeirra trúboðsbyskupa, sem nefndir eru í Hungurvöku. Hlýtur klausturhald hans að hafa eflt mjög útbreiðslu og staðfestu kristins dóms, ekki sízt hið næsta í hjeraði. Af brotakenndri frásögn Landnámu má ráða flókið mynstur, er tengir bæði kristni á landnámsöld þeirri kristni, er fest var í landinu á næstu kynslóðunum eftir kristnitöku, og jafnframt helztu leiðtoga kristninnar í landinu á fyrstu öld hennar. Beint samband er á milli kristniboðsmiðstöðvar Rúðólfs í Bæ og upphafs kirkjuhalds á Hólmi, þar sem tekin er upp helgi á Ásólfi alskik, innlendum manni af kynslóð landnámsmanna um miðja 11. öld. Þar gætu tengzt sögu stofnana kristni í landinu bræðrasynir þrír: Halldór, sonur Illuga hins rauða reisir kirkju á Hólmi og tekur upp helgi Ásólfs alskiks. Einhver niðja Kjallaks að Lundi gæti hafa haldið Rúðólf byskup það ár, er hann dvaldi að Lundi. Loks er ekki ólíklegt, að Þórður Sölvason hafi numið að honum og stofnað til kirkju í Reykjaholti og notið um það ráðgjafar hans.
Kirkjur og kirkjuhald í Reykjaholti
Kirkja sú, frá 12.-13. öld, sem fannst ofan á grunni elztu kirkjunnar í uppgreftrinum í Reykholti, var niðurgrafin, með stórum steinum, sem afmarka veggi kórsins. Utan við grunninn, á mótum kórs og skips og vestan við hann, voru stórar stoðarholur, sem hafa tilheyrt byggingunni. Kirkjuskipinu virðist hafa verið deilt langsum í þrennt, með bekkjum, sem hvíldu á steinundirstöðum og lægra gólfstæði á milli þeirra. Kirkja þessi virðist hafa verið af þeirri norrænu stafkirkjugerð er staðurinn skartaði á blómatíma sínum á miðöldum. Meðal funda voru leirkerabrot af enskum og þýzkum uppruna, glerbikar frá Frakklandi, kirkjukambur og hringnæla úr koparblöndu og fleira, sem bendir til mikilla erlendra samskipta.
Sonur og arftaki Magnúsar Þórðarsonar var Sölvi prestur, faðir Páls, sem kallaður er „dýrligur kennimaður“ í Sturlungu og til greina kom að setja á byskupsstól í Skálholti. Syni hans, Magnúsi presti, eyddist fje með aldrinum. Snorri Sturluson felldi svo mikinn hug til staðarins að hann fjekk heimildir að honum hjá þeim mönnum, sem erfðarjett höfðu til forráða hans. Keypti hann að Magnúsi presti Pálssyni að hann gæfi upp staðinn og tæki við þeim hjónum, Magnúsi og Hallfríði Þorgilsdóttur Arasonar hins fróða. Hét hann og að koma sonum þeirra, þeim Ara og Brandi, til þess þroska er auðið væri, en hvorugur þókti vera til staðarforráða fallinn. Staðurinn í Reykholti var svo búinn að fjárafla og klerkdómi, sem þar þjónaði, að vel má skýra, hví Snorri felldi hug til hans. Gerðist Snorri þar höfðingi mikill því eigi skorti fje, segir Sturla Þórðarson um Snorra föðurbróður sinn, en Sturla nam sjálfur sagnaritun hjá Snorra í Reykholti. Er ekki að efa, að skólahald mun hafa verið á staðnum í tíð Snorra og einnig í Stafholti sem Snorri hjelt einnig. Af máldögum og öðrum heimildum, svo sem Sturlunga sögu, má ráða að í Reykholti hafi verið fjórir til fimm klerkar samtímis og er þeð varlega ætlað. Sumir þeir, sem vitað er um á staðnum í tíð Snorra Sturlusonar, eru í tölu höfuðklerka að lærdómi og ætterni. Styrmir hinn fróði Kárason er talinn sonur Kára ábóta Run´plfssonar á Þingeyrum Ketilssonar Þorsteinssonar Skálholtsbyskups og Gróu Gizurardóttur Ísleifssonar byskups. Hans er getið í þjónustu Snorra á staðnum 1228 og 1230. Hann var tvisvar lögsögumaður 12010 -1214 og aftur 1232-1235, en það ár gerðist hann príor Ágústínusarklausturs í Viðey, er Snorri setti í fjelagi við Þorvald í Hruna, föður Gizurar. Sturla Bárðarson, skáld og fræðamaður, var systursonur Snorra, djákni að vígslu. Hans er getið á staðnum bæði 1222 og 1228. Tveir klerkar eru nefndir í þeim hluta Reykjaholtsmáldaga, sem talinn er vera frá árabilinu 1224-1241, þeir Þórarinn prestur Vandráðsson og Vermundur djákni. Egill Sölmundarson, systursonur Snorra, og Þórarinn prestur hjeldu staðinn um hríð eftir Snorra. Gæti Þórarinn hafa staðið fyrir kirkjuhluta staðarins, en Egill, sem var súbdjákn að vígslu, mun hafa varðveitt búið. Kúgaði Þorgils skarði af þeim staðinn árið 1252, en þeir tóku við honum aftur ári síðar. Er getið Þórðar Bersasonar prests hjá Agli Sölmundarsyni í Reykholti árið 1253. Vermundur djákn er nefndur aftan við Reykjaholtsmáldaga. Arnbjörns prests er getið á staðnum, er Snorri var veginn haustið 1241. Gunnlaugur Hallfreðsson, mágur Þorgils skarða, var með honum í Reykholti. Hann var prestvígður.
Sturla Sighvatsson seldi Þorláki Ketilssyni staðinn í hendur eftir Bæjarbardaga. Hann var goðorðsmaður, faðir Ketils lögsögumanns. Hann hafði búið á Grund í Eyjafirði, í Hítardal og á Kolbeinsstöðum áður en hann kom í Reykholt. Hann mun hafa látizt árið 1240.
Lyktir Staðamála
Reykholt kom við þau átök, er urðu á milli klerka og leikmanna í tíð herra Árna Þorlákssonar í Skálholti og Eiríks Magnússonar prestahatara Noregskonungs um yfirráð staðanna. Urðu hörð átök um slíka staði. Í brjefi Eiríks konungs Magnússonar og Hákonar hertoga frá vorinu 1283 til sýslumanna og handgenginna manna á Íslandi, er Reykholt nefnt á meðal þeirra staða, sem leikmenn hafa haft að erfðum, en klerkar hafa tekið. Skuli þeir aftur falla undir leikmenn. Lauk þeim deilum með samkomulagi þeirra í Ögvaldsnesi í Noregi þann 10. maí árið 1297. Skyldu klerkar halda þá staði er kirkja átti að hálfu eða meira, en leikmenn þá, er þeir áttu meirihluta í. Reykholt var að öllu leyti kirkjueign, en hafði verið í haldi leikra höfðingja. Síðan 1297 hefur Reykjaholt fallið undir forræði byskupa, á meðan það hjelzt.
Virðingargjörð Reykholtsstaðar frá árinu 1392
Virðingargjörð Reykholtsstaðar frá árinu 1392, er síra Ásbjörn Ólafsson afhenti síra Ólafi Kolbeinssyni staðinn, gefur afar gott yfirlit yfir búnað kirkjunnar og fylgir hjer stafrjettur:
Anno Domini MCCCXC secundo friadaghin jnfra octauam ascencionis afhendi sira aasbiorn olafsson svo mikit godz kirkivnni j reykia hollti enn olafr prestr kolbeinsson tok med.
In primis. jnnan kirkiv fiora sloppa fanýta. tvaer pellzkapr semilighar oc ein balldrkins kaapa. fioghur kaapu slitti. v. antependia. oc oll slitin. eitt brikar klaedi slitid. tuau alltara klaedi med enskan lit er sira ari lagdi til. fernn messv klaedi saemilhig oc þo slitin. fim aunnur miögh slitin oc brestr j einum þessvm stola oc handlin vj corporalia j hwsum. xii alltara dwkar vigdir oc einn j þessum buin. at auk sprangadur dvkr glitadr. lectara dwkr slitin oc lerepts dwkr yfver peturs alltari. tveir hauklar lausir baadir ohaefver. iiij calekar oc þrir af þeim lestir. aatta kertisstikr med kopar oc lest ein af þessvm enn tvaer brotnar. vigzs vazs ketil. sacrarium munnlaug lest. glodar ker. ellbera brot. messv fata kista. iij kluckr oc hin fiordha brotin ij biollr. skrin.-kross med vndirstaudvm. krossar þrir smellter. hunzl kerz brot med silfr. solar steinn. iij paaxspjolld. fontr med vmbvninghi oc katli. mariv skript. peturs likneski oc barbarv oc firir þeim þriar kertistikr med jarn oc dwkar yfver tveimur. graduale. guz spiallabók. epistolarius. collectarius. capitularius. gradall forn. ordo oc ymnarius. de sanctis bækr tvaer ae sumarit. oc ottu saungum. lesbækr per anni circvlum de sanctis oc de tempore. eigi efter ordv. erv fim bakr oc siaýtian faenýtar eingi efter ordv lectarar ii. merki lestr glergluggr. bakstr iarnn. ampli med tin. lika kross med rodv. aa sira aasbiorn ath lwka firir ein Messoklædi er sira hafdi j mold. lika krakr. alltarissteinn bvin. þetta j metfe. fiorer reflar. fimtigher aalna oc tuaer aalnar varmælltar oc kistu firir barbare. stighi stor. tuau bord atta aalnar oc xx oc einn bordskutil oc hit fiorda pallbord. munnlaugh vond. pallklædi vont. pottur stor oc vondur ketill. tuibytv fat. stranda saahir tuer storer. oc tunnu hlutr. stor ker tuau i jordu oc annat fanýtt oc eitt uppi staudu kerall. laarar tueir. kistr tuær med laumum oc ein lamalaus. hin fiorda læst. stokkr stor. sex trogh. sex uppgerdar keraulld. tihu diskar. oc tihu bord kerolld. sængur tuær slitnar med rekkiuvodvm vondum med brekan oc aabreisli. aaklaedi sæmilight metit allt saman firir xvij hvnrdut. skal sira aasbiorn leggja hit aatianda þarflight.
Þetta luktizst j kuikfie. sex oc xx kýr. oc ein gafz til hin siavnda. þriv naut vetur gaumul. gradungr tuævetur. xij aasaudar kugilldi. hrutur tuævetur. vij sauder vetur gamler. viij hundrads hross oc hid niunda er gafzst til.
Virðingargjörð frá 1538
Virðingargjörð frá 1538, er síra Björn Þorgilsson tók við staðnum af síra Ólafi Guðmundssyni dauðum. Líklega er hjer fyrst getið altarisbríkur þeirrar, er á ný er í kirkjunni á staðnum í láni Þjóðminjasafns:
Anno Domini Mdxxxviii. Var so micit ornamentum kirkjunnar j reykiahollte þa sira bjorn þorgilsson med tock eptter sira olaf heten gudmundzson. oc adrer peningar sem hier eppter standa skrifader.
In primis skrin med helgum domum tueir alltaris steinar tueir krossar glersmellter ein kaleikur oc anar brockadur tuenn alltaris klædi. Item pax med texta spjalld oc anat med bokfelli. Upphaldz sticka. Item forn messoklædi alfær oc þrir hauklar. Item yfir haaalltarenu brick med tre oc er gyllt. Item kross med undirstödum mariu lickneskie peturs lickneskie. katrinar skriptt oc barbaru. Þriar kluckur tuær biöllur.
Item so margar bækur. grallari med sekuencium kringum aert. kiriall uondur. ottusaungua bækur tuær j kringum aret. Lesbok fra de natiuitate oc in octavo epiphanie. missale med pistlum oc gudspiollum. oraciones bock kringum aret. laga saungua bækur tuær oc onnur gomul. messu daga kuer. capitularius orda oc uantar j kuerit sidazta. processionalar. tueir uondir. bakstrs iarn. oc metascaler… tueir. fons umbuningur.
Jtem uoru so myckler kuicker peningar j reykiahollti er sira birni þorgilssyni uar afhent. Jn primis xuj kugilldi oc xx oc sio. Crud j kauplum. Jtem inan gatta tuo ker oc tueir saer firir iij Crud. Jtem xuj trog oc sio kerolld. tuær fotur oc strockur firir Crad.
Jtem sæng alfær firir Crad. munnlaug oc net ix fadma firir Crad.
Yfirlit um virðingar, úttektargjörðir og afhendingargjörðir kirkjufjáa í Reykholti.
Í Reykjaholtsmáldaga segir að ,, kirkja sú, er stendur í Reykjaholti, er helguð með Guði, Maríu, móður Drottins og hinum helga Petro postula og enum helga Dionysio byskupi og henni helgu Barbare meyju.”
Af virðingum eða úttektum og afhendingargjörðum má hafa yfirsýn yfir ástand og þróun kirknanna.
Reykjaholtsmáldagi er prentaður í fornbrjefasafni, Dipl. Isl. I, bls. 279-280 og bls. 348-351, 466-480.
Máldagi, er Gyrðir byskup Ívarsson setti árið 1358 er í Dipl. Isl. III, bls. 122-123.
Afhending staðar og kirkju, er Magnús afhenti, en Einar Kolskeggsson tók við um 1360 er í Dipl. Isl. III, bls. 136.
Skrá yfir fje kirkju, er síra Ásbjörn Ólafsson afhenti, en síra Ólafur Kolbeinsson tók við árið 1392 er í Dipl. Isl. III, bls. 481- 482.
Skrá yfir fje kirkju, er síra Ólafur Kolbeinsson afhenti, en síra Gunnar Gilsson tók við árið 1394 er í Dipl. Isl. ll,l bls. 502-503.
Wilchinsmáldagi 1397er í Dipl. Isl. lV, bls. 119-120.
Skrá yfir fé kirkju, er síra Hrafn Gilsson tók við af Einari bónda Ormssyni árið 1463 er í Dipl. Isl. V, bls. 399-400.
Máldagi, er Magnús byskup Eyjólfsson setti árið 1478er í Dipl. Isl. VI, bls. 173-174.
Skrá yfir fje kirkju, er síra Halldór Jónsson lukti í hendur síra Þórði Jónssyni, er hann afhenti staðinn í Reykholti árið 1503 er í Dipl. Isl. VII, bls. 667-668.
Skrá um leigu á jörðum kirkjunnar í Reykholti árið 1504 er í Dipl. Isl. VII, bls. 736-737.
Virðing á stað og kirkju í Reykjaholti árið 1537. Er í Dipl. Isl. X, bls. 338-339.
Skrá yfir fje kirkju, er síra Björn Þorgilsson tók við eftir síra Ólaf heitinn Guðmundsson er í Dipl. Isl. X, bls 397-398.
Virðing á stað og kirkju í Reykjaholti árið 1569 og skrá um instrumenta et ornamenta er í Dipl. Isl. XV, bls. 269-270.
Máldagi Gísla biskups Jónssonar úr visitazíubókinni 1575 er í Dipl. Isl. XV, bls. 623-624.
Úttekt við aldahvörf, 23. maí 1908
Þegar Reykholtsstaður var tekinn út 23. maí árið 1908 skilaði síra Guðmundur Helgason hinu forna jarðeignasafni, en síra Einar Pálsson tók einungis við heimastaðnum. Úttektin gefur gott yfirlit yfir ástand staðarins við þessi tímamót:
- Eftir máldögum kirkjunnar og öðrum heimildarskjölum fylgja kirkjunni eða prestakallinu þessi ítök: Hvalrekar á Ströndum: Undir Innra- og Ytra-Felli þriðjungur hvalreka, á Munaðarnesi, Kambi og í Byrgisvík fjórðungur hvalreka. Af hvalrekum þessum er enginn arður. Laxveiði í Grímsá. Selför í Kjör með skógi og áveiði. Viðarreki undir Innra- og Ytra- Felli og hálft land undir Innra-Felli. Afrétt á Hrútafjarðarheiði ónotuð vegna fjarlægðar. Geitland allt með skógi. Skógurinn eyddur. Skógur í Þverárhlíð að viða til sels. Selför á Hælsheiði (í Faxadal í Hrísalandi). Torfskurður í Steindórsstaðajörð. Pétursskógur í Sanddal, gjöreyddur. Öll eru þessi ítök talin í máldögum kirkjunnar, en eigi öll viðurkennd og þar á meðal torfskurðurinn í Steindórstaðajörð, sem eigi er viðurkenndur af eiganda þeirrar jarðar. Ítökin eru flest ónotuð vegna fjarlægðar og gefa eigi af sér arð, nema þessi, sem öðrum eru leigð, þannig: Laxveiði í Grímsá leiga kr. 200,00. Veiði í Kjarrá leiga kr. 20,00. Viðarreki undir Innra- og Ytra-Felli kr. 6,00.
- Með konungsbréfi 19. september 1894 (Stjórnartíðindi 1894 B, bls. 175) var leyft að selja afréttarlönd Reykholtskirkju: Þóreyjartungur og land nokkurt við Reyðarvatn frá kirkjunni fyrir 700 kr. þannig að upphæð þessi sé lögð í Söfnunarsjóð Íslands, sem óskerðanleg innstæða kirkjunnar, og að af vöxtunum af upphæð þessari sé Reykholtspresti árl. greiddar 20 kr. Og að auki helmingur þess, er rentan fer fram úr þessari upphæð, en hinn helmingurinn sé jafnan lagður við höfuðstól. Nefnd afréttarlönd voru seld Lundarreykjadalshreppi. …
- Tekjur af útkirkju. Af kúgildum Stóra-Áss kirkju árl. 40 pund smjörs.
- Kirkjujarðir þær allar, sem fylgt hafa prestakallinu, falla í næstu fardögum í umsjón hlutaðeigandi hreppstjóra, sem þær liggja í hreppi, samkvæmt lögum nr. 46, 16. nóvbr. 1907 um laun sóknarpresta, 8. gr. Þær eru allar byggðar og í ábyrgð hlutaðeigandi leiguliða, sem úttektarmenn álíta færa um að standa í öllum lögboðnum leiguliðaskilum. Byggingarbréf eru fyrir þeim öllum og eru bréfin fyrir jörðunum í Reykholtsdalshreppi við úttektina afhent hreppstjóra Reykholtsdalshrepps, en hin verða afhent hreppstjóra Hálsahrepps. Jarðirnar eru þessar:
- Hægindi (hjáleiga) 11,6 hundruð að dýrleika. Landsskuld: 1 sauður þrevetur, 1 haustlamb og 16 kr. í peningum. Kúgildi 2.
- Húsafell, 22,6 hundruð að dýrleika. Landsskuld: 4 sauðir þrevetrir. Kúgildi 4.
- Hraunsás, 14,5 hundruð að dýrleika. Landsskuld: 4 sauðir tvævetrir. Kúgildi 3.
- Hofsstaðir, 21 hundruð að dýrleika. Landsskuld að 2/3: Upphaflega samið um 80 álnir eftir meðalverði í fríðu, en nú lengi greitt með 2/3 af verði 4 sauða gamalla; að 1/3 1 sauður tvævetur og 16 kr. í peningum. Kúgildi 4.
- Norðurreykir 10,8 hundruð að dýrleika. Landsskuld: 2 sauðir tvævetrir, 1 sauður veturgamall. Kúgildi 2.
- Breiðabólsstaður, 19,2 hundruð að dýrleika. Landsskuld: 2 sauðir fullorðnir og 36 kr. í peningum. Kúgildi 4.
- Grímsstaðir, 18,5 hundruð að dýrleika. Landsskuld: Upphaflega samið um 120 álnir, en lengi greitt með 2 sauðum þrevetrum og 36 kr. í peningum. Kúgildi 3.
- Kópareykir, 12,7 hundruð að dýrleika. Landsskuld: 2 sauðir tvævetrir og 2 sauðir veturgamlir. Kúgildi 3.
- Kjalvararstaðir, 18,1 hundrað að dýrleika. Landsskuld: 2 sauðir þrevetrir og 36 kr. í peningum. Kúgildi 3.
- Hrís, hálf, hálflendan 4,7 hundruð að dýrleika. Landsskuld: 1 sauður þrevetur. Kúgildi 1.
- Bolastaðir, hálfir, 1,8 hundrað að dýrleika. Eyðijörð leigð með Hofsstöðum. Landsskuld: 1 sauður veturgamall og 5 kr. í peningum.
Landamerkjaskrár fyrir jörðunum eru einnig afhentar hlutaðeigandi hreppstjórum.
Reykjaholtsmáldagi
Máldagi er skrá yfir eignir kirkju, ítök og önnur rjettindi. Elztur allra máldaga er Reykjaholtsmáldagi, sem talinn er elzta skjal sem varðveitt er í frumriti á norræna tungu og er elzti hluti hans nú talinn til miðbiks 12. aldar eða jafnvel þriðja tugs hennar. Máldagi þessi er einnig einstæður að því leyti, að hann er eintak kirkju. Flestir máldagar hafa varðveitzt sem eintak í fórum byskukupa, i.e. byskupsmáldagar, en Reykjaholtsmáldagi er stólsmáldagi.
Um aldur máldagans
Jón Sigurðsson leiddi rök að því í formála sínum fyrir prentuðum texta máldagans í Fornbrjefasafni, að “fyrsti kaflinn er hér heimfærðr til ársins 1185, þegar Páll prestr Sölvason andaðist og Magnús prestr sonur hans tók við:” Dipl. Isl. I, 406- 480). Hefur skoðun hans á aldri máldagans staðizt furðanlega, þrátt fyrir ályktanir síðari tíma rannsókna. Jafnframt rekur hann í formála skoðanir fyrri tíðar manna um aldur máldagans.
Árið 2000 gáfu Reykholtskirkja- Snorrastofa Reykjaholtsmáldaga út í tilefni af vígslu Snorrastofu. Guðvarður Már Gunnlaugsson bjó til prentunar. Stefán Karlsson handritafræðingur og fyrrum forstöðumaður Árnastofnunar hafði bent á rök fyrir því, að elzti hluti máldagans væri að öllum líkindum talsvert eldri, en áður var talið. Þegar ráðizt var í útgáfu máldagans á vegum Reykholtskirkju- Snorrastofu árið 2000 þókti brýnt að koma röksemdum hans og yngri handritafræðinga um aldur máldagans á framfæri. Guðvarður Már Gunnlaugsson tekur undir skoðun Stefáns Karlssonar um aldur elzta hluta máldagans, að hann sje mun eldri en þeir Sveinbjörn Egilsson, Kristian Kålund og Jón Sigurðsson töldu. Telur hann máldagann vera frá fyrra helfningi 12. aldar. Guðvarður Már hefur síðan um aldamót rannsakað máldagann frekar. Að hans sögn hallast hann nú að því, að máldaginn hafi verið byrjaður fyrir miðja 12. öld, jafnvel á þriðja fjórðungi hennar.
( Reykjaholtsmáldagi, Reykholtskirkja-Snorrastofa 2000, 18-21).
Geitland
Geitland hið forna: Byggðin framan við Deildargil?
Framan Hraunsáss eru að minnsta kosti tveir fornbæir, fyrir löngu í eyði fallnir, Reyðarfell, í eyði síðan á 16.öld og ónefndur bær í landi Húsafells nær Hraunsási. Reyðarfell er nefnt í Landnámu og sagt “fornt eyðibýli” í Jarðabók Árna og Páls og er talið óbyggilegt fyrir heyskaparleysi og vetrarríki. Athygli vert er, að þar segir að býlið sje “uppá fjallinu” og sjáist þar rústir. Rústir Reyðarfells hafa hins vegar verið grafnar úr jörðu og eru þær undir fjallinu við þjóðleiðina að Húsafelli, nokkur hundruð metrum vestar.
Höfuðból Geitlendinga flytst í Reykjaholt um það bil sem þeir stofna þar til kirkjuhalds.
Í hinu eiginlega Geitlandi hefur engin byggð verið um aldir. Þar eru rústir, “Kotin”, sem gæti verið eftir landnámsbýlið, en kotbýli á síðari öldum og Hamraendar, sem gæti verið eftir beitarhús, sel eða jafnvel stöðul. Líklegast má telja, að Geitland það, sem lá undir Reykholtskirkju um aldir og vafalaust er stofnfje að kirkju þar, hafi ekki verið eiginleg bújörð til langframa, enda engin landgæði þar til þess. Hitt er þó augljóst, að um einhvern tíma hefur þar byggt verið, líklegast upp úr landnámi á meðan skógar og gróðurríkis í skjóli hans naut. Geitland lögðu niðjar Úlfs hins auðga Grímssonar hins háleygska til kirkju sinnar í Reykjaholti. Hún er því “ecclesia propria heredita”, einkakirkja þeirra í byrjun, svo sem flestar kirkjur í landinu voru í öndverðu. Rekur hann ætt Geitlendinga “til að skiljanlegt verði, hvernig þeir hafa komist yfir goðorð það, sem Tungu- Oddur hafði farið með.” (II, 379)
Meðal þessara höfðingja er talinn Illugi rauði. Þess er hjer að gæta, að Reyðarfell og síðar Húsafell og þar með Geitland flæmdust milli fjórðunga; töldust lengi til Hvítársíðu og þar með til Vestfirðingafjórðungs allt fram undir 1830, þegar þessir bæir fluttust í Hálsasveit og Sunnlendingafjórðung.
Til þess að Illugi rauði hafi farið með goðorð, bendir fleira en það, að hann er á skrá Kristni sögu, e.g. það, að hann átti bú á Hofsstöðum í Reykjadal (i.e. Hálsasveit) og hefir annast skyldur hofgoða þar fyrir hönd ættar sinnar, Geitlendinga. Áður bjó hann að Hraunsási. Nánir ættingjar Illuga fóru með Reykhyltingagoðorð á 11. og 12. öld.
Heimanfylgja eða stofnfje staðar í Reykholti
Goðorðsmenn af ætt Úlfs hins auðga í beinan karllegg stofna til kirkjuhalds og mjög snemma til staðar í Reykholti og flytja þangað búsetu sína og höfuðból. Kirkjan er ecclesia propria hereditatis, einkakirkja þeirra að öllu leyti í öndverðu. Reykjaholtsmáldagi er elzti máldagi á norðurlöndum sem varðveittur er. Lýsir hann stofnfje kirkju þar. Því telur hann ekki aðrar bújarðir en heimastaðinn í Reykjaholti auk Geitlandsins og að öðru leyti annað stofnfje. Talið er að sömu ættmenn hafi farið með goðorð Tungu-Odds um kristnitöku og þá fóru með Geitlendingagoðorð. Næsta víst er, að goðorðsmenn þessir lögðu Reykholtskirkju til heimanfylgju sína og er í máldaganum næst á eftir eign kirkju í heimalandi staðarins talin eign kirkjunnar í Grímsá, sem hún enn nýtur að hluta, þá selland kirkjunnar í Kjör með áveiði og afrjettur hennar á Hrútafjarðarheiði, ítök í Faxadal og Geitland með skógi. Þvínæst er talin skógur kirkjunnar, Pétursskógur í Sanddal með landamerkjum og skógur í Þverárhlíð að viða til sels þar.
Fjórar kynslóðir Geitlendinga höfðu farið með eignarhald landsins þar, áður en kirkjuhald hófst í Reykholti á vegum Geitlendinga. Síðasti “Geitlendingurinn”, Hrólfur, var kenndur við Geitland, en sonur hans, Þórður, kenndur við Reykjaholt. Sonur hans var Magnús prestur, faðir Sölva prests, en Páll prestur, sonur hans, skjalfestir að líkindum eignarheimild kirkjunnar að Geitlandi. Hann er fjórði ættliður frá þeim, sem fyrstur er talinn til Reykholtspresta.
Öllum þessum eignarrjetti hefur um aldir verið haldið á, hann tilgreindur í máldögum, en Wilkínsmáldagar og Gíslamáldagar eru af Alþingi og konungi viðurkenndar lögfestur fyrir eign og rjettindum kirkna. Máldögunum var stöðugt þinglýst unz svo var komið, að allt var þetta á almannavitorði.
Dómur Þórðar lögmanns Guðmundssonar um Geitland 1596.
Dómur um upprekstur í Geitland er til frá árinu 1596. Töldu erfingjar Einars Ásmundssonar sig eiga þar beitarrjett. Dómur Þórðar lögmanns Guðmundssonar frá 15da maí 1596 um upprekstur í Geitlandinu er varðveittur í skjalabók Reykholtskirkju, prentaður í Alþingisbókum lll bindi, bls. 420-426.
Geitlandsmál 1596
Síra Böðvar Jónsson beneficiator í Reykholti beiddist dóms „vm þann olöglega rekstur sem hann tiedi oss med sannindum ad hafde vered i kyrciunnar land i Reykiahollte. er Geitland heiter. oc nu ad vorre sýn oc heirn laugdo þeir Þorvalldur oc sagdur Sera bodvar Jonsson sig viliuglega til laga vm þann oleyfdan rekstur sem greindur Þorvalldur reked hafde i nefndt Geitland. i ordlofe Einars Asmundssonar enn oleyfe Sera bodvars Jonssonar. – leitst oss þad Geitland sem maldæginn helldur oc leiged hefur under Reikhollts kyrkio xx ár edur xx árum leingur átölulaust. ad svo profudu eign Reikiahollts kyrkiu utan so miced jtak sem Einar Asmundsson oc hans forelldrar hafa halldid i xx ar edur leingur átölulaust-. Sva og dæmdum vier ongvan mann mega med riettu sier þad land nýta nie beita nema þeirra lof oc leyfe til sem forrædi hafa kyrciunnar i Reikiahollti. oc reykjum sem adur er sagt”.
Reykir þeir, sem nefndir eru í dóminum, eru Sturlu- Reykir í Reykholtsdal. Þar bjó Einar Ásmundsson og kemur nokkuð við dóma. Ekki er einkennilegt þó hann hafi getað vísað til beitarrjettar í Geitlandi, arftekinn frá foreldrum. Tveir lögmenn hjeldu staðinn í Reykholti, þeir Oddur Gottskálksson NýjaTestamentisþýðandi frá 1552 til 1557 og eftir hann Þórður Guðmundsson sjálfur frá 1557 til 1563. Geitlandið er með öðrum orðum óumdeild Reykholtskirkju eign, en hið um eða yfir 20 ára gamla beitarítak hafa Einar og foreldrar hans haldið án athugasemda.
Deilur um Geitland á 19du öld
Síra Guðmundur Helgason ljeði bændum úr Hálsasveit beit í Geitlandinu seint á 19du öld endurgjaldslaust til þess að reka þangað geldje á sumrum, án þess að það yrði að ítaki. Deila hans við þá bændur, er hann hafði ljeð upprekstur, snerist um það, hvort honum sem landsdrottni bæri að kosta vinnslu dýrbíts í Geitlandinu. Síra Guðmundur borgaði ekki að vísu, enda taldi hann sjer og Reykholtskirkju vera meinlaust við refinn og hafði enda ekki leigt þeim beitina, heldur leyft, án endurgjalds. Kristleifur Þorsteinsson rekur að öðru leyti allvel þessar sem aðrar nytjar Geitlandsins í ritsafni sínu “Úr byggðum Borgarfjarðar”. Kemur meðal annars fram í þeim frásögnum lýsing á mikilli fátækt í sóknum prestakallsins, sem þá einnig kom fram í eymd fólksins og miklum vanhöldum á greiðslum tekna staðarins, ekki sízt í tíð forvera síra Guðmundar, síra Þórðar Þórðarsonar Jónassen. Hafði Reykholtskirkja því beinan hag af því að hjálpa afkomu bænda og hafði það lengi tíðkast að leyfa bændum úr Hálsasveit upprekstur geldfjár í Geitlandið á sumur. Ofangreind krafa Hálsasveitarbænda um að landsdrottinn kostaði vinnslu dýrbíts í Geitlandi varð hins vegar undanfari að sölu Þóreyjartungna til Lunddæla, því síra Guðmundur fjekk áhuga á því að losa Reykholtskirkju og staðarhaldara þar við áhyggjur af landareignum og rjettindum, er eigi nýttust sökum fjarlægðar. Þannig gekkst hann fyrir sölu Þóreyjartungna undir aldamótin 1900 og voru Lunddælir að borga af þeim kaupum fram undir miðja síðustu öld, þótt þeir peningar finnist hvergi nú. Gögn um deilu síra Guðmundar og Hálssveitunga eru á Hjeraðsskjalasafni í Borgarnesi.
Geitland selt Hálsahreppi.
Reykdælir og Hálssveitungar hafa aldrei átt afrjett utan eigin heimalanda. Meðal annars þess vegna sóktust Hálsasveitarbændur eftir því við Reykholtspresta að fá ljeðan upprekstur fyrir geldfje í Geitland. Þegar bændur úr Reykholtdal keyptu heiðarlönd undan Kalmanstungu vildu bændur úr Hálsasveit eignast aðkomu að þeirri afrjett, sem þarna var stofnað til, lögðu þeir fram beitarrjett þann í Geitlandi, sem þeir höfðu eignast með kaupum á hinu forna eignarlandi Reykholtskirkju, sem Geitland var og þeim var afsalað af hálfu kirkjumálaráðherra um miðjan þriðja áratug síðustu aldar. Ráðherra fyrir hönd ríkisvaldsins varð fjárhaldsmaður kirkjueigna með sjerstökum hætti, þegar honum var falið að ráðstafa með leigu og sölu þeim bújörðum, er kirkjunum tilheyrðu, bæði bændakirkna og ljenskirkna. Virðist svo, að ráðherra hafi talið sig hafa heimild í lögunum um ráðstöfun kirkjujarða til þess að selja Geitlandið undan staðnum í Reykholti. Hlýtur sú ráðstöfun, ef lögleg var, að vera sala eignarlands; Geitlandsins, sem ráðherra hefur þá talið sig vera að selja sem kirkjujörð. Geitlandið hafði hinsvegar óbyggt verið um aldir og þótt eignarland væri, var það löngum nytjað frá staðnum í Reykholti sjálfum og með heimildum þaðan. Það var því hluti af lögkjörum prestsins í Reykholti og er því álitamál, að hægt væri að selja það eftir heimild laga til sölu kirkjujarða. Svo sem kunnugt er, hafa þó ráðherrar sjaldnast verið smámunasamir um lagaheimildir, þegar til ráðstöfunar kirkjueigna hefur komið. Hitt er ljóst, að Hálsahreppur taldi sig hafa keypt Geitlandið með gögnum þess og gæðum, öðrum en vatns- og námarjettindum, sem lengi hafa verið skilin undan við sölu þar sem ríkið á í hlut. Þegar Hæstirjettur dæmdi Geitlandsdóm á árinu 1994 virðist sá tilgangur bænda að hafa ásælst landið til beitar, hafa komið þeim í koll, því Hæstirjettur telur þeim beitina eina til eignar og virðist allt í einu líta svo á, að hún hafi verið seld út úr einhvers konar almenningi eða ríkiseign. Nú er þess að gæta, að Geitlandið var notað af nágrennisbændum í Hálsasveit til takmarkaðs upprekstrar, en þó af mestu varkárni, enda ber það ekki mikla beit. Þegar stofnað var til afrjettareignar með Reykdælum, sem áður er á minnst hjer að framan, lögðu þeir Geitlandið fram til hennar upp á þriðjungs fjelag í afrjettinni allri. Reykdælir ráku þó aldrei neitt að ráði í Geitlandið, enda flestir meiri búmenn en svo, að þeir horfóðruðu búsmala sinn í sumarhaga að óþörfu. Mjer er kunnugt um upprekstur af tveimur bæjun í Reykholtsdal í Geitland á síðasta fjórðungi 20. aldar.
Þegar Geitland svo var friðlýst tók fyrir alla lögmæta beit þar, en af landinu mega þó bændur enn sæta fjallskilum. Aðrar nytjar, svo sem grasatekja, hrauntekja til mylnusteinagerðar, rjúpnaveiði og skógartekja og hrísrif á meðan var, var háð leyfi landsdrottins í Reykholti, unz landið var selt Hálsahreppi.
Í Reykjaholtsmáldaga segir, að Reykholtskirkja eigi „geitland meþ scoge“. Í dómi Hæstarjettar er þetta svo útlagt, að það „virðist vafa undirorpið hvort landið sé eignarland þar sem tekið er fram í þeim (það er elztu heimildum) að skógur fylgi landi“. Þarna virðist mjer Hæstarjetti verða á. Þegar skóga tók að þrjóta í heimalöndum almennt, tóku menn að ásælast skógarnytjar, þar sem þær var að hafa, svo mjög sem menn voru háðir þessum nytjum til raftviðar, en einkum þó kolagerðar. Þannig má rekja ítakamyndun kirknanna út allar miðaldir eftir máldögum og visitazíugjörðum. Er til dæmis um þetta að vitna í prýðilega ritgerð eftir Grétar Guðbergsson í Skógræktarritinu 1994, „Þættir úr sögu Gnúpufells-skógar í Eyjafirði“ (bls 62 – 64). Þar er skýrlega rakin eftir heimildum eyðing skóga og þá um leið, hversu ásóknin eftir ítökum óx eftir því, sem skóginn þvarr. Orðalagið í máldaganum ber einmitt að túlka svo, að Reykholtskirkja hafi átt Geitlandið öldungis án þess að aðrir ættu þar nokkurn rjett og því er skógurinn nefndur sjerstaklega, að algengt hefur þá þegar verið orðið um miðja 12tu öld að einstakar jarðir (bændur) og þó einkum kirkjur, væru farnar að seilast til einmitt þess konar ítaka. Þetta útmálar raunar máldaginn sjálfur í næstu greinum bæði á undan og á eftir tilvísuninni til Geitlandsins. Kirkjan á :-“Scogur isandale- þar fúlger oc scogr iþverar hþ (hlíð) at viþa til sels“. Þannig rekur máldaginn sjálfur myndunarsögu skógarítakanna. Hví skyldi hann þá taka það sjerstaklega fram að Reykholtskirkja ætti „geitland meþ scoge“, nema af því augljósa, að kirkjan átti öldungis allan skóg á landinu og það með ásamt öllum öðrum gögnum og gæðum. Þar áttu aðrir engan rjett í. Vakin er athygli á orðalagi yngri máldaga, en þar segir jafnan: „Geitland allt með skógi“. Bendir þetta orðalag ekki einmitt til þess, að kirkjan átti Geitland öldungis og að þar áttu aðrir engan rjett? Eins má að því spyrja hvað ráðherra taldi sig vera að selja Hálsahreppi ef Geitlandið var þá ekki eignarland eins og það hefur verið frá því land var numið. Guðrún Ása Grímsdóttir hefur ritað um svipuð ítök Skálholtsstóls.
Í dómi Hæstarjettar 1994 segir þó meðal annars: „Í kjölfar landnáms virðist Geitland hafa verið fullkomið eignarland. Þegar litið er til hinna elstu heimilda um rétt Reykholtskirkju að Geitlandi virðist það hins vegar vafa undirorpið hvort landið sé eignarland þar sem tekið er fram í þeim heimildum að skógur fylgi landi. Heimildir ríkisins til að afsala Hálsahreppi Geitlandi eru leiddar af rétti Reykholtskirkju til landsins og leikur þannig vafi á því, hvort það er eign, sem háð er beinum eignarrétti.“ Eg tek undir þá skoðun að Geitland var við landnám fullkomið eignarland og að heimildir ríkisins til þess að afsala því sjeu leiddar af eignarrjetti Reykholtskirkju, en hitt vjefengi eg hinsvegar, að ríkið hafi haft heimild til þessa afsals á sínum tíma, þar sem landið er hluti af stofnfje kirkjunnar, en ekki venjuleg kirkjujörð. Dómurinn sýndi ekki fram á, að landið hafi hætt að vera það, sem hann þó viðurkennir, að verið hafi í öndverðu: “fullkomið eignarland”. Að halda því fram, að orðalagið “Geitland með skógi” gefi tilefni til þess, að eignarjettarstaða landsins hafi breyzt tel eg mig hafa hrakið hjer að framan og vísa jafnframt um þetta atriði til blaðaskrifa Dr. Einars Gunnars Péturssonar um Geitlandsdóm Hæstarjettar í Morgunblaðiu sama ár.
Klerkar
Klerkar í Reykholti
Klerkar í Reykjaholti á öld Sturlunga
Sonur og arftaki Magnúsar Þórðarsonar var Sölvi prestur, faðir Páls, sem kallaður er „dýrligur kennimaður“ í Sturlungu og til greina kom að setja á byskupsstól í Skálholti. Syni hans, Magnúsi presti, eyddist fje með aldrinum. Snorri Sturluson felldi svo mikinn hug til staðarins að hann fjekk heimildir að honum hjá þeim mönnum, sem erfðarjett höfðu til forráða hans. Keypti hann að Magnúsi presti Pálssyni að hann gæfi upp staðinn og tæki við þeim hjónum, Magnúsi og Hallfríði Þorgilsdóttur Arasonar hins fróða. Hjet hann og að koma sonum þeirra, þeim Ara og Brandi, til þess þroska er auðið væri, en hvorugur þókti vera til staðarforráða fallinn. Staðurinn í Reykholti var svo búinn að fjárafla og klerkdómi, sem þar þjónaði, að vel má skýra, hví Snorri felldi hug til hans. Gerðist Snorri þar höfðingi mikill því eigi skorti fje, segir Sturla Þórðarson um Snorra föðurbróður sinn, en Sturla nam sjálfur sagnaritun hjá Snorra í Reykholti. Er ekki að efa, að skólahald mun hafa verið á staðnum í tíð Snorra og einnig í Stafholti sem Snorri hjelt einnig. Af máldögum og öðrum heimildum, svo sem Sturlunga sögu, má ráða að í Reykholti hafi fimm klerkar samtímis og er það varlega ætlað. Sumir þeir, sem vitað er um á staðnum á dögum Snorra Sturlusonar, eru í tölu höfuðklerka að lærdómi og ætterni. Styrmir hinn fróði Kárason er talinn sonur Kára ábóta Runólfssonar á Þingeyrum Ketilssonar Þorsteinssonar Skálholtsbyskups og Gróu Gizurardóttur Ísleifssonar byskups. Hans er getið í þjónustu Snorra á staðnum 1228 og 1230. Hann var tvisvar lögsögumaður 1210-1214 og aftur 1232-1235, en það ár gerðist hann príor Ágústínusarklausturs í Viðey, er Snorri setti í félagi við Þorvald í Hruna, föður Gizurar jarls. Sturla Bárðarson, skáld og fræðamaður, var systursonur Snorra, djákni að vígslu. Hans er getið á staðnum bæði 1222 og 1228. Tveir klerkar eru nefndir í þeim hluta Reykjaholtsmáldaga, sem talinn er vera frá árabilinu 1224-1241, þeir Þórarinn prestur Vandráðsson og Vermundur djákni. Þórarins er getið í flokki Sturlu Sighvatssonar í Bæjarbardaga 1237, en Sturla hafði um páskana árið áður sezt í bú Snorra í Reykholti. Er svo að sjá, sem Þórarinn hafi haldizt í Reykholti, þótt Snorri væri í brottu. Egill Sölmundarson, systursonur Snorra og Þórarinn prestur hjeldu staðinn um hríð eftir Snorra. Gæti Þórarinn hafa staðið fyrir kirkjuhluta staðarins, en Egill, sem var subdjákn að vígslu, mun hafa varðveitt búið. Kúgaði Þorgils skarði af þeim staðinn árið 1252, en þeir tóku við honum aftur ári síðar. Er getið Þórðar Bersasonar prests hjá Agli Sölmundarsyni í Reykholti árið 1253. Vermundur djákn er nefndur aftan við Reykjaholtsmáldaga. Arnbjörns prests er getið á staðnum, er Snorri var veginn haustið 1241. Gunnlaugur Hallfreðsson, mágur Þorgils skarða, var með honum í Reykholti. Hann var prestvígður.
Sturla Sighvatsson seldi Þorláki Ketilssyni staðinn í hendur eftir Bæjarbardaga. Hann var goðorðsmaður, faðir Ketils lögsögumanns. Hann hafði búið á Grund í Eyjafirði, í Hítardal og á Kolbeinsstöðum áður en hann kom í Reykholt. Hann mun hafa látizt árið 1240.
Reykholt kom við þau átök, er urðu á milli klerka og leikmanna í tíð herra Árna Þorlákssonar í Skálholti og Eiríks Magnússonar prestahatara Noregskonungs um yfirráð staðanna. Urðu hörð átök um slíka staði. Í brjefi Eiríks konungs Magnússonar og Hákonar hertoga frá vorinu 1283 til sýslumanna og handgenginna manna á Íslandi, er Reykholt nefnt á meðal þeirra staða, sem leikmenn hafa haft að erfðum, en klerkar hafa tekið. Skuli þeir aftur falla undir leikmenn. Lauk þeim deilum með samkomulagi þeirra í Ögvaldsnesi í Noregi þann 10. maí árið 1297. Skyldu klerkar halda þá staði er kirkja átti að hálfu eða meira, en leikmenn þá, er þeir áttu meirihluta í. Reykholt var að öllu leyti kirkjueign, en hafði verið í haldi leikra höfðingja.
Klerkar á síðmiðöldum.
Einars Kolskeggssonar er getið í Reykjaholti um 1360 og Ara Gunnlaugssonar officialis árið 1388.
Síra Ásbjörn Ólafsson er kominn að staðnum fyrir 1388. Hann afhenti síra Ólafi Kolbeinssyni staðinn þann 7. júní árið 1392. Síra Gunnar Gilsson fjekk staðinn 1393 og hjelt hann til 1398 og síra Halldórs Jónssonar prófasts er getið þar um svipað leyti. Síra Þorkell Ólafsson, bróðir Árna Skálholtsbyskups, hjelt staðinn í Reykholti 1415 til 1444. Árni byskup Ólafsson fór jafnframt með hirðstjórn á Íslandi og var því afar valdamikill. Gæti síra Þorkell hafa notið bróður sín, en hann hafði sjálfur mikil umsvif. Hann hafði prófastsdæmi um Húnavatnsþing 1415 til 1419 og var officialis í Skálholtsstipti 1419 til 1430.
Síra Hrafn Gilsson tekur við eignum Reykholtskirkju úr hendi Einars bónda Ormssonar árið 1463. Til er skrá um fjármuni Reykholtskirkju frá árinu 1503, er síra Halldór Jónsson sleppti, en síra Þórður Jónsson meðtók.
Síra Jón Einarsson var einn þeirra presta, sem nokkuð kemur við sögu siðbótarinnar á Íslandi. Hann er talinn fæddur fyrir 1494 og dáinn eftir 1539. Faðir hans var Einar bóndi Þórólfsson á Hofsstöðum, áhrifamaður á sinni tíð. Móðir hans var Katrín Halldórsdóttir ábóta á Helgafelli Ormssonar. Þau hjón voru próventufólk á Helgafelli á efri árum sínum sínum. Fyrstu áreiðanlegu fregnir af síra Jóni eru frá árinu 1494, en þá er hann ráðsmaður Stefáns Jónssonar biskups í Skálholti. Flest bendir til að Jón Einarsson hafi vígzt til Reykholts árið 1510 og setið þar til 1518, en var síðar í Odda á Rangárvöllum. Hann var officialis á Vestfjörðum 1520-1521 og officialis generalis syðra. Ögmundur Pálsson biskup í Skálholti lagði kapp á að síra Jón yrði biskup á Hólum þegar Gottskálk biskup Nikulásson dó árið 1520 og sendi hann til Noregs í því skyni. Þar keppti hann um embættið við Jón Arason, sem hlaut. Síra Jón Einarsson var mikils metinn af biskupunum Stefáni Jónssyni og eftirmanni hans Ögmundi Pálssyni, sem gerði hann að staðgengli sínum, þegar hann fór utan til biskupsvígslu, þrátt fyrir nokkurn ágreining þeirra í millum.
Árið 1528, er síra Jón sleppti, tók síra Ólafur Gilsson við staðnum. Hann virðist hafa verið prestur í Reykholti árið 1508 og var frá sama ári prófastur á Ströndum þar til hann tók aftur við Reykholti af síra Jóni árið 1518. Í prestasögum sínum kallar síra Jón Halldórsson hann „mikinn framkvæmdar- og fylgismann.“ Hann dró mikinn rekavið norðan úr Trékyllisvík á Ströndum og endurbyggði kirkju í Reykholti. Í upphafi aldarinnar var kirkjan orðin hrörleg og var virt einungis á fimm hundruð. Þegar hún var tekin út eftir síra Ólaf var hún metin á 40 hundruð.
Um kirkjuskrúð á miðöldum
Til er skrá um skrúða kirkjunnar frá 1518, er síra Ólafur Gilsson tók við af síra Jóni Einarssyni. Frá 31. maí árið 1538 er „dómur Ögmundar byskups um aðtekt þeirra Orms, Þorsteins og Eiríks á peningum Reykholtskirkju og Hjarðarholtskirkju (í Laxárdal) og á bréfum og skilríkjum eftir síra Ólaf heitinn Guðmundsson bróður sinn,“ prest í Reykholti, en síra Björn Þorgilsson tók við staðnum það ár. Um 1547 fjekk síra Eiríkur Jónsson staðinn og síra Einar Marteinsson, launsonur Marteins biskups Einarssonar, árið 1563 og er þar talinn prestur árið 1564. Þann 30. ágúst árið 1563 kvittar Gísli biskup Jónsson Þórð Guðmundsson lögmann um alla meðferð staðarins í Reykholti.
Athugun á fjölda sloppa og messuskrúða, er taldir eru í máldögum, er lögð til grundvallar, þegar metinn er fjöldi klerka við kirkjur á miðöldum. Helztu hlutar skrúða eru: Höfuðlín, serkur, lindi, stóla, hökull og handlín, en djáknar báru dalmatiku og subdjáknar subtil í stað hökuls. Sloppur kemur til á 11. öld og var upphaflega handa klerkum, er höfðu minni vígslur, en síðar var algengt að prestar bæru þá við tíðagjörð. Orðið mun komið úr ensku máli, en hið þýzka er rocklein og er þaðan komið rykkilíns heiti þessa messuklæðis í íslenzku.
Samkvæmt Wilkinsmáldaga 1397 á staðurinn níu manna messuklæði og fjóra sloppa, eina dalmatiku og fimm kápur. Árið 1358 eru talin ellefu messuklæði, fjórir sloppar og fimm kápur. Líklega er mest að marka fjölda sloppanna. Að jafnaði hafa kirkjur átt slopp fyrir hvern prest, þótt vera kunni að einhverjir prestar ættu sína sloppa sjálfir. Reikniregla fræðimanna gerir ráð fyrir 1,6 skrúða á prest. Er því óhætt að reikna með fjórum til sex klerkum á staðnum að jafnaði á miðöldum.
Siðbótin og Reykhyltingarnir
Ryskingar siðbótaraldar fóru ekki fram hjá Reykholtsstað. Þann 30. júlí árið 1539 gekk dómur Ögmundar byskups Pálssonar og tólf presta í Reykholti þar sem Claus van der Merwitse og Didrik af Minden og fylgismenn þeirra voru dæmdir í hæsta páfans bann fyrir rán og gripdeildir á klaustrinu í Viðey. Hald kirkjunnar á staðnum komst í hendur leikmanna um hríð.
Fóru tveir lögmenn með Reykholtsstað upp úr miðri 16. öld. Voru það þeir Oddur Gottskálksson sá, er þýddi Nýja testamentið á íslenzku. Var þýðing hans prentuð í Hróarskeldu árið 1540. Oddur hjelt Reykholt frá 1552 til 1557. Hann var ekki prestvígður og segir síra Jón Halldórsson, að síra Loftur Þorkelsson á Húsafelli hafi þjónað í hans tíð.
Þórður lögmaður Guðmundsson hjelt staðinn frá 1557 til 1563. Þórður er mikill merkismaður sinnar samtíðar og hjelt uppi ötulli forystu íslenzkra málefna gagnvart vaxandi konungsvaldi. Nokkuð los komst á hald kirkjufjár upp úr siðbótinni. Leikmenn komust yfir hald kirkjueigna og nytjar. Eru meðal annars ákvæði í kirkjuordinatiunni 1533 er mæla fyrir um atkvæði sýslumanna til að ná aftur slíkum eignum. Gripdeildir af þessu tagi urðu ekki tíðar aftur fyrr en á 20. öld, en þá má segja að keyrt hafi um þverbak í þessu efni á Íslandi. Er sú þróun mála auðsæ á meðferð Reykholtsstaðar á öðrum þriðjungi 20. aldar. Er þar atbeini ríkisvaldsins annar en var þó á siðbótaröld, sem sjá má i.a. á merkilegum dómi Þórðar Guðmundssonar lögmanns frá 1596 um eignarhald Reykholtskirkju á Geitlandi.
Prestar eftir siðbót. Reykhyltingarnir
Síra Jón Einarsson um 1514-1591
Sumarið 1569 veitti Gísli biskup Jónsson staðinn síra Jóni Einarssyni Sigvaldasonar langalífs Gunnarssonar og Gunnhildar Jónsdóttur, konu hans, og staðfesti Kristófer Walchendorph höfuðsmaður veitinguna. „Guðhræddur maður og næsta gagnlegur kirkjunni,“ segir Gísli um hann í veitingarbrjefinu. Hálfbróðir hans var síra Gizur Einarsson, fyrsti biskup í Skálholti í evangeliskum sið. Síra Jón er nefndur hinn yngri til aðgreiningar frá hálfbróður sínum og alnafna laungetnum, síra Jóni Einarssyni eldra, presti á Stafafelli í Lóni. Með honum hófst í Reykholti tímabil, sem stóð samfellt í 185 ár, er sama ættin hjelt staðinn mann fram af manni, oft nefndir Reykhyltingarnir.
Síra Jón var dómkirkjuprestur í Skálholti 1545-1550, og prestur á Mosfelli í Grímsnesi 1550-1559. Í Görðum á Akranesi var hann 1559-1569, er hann kom í Reykholt. Hann var prófastur í Þverárþingi á milli Botnsár og Hvítár frá sama ári. Honum var borið það, að hans kærasta iðja hafi verið að lesa og skrifa. „En annars er það almenningsorð um hann, að hann hafi verið spaklyndur maður, guðhræddur og svo frásneyddur ágirnd, að hann hafi hvergi þegið hestlán, dagsverk né annan beina sér veittan, nema gegn fulli endurgjaldi.” Hann kom við ráðuneyti biskupa, var til dæmis einn þeirra 24 presta, er tilkvaddur var af Marteini biskupi Einarssyni, til að dæma um gjörninga Jóns byskups Arasonar í Skálholtsstipti.
Síra Jón sleppti Reykholti við son sinn, síra Böðvar, sem hann kallaði til sín capellán árið 1582 vestan af Stað í Grunnavík. Síra Jón dó árið 1591.
Síra Böðvar Jónsson um 1550-1526
Síra Böðvar Jónsson var óskilgetinn. Hafði síra Jón átt hann með Guðríði Sigurðardóttur búrkonu í Skálholti árið 1548. Hann kvæntist henni síðar. Böðvar lærði til prests í Skálholtsskóla og hjá síra Jóni Loftssyni þeim, er tók við Mosfelli eftir síra Jón Einarsson og síðar Görðum einnig. Síra Jón og nafni hans Loftsson voru systkinasynir og var Jón Loftsson „á þeim tímum haldinn með þeim meiri háttar prestum sunnanlands um lærdóm sinn, þó upp á forna vísu í sumum greinum.” Má skilja þessa athugasemd á þann veg að mörgum klerkum, sem og öðrum, hafi verið eftirsjá að þeim arfi miðaldanna sem fór forgörðum með siðbótinni. Ber skáldskapur aldarinnar þessu víða vott, svo sem Aldarsöngur Bjarna Jónssonar, sem nefndur er Borgfirðingaskáld. Hann ólst upp á Húsafelli og var sem næst samtíðarmaður síra Böðvars.
Síra Böðvar mun hafa vígzt heimilisprestur að Bæ á Rauðasandi til Eggerts Hannessonar lögmanns árið 1569. Fékk Stað í Grunnavík eftir síra Pantaleon Ólafsson og eignaðist Ástu dóttur hans að eiginkonu. Síra Böðvari var nauðugt að fara frá Stað en faðir hans ætlaði honum Reykholt eftir sig og kvað „Reykholt honum og niðjum hans lengur en skemur ei óheppið verða, ef þeir færu vel með plássið,” segir í Prestaævum Daða Níelssonar. Árið 1585 kjöri Gísli biskup hann prófast í Þverárþingi sunnan Hvítár eftir föður sinn. Síra Böðvar var í miklum metum hjá biskupunum báðum, herra Gísla Jónssyni og herra Guðbrandi Þorlákssyni, en hann þýddi og orkti sálma í sálmabók Guðbrands og var honum gagnlegur ráðunautur. Mikill vinur varð hann herra Odds Einarssonar, sem kvaddi hann til ráðuneytis og skipaði hann í dóma um ýmis mál sakir þekkingar hans, réttsýni og lögvísi. Var hann meðal annars settur til þess með öðrum árið 1592 að taka saman kirkjuordinantiu til næsta Alþingis, sem þó varð ekkert úr vegna ágreinings við hirðstjórann. Handrit hans til kirkjulaga er til í Árnasafni.
Síra Böðvar vann sér það til vinsælda hjá borgfirzkum klerkum að fá afljett af þeim ólöglega innheimtu tíundargjaldi af lausafje. Tókst þetta á Alþingi eftir tíu ára streð við Þórð lögmann Guðmundsson og fleiri. Síra Böðvar var í tölu virtustu og áhrifamestu klerka landsins um sína daga og telur Hannes biskup Finnsson hann vera „nafnfrægastan þeirra Reykholtsfeðga.”
Síra Böðvar var þríkvæntur. Með Ástu Pantaleonsdóttur átti hann 10 börn, en einungis 5 þeirra komust til aldurs. Með tveimur síðari konum sínum átti hann 5 börn til viðbótar. Eftir Ástu átti hann Guðrúnu Þorleifsdóttur Bjarnasonar á Mýrum í Dýrafirði, en síðan Steinunni Jónsdóttur „rebba” í Búðardal Sigurðssonar, ekkju Finns Steindórssonar á Ökrum á Mýrum. Með henni eignaðist hann Jón yngra Böðvarsson, sem tók við eftir hann. Síra Böðvar andaðist árið 1626. Hafði hann þá verið prestur í 57 ár, en prófastur í 41 ár.33
Síra Jón Böðvarsson um 1594-1657
Síra Jón Böðvarsson virðist hafa verið minni skörungur en faðir hans og afi höfðu verið. Hann er fæddur í Reykholti árið 1593 og var nefndur Jón yngri til aðgreiningar frá hálfbróður sínum af fyrsta hjónabandi síra Böðvars, en sá Jón hinn eldri varð prestur á Húsafelli og síðar til Nesþinga. Jón yngri nam í Skálholtsskóla, varð capellán föður síns um 1618, er síra Böðvar tók að missa sjón og varð síðast alblindur. Árið 1626 tók Jón við Reykholti að föður sínum önduðum. Síra Jón var spaklyndur og siðavandur á heimili sínu, rómaður raddmaður til söngs, „sá mesti á þeim tímum.” Þegar Guðbrandur biskup gifti dótturdóttur sína, Helgu Aradóttur, Guðmundi Hákonarsyni á Þingeyrum árið 1621, var síra Jón fenginn norður „til að syngja og kveða fyrir skálum og minnum á brúðgumabekk.” Kona síra Jóns Böðvarssonar var Cecilia Torfadóttir prests á Gilsbakka. Eignuðust þau 19 börn, en af þeim lifðu einungis sex. Meðal þeirra var síra Halldór eldri, sem tók staðinn í Reykholti, hinn fjórði í röð þessara feðga, eftir föður sinn. Síðustu æviár sín naut síra Jón capellánsþjónustu síra Torfa, sonar sín, en með því að hann var ekki attestatus, i.e. hafði ekki próf frá háskólanum í Kaupmannahöfn, tók hann ekki við af föður sínum, heldur síra Halldór, bróðir hans. Síra Torfi fékk hins vegar Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Síra Jón Böðvarsson dó árið 1657, sextíu og fjögurra ára gamall.36
Síra Halldór Jónsson 1626-1704
Síra Halldór Jónsson var fæddur í Reykholti 1626, sama árið og afi hans síra Böðvar lézt. Hann brautskráðist úr Skálholtsskóla árið 1646. Tveimur árum síðar fór hann á Kaupmannahafnarháskóla, þar sem hann mun meðal annars hafa notið sérstakrar tilsagnar Ole Worm. Eftir próf var hann heyrari í Skálholti árin 1651-1654 og dómkirkjuprestur til 1667, en dómkirkjuprestar voru jafnframt kennarar í kennimannlegum greinum við skólann. Á Skálholtsárunum afritaði hann brjefabók Gizurar Einarssonar. Brynjólfur biskup Sveinsson segir um hann „að hann verðskuldi bezta vitnisburð fyrir spaklyndi og hógværð, trúlyndi og hollustu við sig og sína.” Þeir herra Brynjólfur munu hafa verið miklir vinir sem og síra Halldór og herra Þórður Þorláksson, eftirmaður Brynjólfs á stóli, sem taldi hann á meðal fyrirpresta biskupsdæmisins, er hann treysti bezt til þess að vera sjer innan handar. Sem „snarvitrum, einlægum og lögfróðum manni” felur herra Þórður síra Halldóri að taka með sjer, ásamt þremur mætisprestum öðrum, sæti í nefnd til að sjóða upp úr annarri bók Norsku laga, þá nýútkomnum, „kirkjulaga form” við hæfi hinnar íslenzku kirkju. Er þetta til marks um það traust er á honum lá. Sem prófastur gat hann sjer það orð að hann sé „reglusamur, kyrrlátur, yfirlætislaus og góðmenni.“
Fyrstu sjö árin í Reykholti var síra Halldór ókvæntur, en árið 1664 gekk hann að eiga Hólmfríði Hannesdóttur lögréttumanns Helgasonar frá Kolsholti í Flóa. Þókti Hólmfríður mikill kvenkostur og höfðu margir orðið til að biðja hennar. Fór hann til kvonbæna í Kolsholt sumarið 1663 og fékk daufar undirtektir af hálfu Ragnhildar Daðadóttur, móður Hólmfríðar hvort sem grennslast hefur verið fyrir um vilja hennar sjálfrar eður ei. Síra Halldór skrifaði síra Torfa Jónssyni í Gaulverjabæ, vini sínum, og fól honum að reka áfram erindi sín við kvonbænirnar. Síra Torfi hafði skömmu áður rekið sömu erindi fyrir annan prest, en enga áheyrn fengið. Getur hann þess í bréfinu til Ragnhildar, en bætir því við, að hann „verði þó að skreiðast á fætur eftir skjóðu hverja” og skila á ný einkaerindum annars kennimanns, síra Halldórs. Óskar hann „geðfellds” svars, svo hann „geti fært síra Halldóri jáyrði Hólmfríðar í jólagjöf.” Þau giftust 1664 og naut síra Halldór skörungsskapar hennar í 40 ár. Hólmfríður er kölluð prófastamóðir, því þrír af fjórum sonum þeirra Halldórs urðu prófastar að Hólmfríði lifanda. Tvær dætur sínar misstu þau í Stórubólu árið 1707, en sú þriðja giftist presti. Síra Halldór andaðist í Reykholti 79 ára gamall eftir 57 ára prestsskap og var prófastur í 41 ár. Hólmfríður lifði mann sinn í 27 ár og andaðist hjá síra Hannesi, syni sínum haustið 1731, komin fast að níræðu, fædd 1641.
Jón Helgason biskup segir um þau hjón í riti sínu um Jón Halldórsson að „allir urðu synir þeirra merkir menn, en merkastur þeirra varð þó elzti sonurinn, sem í Hítardal gerði garðinn frægan alla prestsskapartíð sína, og hefir með ritstörfum sínum og fræðimennsku krýnt nafn sitt þeim heiðri, að það mun seint, ef nokkru sinni, þjóð hans úr minni líða.” Á hann þar við síra Jón Halldórsson í Hítardal, föður Finns Jónssonar, sem vafalaust er merkasti fræðamaður 17. aldar á Íslandi.
Síra Hannes Halldórsson 1668-1731
Síra Hannes Halldórsson er fæddur í Reykholti árið 1668. Að námi í Kaupmannahöfn loknu vígðist hann capellán föður síns sumarið 1692 og tók við staðnum eftir hann árið 1704 ásamt prófastsembætti í Þverárþingi sunnan Hvítár. Hann hafði Þverárþing vestan Hvítár þau ár, er Jón bróðir hans í Hítardal gegndi rektorsembætti í Skálholti. Nokkur þykkja varð með honum og herra Jóni Árnasyni í Skálholti eftir að síra Hannes hætti að sækja prestastefnur á Alþingi 1726, en hann bar við heilsuleysi og lélegum aðbúnaði biskups við dómprestana á Alþingi, en herra Jón hætti að láta þeim í tje beina þar á þinginu, svo sem þó hafði verið áður. Heilsuleysi hans kom fram í fótaveiki, megrun og blóðleysi. Eftir hann liggja ýmis skrif auk brjefabókar hans, svo sem viðaukar Skarðsárannála og uppskriftir skjalabóka varðveittar á Landsbókasafni.
Fyrri kona síra Hannesar var Guðlaug Eiríksdóttir prests í Hjarðarholti Vigfússonar. Þau giftust árið 1699, en hún dó af barnsförum. Árið 1708 kvæntist hann Helgu eldri Jónsdóttur í Einarsnesi Sigurðssonar. Síra Hannes dó 30. nóvember árið 1731.
Síra Finnur Jónsson 1704-1789
Síra Finnur Jónsson var sonur síra Jóns Halldórssonar í Hítardal og konu hans, Sigríðar Björnsdóttur Stefánssonar, prests frá Snæfoksstöðum í Grímsnesi, fæddur 16. janúar 1704, eða sama ár og síra Halldór, afi hans, andaðist í Reykholti. Hann lauk Skálholtsskóla árið 1723. Lætur Jón biskup Vídalín mikið af gáfum hans í bréfi til föður hans það ár. Var hann heima hjá föður sínum í Hítardal unz hann fór til Kaupmannahafnar og skráðist þar í háskólann 1725 og lauk prófi 1728 með fyrstu einkunn. Hjá föður sínum var hann heim kominn frá námi, unz hann tók við Reykholti eftir síra Hannes, föðurbróður sinn, árið 1732. Sama ár tók hann við prófastsembætti í Þverárþingi sunnan Hvítár.
Hann kvæntist Guðríði Gísladóttur lögréttumanns í Mávahlíð Jónssonar haustið 1733. Börn þeirra voru: Margret sem giftist Jóni biskupi Teitssyni, síra Halldór í Hítardal, síra Jón í Hruna, Hannes biskup, Steindór sýslumaður að Oddgeirshólum og Ragnheiður er giftist Magnúsi lögmanni Ólafssyni að Meðalfelli. Finnur er ættfaðir Finsen ættarinnar, en ýmsir afkomendur þeirra hjóna tóku upp það heiti.
Reynt var að fá Finn til að sækja um biskupsembætti á Hólum 1740, en hann neitaði því. Hann var settur officialis í Skálholtsstipti 1743 og gegndi biskupsembættinu í Skálholti til 1747, samfara því að halda stað og embætti í Reykholti. 1754 var hann kvaddur til þess að gerast biskup í Skálholti eftir Ólaf Gíslason, en hafnaði því að taka að sjer innistæðu stólsins og ráðsmennsku, enda vildi hann vera áfram kyrr í Reykholti. Var fjársýsla stólsins þá undanskilin biskupsembættinu um hríð. Sama ár vígðist hann til Skálholtsstóls. Finnur hlaut doktorsnafnbót í guðfræði fyrstur Íslendinga árið 1774. Heilsu hans hrakaði í embætti og fékk hann Hannes son sinn sem aðstoðarbiskup við sig frá árinu 1777 og sleppti við hann embættinu að fullu árið 1785 en hann ljezt 1789.
Hann gat sér það orð að „vera einhver hirðusamasti maður í embættisrekstri, gætti vel meðalhófs í biskupsstjórn, tók vægt á smámunum og jafnaði oft í kyrrþey, en um hin stærri brot tók hann fast í taumana, en þó aldrei hranalega,” segir Páll Eggert Ólason um hann.
Frændur Finns og forverar í Reykholti voru flestir á meðal helztu klerka landsins um sína daga. Þeir voru nátengdir biskupum og handgengnir þeim og höfðu hvort tveggja aðstöðu og áhuga til þess að safna miklum upplýsingum um stjórnsýslu, sögu og menningu Íslendinga. Safnaðist fyrir í Reykholti mikið skjalasafn, er þeir juku mann fram af manni með rannsóknum og skrifum. Sonur Halldórs í Reykholti, síra Jón í Hítardal, faðir síra Finns í Reykholti, bjó að þessum arfi og ávaxtaði stórum. Hann ritaði Hirðstjóraannál, sem er þó fremur æviágrip þeirra manna er með hirðstjórn höfðu farið en eiginlegur annáll. Sjálfur nefnir hann ritið: „Stutt ágrip yfir hirðstjóra, stiftamtmenn, amtmenn, landfógeta og fullmektuga yfir Íslandi.” Biskupasögur hans í tveimur bindum geyma æviágrip biskupa beggja stipta á Íslandi frá upphafi fram á hans dag. Sjálfur nefndi hann ritið: „Operae successivæ Jone Haltorii senioris,” i.e. Hjáverkaskrif Jóns hins eldra Halldórssonar. Jón ritaði „Stutta og einfalda undirvísun um Skálholts dómkirkjuskóla og hans Rectores.” Hítardalsannáll, sem nær yfir tímabilið 1724 til 1734 er verk Jóns og er hann talinn hafa verið viðriðinn ritun Fitjaannáls. Jón ritaði Prestasögur um Skálholtsbiskupsdæmi frá siðskiptum fram undir 1730 eða ,,Spicilegium parochiarum Islandiæ ejusque ministrorum sacri ordinis in dioecesi Schalholtina.” Ekki laukst honum til fulls ,,Historia monastica Islandiæ,” eða Klaustrasaga Íslands. Sér þessara rita mjög stað Kirkjusögu Íslands ,,Historia Ecclesiastica Islandiae” Finns sonar hans, en hann ritaði þetta mikla stórvirki íslenzkrar kirkjusögu á grunni afreka föður síns og naut til þess einnig aðstoðar herra Hannesar, sonar síns. Loks skal hér geta Ættartölubókar síra Jóns Halldórssonar.
Síra Jón er talinn mikilvirkur, áreiðanlegur og hlutlægur í söguritun sinni, enda er hún enn mikil undirstaða þeirra sagnfræða, er taka til þess tíma, er þeir frændur fjalla um.
Kirkjusaga Finns Jónssonar er helzta verk hans og kom út í Kaupmannahöfn 1772 til 1778. Athugun á helztu ritum herra Finns Jónssonar gefur nokkra sýn inn í þrotlausar athuganir hans á sögu og menningararfi Íslendinga. Þegar jafnframt er litið til verka föður hans og sonar, herra Hannesar, sér þess glögglega stað, að þessar rannsóknir eru samfella og byggja á starfi fyrri kynslóða þessarar ættar í Reykholti. Rit herra Hannesar, Um mannfækkun af hallærum, hefur verið talin einhver fyrsta fjelagsfræðileg rannsókn á Norðurlöndum. Fullyrða má, að frá lokum 16. aldar, alla þá 17. og fram eftir þeirri 18. er Reykholt, ásamt biskupsstólunum í Skálholti og á Hólum, ein helzta miðstöð fræða og rannsókna í landinu.
Siðbótin lamaði hinar fornu kirkjumiðstöðvar. Ríkisvaldið dró undir sig tekjur kirkjunnar og ónýtti getu kirkjustofnananna til þess að sinna verkefnum, svo sem eldi þurfamanna og líknarstörfum almennt. Klaustrin hurfu og voru nær að öllu leyti óbætt þegar frá er talin ölmusa íslenzkra stúdenta á Garði. Utan biskupsstólanna fækkaði klerkum svo mjög að allt hvíldi á sóknarprestum. Fræðastörf urðu hjáverk þeirra, sem menntun og aðra aðstöðu höfðu til að halda áfram ræktun þeirrar arfleifðar, er klaustur og hinar fornu kirkjumiðstöðvar höfðu ástundað.
Hið mikla skjalasafn Reykhyltinganna, sem dregizt hafði saman fyrir þrotlausa iðju þeirra um kynslóðir, losnaði frá kirkjustólnum í Reykholti með Finni Jónssyni. Eftir dauða hans fylgdi það frú Valgerði, sem giftist síra Steingrími Jónssyni, síðar biskupi í Lauganesi við Reykjavík. Loks var það selt konungi, er stofnað var til Landsskjalasafnsins og er, ásamt biskupsskjalasöfnunum frá Skálholti og Hólum og landsskjölum veraldlegra yfirvalda, í meginstofni Þjóðskjalasafnsins. Þar er einnig varðveittur Reykjaholtsmáldagi, sem tilheyrir kirkjustólnum í Reykholti.
Eftirmenn Reykhyltinganna
Síra Þorleifur Bjarnason 1719-1783
Þegar síra Finnur Jónsson gerðist biskup í Skálholti árið 1754, tók við staðnum í Reykholti síra Þorleifur Bjarnason. Með honum slitnaði sá ættstofn á staðnum, sem hófst með síra Jóni Einarssyni og lauk með Finni. Síra Þorleifur var sonur síra Bjarna Þorleifssonar að Kálfafelli og konu hans, Þórunnar Ísleifsdóttur sýslumanns að Felli Einarssonar. Hann varð stúdent frá Skálholtsskóla 1737, djákn að Þykkvabæjarklaustri 1744, vígður aðstoðarprestur föður síns 1748, tók við prestakallinu 1749 og tók við Kálfafellsstað við uppgjöf föður síns 1751, prófastur í Skaftafellsþingi 1753. Sumarið 1754 var honum veitt Reykholt þar, sem hann sat til dauðadags árið 1783. Hann var prófastur í Þverárþingi sunnan Hvítár frá hausti 1767. Síra Þorleifur var alla tíð ókvæntur, en systur hans stóðu fyrir búi hjá honum í Reykholti. Þórunn var gift Guðmundi Sigurðssyni sýslumanni að Ingjaldshóli, sem andaðist snögglega á Staðastað árið 1753. Þau voru foreldrar Ingibjargar, sem giftist Eggerti varalögmanni Ólafssyni og drukknaði með honum á Breiðafirði 1768. Þegar Þórunn varð ekkja fór hún til Þorleifs, bróður síns í Reykholti þar sem hún sat í ekkjudómi sínum í 26 ár, dó í janúar 1779 og var greftruð í kirkjugólfi í Reykholtskirkju. Við hlið hennar þar var greftruð Brynhildur Hannesdóttir þjónustukona, dáin um svipað leyti, og komið hafði með síra Þorleifi eða föður hans austan úr Skaftafellssýslu í Reykholt. Engin skýring er til á því, að þessar konur væru greftraðar í kirkju, sem helzt var ætlað klerkum og bannað var um þetta leyti með öllu. Kristín, systir síra Þorleifs, kom líka til hans í Reykholt þegar Bogi Benediktsson í Hrappsey skildi við hana, en hún var miðkona Boga. Einnig hafði Þorleifur föður sinn hjá sér í Reykholti og andaðist hann þar. Síra Þorleifur Bjarnason var vel að sjer og kenndi nemendum undir skóla.
Hann var talinn alúðlegur og skemmtilegur, var siðfastur trúmaður og fastheldinn. Sögur hafa varðveitzt í prestakallinu um siðfestu hans. Hann hélt þríheilagt á stórhátíðum, einnig eftir að helgi var felld niður á þriðja degi þessara hátíða árið 1770. Lýst var á Alþingi 1771 afnámi helgi á þriðja degi jóla, páska og hvítasunnu auk þrettándans, kyndilmessu, Jóns messu, vitjunardags Maríu, Mikjálsmessu og Allra heilagra messu. Líkur benda til þess að hann hafi einnig haldið heilagt á helztu messudögum Biblíudýrlinga, svo sem á Maríumessum, Jónsmessu, Mikjálsmessu og Allra heilagra messu. Átti hann að hafa byrjað predikun á þriðja í jólum eftir að bannað var helgihald þann dag með orðunum: „Hafa skal meðan halda má.” Þegar að því var fundið að hann hlýddi ekki konungsboði í þessu efni á hann að hafa sagt: „Vel má konungurinn hafa kjólinn minn, hann er gamall og slitinn og eg þarfnast hans víst ekki lengi enn.”
Síra Þorleifur gaf þau saman í Reykholti, Eggert Ólafsson og Ingibjörgu, systurdóttur sína, haustið 1767. Var sú veizla allfræg og er til lýsing hennar í bréfi Björns prófasts Halldórssonar í Sauðlauksdal til Jóns Ólafssonar varalögmanns. Sjálfur hafði Eggert tekið saman kver, „Uppkast til forsagna um brúðkaupssiðu hér á landi.”
Síra Eiríkur Reykdal Vigfússon 1747-1808
Eftirmaður síra Þorleifs var síra Eiríkur Reykdal Vigfússon, bróðursonur Finns biskups. Hann var síðastur prestur í Reykholti af kyni þeirra biskupanna Gizurar Einarssonar og Finns. Síra Eiríkur var sonur síra Vigfúss Jónssonar í Hítardal og konu hans, Katrínar Þórðardóttur prests á Staðastað Jónssonar. Eftir stúdentspróf frá Skálholtsskóla gerðist hann capellán föður síns, en er faðir hans ljet af prestsskap í Hítardal árið 1775 varð hann kirkjuprestur í Skálholti í fjarveru frænda síns, síra Hannesar Finnssonar, og fjekk embættið 1777, er síra Hannes varð biskup. 1780 tók hann við Hvammi í Norðurárdal og Reykholti 1783 fyrir vilyrði við þá biskupsfeðga, að staðurinn hjeldist í ætt þeirra. Tók síra Eiríkur jafnframt prófastsdæmið, að venju þeirra frænda. Hann hafði brauðakaup við síra Eggert Guðmundsson, sem hlotið hafði Stafholt, þótt hann kæmi aldrei að staðnum þar, en þangað fór síra Eiríkur árið 1807 og dó þar 1808 og hrökk bú hans ekki fyrir skuldum. Síra Eggert tók hins vegar við Reykholti. Brauðakaupin eru talin til komin líklega mest fyrir fátæktar sakir, því síra Eiríkur taldi sig geta komizt frá því að sæta miklu álagi á staðinn í Reykholti, en búmaður var hann enginn og níddi mjög niður staðinn. Hannes biskup, frændi hans, gefur honum þó þá einkunn, að hann sje ,,reglusamur, góðgerðasamur, siðprúður, starfsamur, góður kennimaður og einkar laginn við að fræða börn, en enginn sjerlegur gáfumaður.” Hins vegar var hann af sumum talinn hjegómlegur og daufur til gáfna og prestverka, enda hafinn upp við styrk frænda sinna. Hann var og talinn erfiður konu sinni, enda var hún kaldlynd og hispursöm. Hún var Sigríður Jónsdóttir Teitssonar Hólabiskups og síðari konu hans, Margrétar Finnsdóttur biskups, og voru þau síra Eiríkur því tvímenningar að frændsemi.
Nítjánda öldin
Síra Eggert Guðmundsson 1769-1832
Síra Eggert Guðmundsson tók við Reykholti árið 1807 eftir skiptin við síra Eirík Vigfússon. Hann var sonur Guðmundar Vigfússonar ökonomuss, síðar sýslumanns Gullbringusýslu, og konu hans Guðrúnar Þorbjarnardóttur hins ríka í Skildinganesi Bjarnasonar. Hann var fæddur að Arnarhóli í Reykjavík, stúdent frá Reykjavíkurskóla árið 1790 og gekk þá í þjónustu Magnúsar frænda sín Stephensen að Leirá, þar sem hann hafði verið ráðsmaður á sumrum á meðan hann var í skóla og þókti hinn mesti afkastamaður. Hann vígðist til Staðarhrauns árið 1792, fékk Gilsbakka 1796 og var veitt Stafholt 1806, en gerði þá brauðakaupin við síra Eirík. Í Reykholti þjónaði hann til dauðadags vorið 1832. Varð prófastur Þverárþings sunnan Hvítár árið 1811 til æviloka. Kvæntur var hann Guðrúnu Bogadóttur Benediktssonar í Hrappsey og þriðju konu hans, Sigríðar Jónsdóttur, prests í Stafholti Jónssonar.
Börn síra Eggerts, þau er upp komust, voru: Guðrún, er átti Magnús skipherra Waage í Stóru-Vogum, síra Benedikt, sem hann tók sér til capelláns árið 1826. Síra Benedikt var fæddur 1799 á Gilsbakka, nam hjá klerkum og varð stúdent árið 1824. Var við háskólann í Kaupmannahöfn í eitt ár eftir það, en vígðist capellán til föður sín árið 1826. Hann gegndi Reykholti um eins árs skeið eftir lát hans, en var veittur Lundur 1833 og fór þaðan á Breiðabólsstað á Skógarströnd, í Vatnsfjörð 1868 og var þar til dauðadags árið 1871. Kona hans var Agnes Þorsteinsdóttir Magnússonar og Rannveigar Þorsteinsdóttur. Halldóru Eggertsdóttur átti fyrst Guðmundur Bjarnason á Hólmum, en síðar Rögnvaldur Jónsson frá Gullberastöðum. Ragnheiði Eggertsdóttur átti fyrst Björn gullsmiður Jakobsson á Fitjum, en síðar Sigurður Helgason dannebrogsmaður á Jörfa.
Síra Eggert var talinn hraustmenni og frækinn eins og hann hafi átt kyn til í báðum ættum, en enginn lærdómsmaður talinn. Hann var auðugur og þókti nokkuð harðdrægur. Í tíð síra Eggerts var Snorralaug friðlýst, sem fornaldarminjar og mun það vera einhver fyrsta friðlýsing minja á Norðurlöndum.
Í tíð síra Eggerts varð sú breyting á Reykholtsprestakalli, að staðurinn fjekk á ný annexíu, en hinar fornu útkirkjur virðast flestar hafa lagzt af upp úr siðbótinni. Árið 1812 lagði konungur niður kirkju og prestssetur á Húsafelli með annexíunni í Kalmanstungu. Kirkju í Stóra-Ási var á miðöldum þjónað frá Gilsbakka, en Stóri-Ás var lagður til Húsafells árið 1605. Með konungsbrjefi frá 21. ágúst 1812 var Stóri-Ás lagður til Reykholts og hefur verið annexía þaðan síðan. Stóra- Ás sókn var sameinuð Reykholtssókn með ákvörðun Kirkjuþings við árslok árið 2008.
Síra Þorsteinn Helgason 1806-1839
Síra Þorsteinn Helgason tók við staðnum vorið 1833. Hann var fæddur 12. febrúar 1806, sonur Helga konrectors Sigurðssonar að Móeiðarhvoli og Ragnheiðar Jónsdóttur sýslumanns þar Jónssonar. Síra Þorsteinn lærði hjá föður sínum og síðan hjá Steingrími Jónssyni, síðar biskupi, og varð stúdent frá honum 1823 með ágætum vitnisburði. Hann lagði stund á guðfræði við Kaupmannahafnarháskóla fram undir 1830, en vann og að prentun rita fyrir Fornfræðafjelagið og var styrkþegi Árnasjóðs 1827. Hann var í stjórn Kaupmannahafnardeildar Bókmenntafjelagsins og vann að prentun bóka þess og annarri bókaútgáfu og var mikið í fjelagsskap Fjölnismanna. Hann kom heim aftur árið 1830 og var heima þann vetur, en kom alkominn til landsins árið 1832 og fjekk Reykholt 1833, 26 ára gamall. Var orð að því gert, að hann bæri af öðrum mönnum, flestum hærri vexti og svaraði sjer vel, fríður og karlmannlegur, jarpur á hár og bjartur yfirlitum. Hann hafði verið heitbundinn Sigríði Hannesdóttur biskups Finnssonar og var um stund á heimili frú Valgerðar, ekkju Hannesar og Steingríms Jónssonar biskups í Lauganesi við Reykjavík, en Valgerður hafði giftzt honum að Hannesi önduðum. Komst hann þar í vinfengi við Sigríði Pálsdóttur sýslumanns á Hallfreðarstöðum Guðmundssonar, en hún var hjá frú Valgerði til að læra til munns og handa. Varð af þessu ástarævintýri, er leiddi loks til hjónabands sama árið og síra Þorsteinn kom að Reykholti. Gjörðist hann hinn mesti framkvæmdamaður og var vel vakandi fyrir búnaðarframförum. Byggði hann fyrst sauðahús í norðurlandi staðarins, sem áður voru þar engin. Fornfálega kirkju tók hann ofan, en byggði að nýju. Var sú kirkja um áratuga skeið eitt húsa í Borgarfirði, sem hafði timburþak í stað torfþekju. Stóð sú kirkja ófúin að veggjum og viðum unz hún var tekin ofan árið 1887. Mun mikið af viðum hennar enn vera til í baðstofu þeirri á Breiðabólsstöðum, er Ingólfur Guðmundsson kirkjusmiður reisti þar, en hann var smiður þeirrar kirkju, er við tók í tíð síra Guðmundar Helgasonar. Eldri kirkja var gólflaus nema innan um kórinn en undir bekkjum var raðað steinum að standa á. Byggði hann einnig upp bæinn og var sá talinn vandaður mjög. Ýmsar sagnir eru af síra Þorsteini og ritað hefur verið um ævi hans og örlög.
Sitt er hvað gæfa og gjörvileiki. Síra Þorsteinn er talinn hafa bilazt á geðsmunum haustið 1838 og drukknaði hann í Reykjadalsá í marzmánuði árið 1839. Er leiði hans í kirkjugarðinum vestan við hið forna kirkjustæði. Hvílir hann þar undir miklum grásteini, er hann er sagður hafa sjálfur valið sjer suður á fjalli haustið áður en hann dó. Flutti Magnús bóndi á Vilmundarstöðum steininn á leiðið en Þorsteinn Jakobsson á Húsafelli meitlaði grafskrift á með rúnum.
Grafskriftir síra Þorsteins Helgasonar
Á legsteini í kirkjugarði
H H
THORSTEIRN PRESTR
HELGA SON
DO 1839 33 A
Grafskrift í Reykholtskirkju
Reykdælir settu síra Þorsteini fagra grafskrift, er hangir í kirkju og fengu til þess Sveinbjörn Egilsson að yrkja hana að sögn Kristleifs Þorsteinssonar. Þar segir:
ÞORSTEINN HELGASON
PRESTR REYKHOLTS OG ÁSS SAFNAÐA,
FÆDDR 12. FEBRÚAR 1806;
PRESTVÍGÐR19. MAÍ 1833,
OG GEKK ÞÁ AÐ EIGA
SIGRÍÐI PÁLSDÓTTUR.
ÞAU ÁTTU SAMAN FJÓRAR DÆTR.
HANN DRUKKNAÐI Í REYKJADALSÁ
- MARTS 1839.
HUGPRÚÐ HETJA,
HJARTA PRÚÐ SÁL,
HÖLDA HOLLVINR;
MIKLU ORKAÐI,
MEIRA HUGSAÐI;
EI VAR Á MUNNI MART.
SKÆRT HANN SKEIN,
SKEIN EIGI LEINGI;
ÞÁ VAR DYMMT Í DAL
ER ANDI DROTTINS,
AF UPPHÆÐUM
BLÉS Á HIT BJARTA LJOS.
SÖKNUÐUM SÓKNARPRESTI SETTU
REYKDÆLAR.
Jónas Hallgrímsson orti honum og erfiljóð: „Hvarma skúrir harmurinn sári.”
Síra Jónas Jónsson 1773-1861
Síra Jónas Jónsson tók þá við staðnum í Reykholti árið 1840. Hann var sonur Jóns lestamanns á Hólum, síðar á Höfða á Höfðaströnd, Jónssonar smiðs á Skúfsstöðum og síðari konu hans, Margrétar Ólafsdóttur bryta á Bakka í Viðvíkursveit Jónssonar; af bændakyni í báðar ættir. Hann varð stúdent frá Hólaskóla 1792 með ágætum vitnisburði. Fékk Nes í Aðaldal 1797 og vígðist sama ár. Fjekk Höfða í Höfðahverfi 1803 og var þar unz hann kom að Reykholti. Síra Jónas var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Sigríður Jónsdóttir prests í Garði Sigurðssonar. Hún dó af barnsförum 1798. Þá kvæntist hann Þórdísi systur Sigríðar en missti hana af slysförum í Reykholti árið 1844. Hún dó af bruna eftir að hafa fallið í Snorralaug við þvotta. Síra Jónas var 67 ára gamall er hann kom að staðnum og studdist í embætti við son sinn síra Jónas, er kallaður var yngri til aðgreiningar frá föður sínum, en hann var capellán hjá honum. Þegar Jónas yngri dó úr lungnabólgu á undan föður sínum varð hann að láta af prestsskap árið 1852 og var eftir það hjá Sigríði dóttur sinni, en hún var síðari kona síra Vernharðs Þorkelssonar í Reykholti. Þar dó hann árið 1861, 88 ára gamall og alblindur. Síra Jónas var talinn skarpgáfaður og mælskur ræðumaður, en stórorður mjög og var honum lagt það til lýta. Hann hafði að ýmsu leyti verið mikill myndarmaður er hann kom í Reykholt, en var þá búinn að lifa sitt fegursta. Mikill trúmaður var hann, ljet í elli sinni leiða sig í kirkju daglega og baðst þar fyrir. Frá síra Jónasi er mikið afsprengi, en Þórður háyfirdómari var sonur hans, faðir Jónasar landlæknis og Þórðar prests í Reykholti.
Þórður Jónassen háyfirdómari og Kolbeinn hreppstjóri Árnason á Hofsstöðum í Hálsasveit, ásamt Magnúsi bónda Jónssyni á Vilmundarstöðum, settu Jónasi yngra legstein á gröf hans með eftirfarandi grafskrift:
Grafskrift síra Jónasar Jónassonar capelláns á legsteini
HÉR HVÍLIR VÆRT
HIN HARMDuuÐI JÓNAS
AÐSTOÐARPRESTUR
JÓNASARSON
FÆDDR 6. NÓV. 1808
VÍGDR 19 JÚLÍ 1840
DÁIN 11 NÓV 1851.
FINIR ÞÚ MAÐUR
EI TRIGÐ NÉ TRÚ RÉTTA
EI VIN SANAN
EI ÁST RÍKAN SON
VIT ÞÁ (…) AÐ SÁ
EINN? (….) HÉR BLUNDAR
Á (…) (I BRI)OSTI
ÖL (…) I BRIÓSTI.
Ó DAUÐI HVERSU
BEISKUR ERTU
(þan)ig settu frædda sinu
(…) létu rísta virta vini
Þórð Pr ÞÓrðS:
Kolbeirn Arna s. Magn”s Jón s.
Legsteinar þessir eru gjörðir af afkomendum síra Snorra Björnssonar á Húsafelli, Jakobi Snorrasyni og Gísla Jakobssyni. Eru þeir allmerkir, en mjög eyddir orðnir af veðrun.
Síra Vernharður Þorkelsson 1785-1863
Síra Vernharður Þorkelsson tók við staðnum eftir tengdaföður sinn. Hann var fæddur 17. júlí árið 1785, sonur síra Þorkels Guðnasonar á Stað í Hrútafirði og konu hans, Guðbjargar Vernharðsdóttur prests í Otradal Guðmundssonar. Hann var í Reykjavíkurskóla eldra, en varð stúdent úr Bessastaðaskóla árið 1808 með meðalvitnisburði. Bjó á hluta Staðar í skjóli föður síns, en fjekk Nes í Aðaldal 1817 og síðar Skinnastað 1825, Hítarnes 1836 og loks Reykholt 1852, en fluttist hingað ári síðar og var þá kominn um sjötugt. Mjög var hann lofaður fyrir mannkærleika lítillæti og ljúfmennsku. Um hann orti Sigurður Breiðfjörð:
Vernharð prest eg virða má
í vina flokkinn bjarta.
Hann hefur öðlast ofan frá
anda sinn og hjarta.
Hann var mesti reglumaður í fjármálum, reikningsglöggur, en rjettlátur. Vín þókti honum gott, en gætti hófs.
Síra Vernharður var talinn góður ræðumaður og ástsæll, starfsmaður mikill og framfaramaður, ljóðelskur og skáldmæltur. Í tíð hans var Snorralaug lagfærð. Því er meitlað í stein yfir innfallinu í laugina fangamark hans, V Th og ártalið 1858, en verkið vann Þorsteinn Jakobsson steinsmiður og bóndi Snorrason Björnssonar á Húsafelli.
Fyrri kona síra Vernharðs var Ragnheiður Einarsdóttir Sveinbjörnssonar í Svefneyjum. Með Ragnheiði átti hann Þorkel að Víðikeri, síra Einar á Stað í Grunnavík, Ástríði húsfreyju í Möðrudal, Guðbjörgu og Guðrúnu, húsfreyju í Svefneyjum og Soffíu, húsfreyju í Vogi. Síðari kona hans var Sigríður Jónasdóttir gamla í Reykholti.
Síra Vernharður sagði af sér prestsembætti 1862 og var eftir það í heimili hjá eftirmanni sínum, síra Jóni Þorvarðarsyni það ár sem hann átti eftir ólifað. Andaðist hann í Reykholti 26. júní 1863. Hann hafði látið smíða sér líkkistu og efna í líkklæði að sér lifanda. Gat hann í banalegunni mátað þau, sér til mikillar gleði og kvaddi glaður þennan heim.
Síra Jón Þorvarðarson 1826-1866
Síra Jón Þorvarðarson kom að staðnum árið 1862. Hann var fæddur 26. ágúst 1826 á Breiðabólsstað í Vesturhópi, sonur síra Þorvarðar Jónssonar, síðast á Prestbakka á Síðu og fyrstu konu hans, Önnu Skúladóttur stúdents að Stóru-Borg Skúlasonar, Húnvetningur að ætt. Hann var í Bessastaðaskóla, en varð stúdent úr Reykjavíkurskóla árið 1849 með 3. einkunn og lauk prófi frá Prestaskólanum 1851 með 1. einkunn. Hann fjekk Breiðavíkurþing 1852, en vígðist til Hvamms í Norðurárdal 1854 og fjekk Garða á Akranesi 1858 í skiptum við síra Benedikt Kristjánsson. Reykholt fjekk hann árið 1862 og hjelt til æviloka 6. nóvember 1866. Hann var prófastur Borgfirðinga frá 1859 til dánardags. Kona hans var Guðríður Skaftadóttir dannebrogsmanns, smáskammtalæknis í Söðlakoti í Reykjavík Skaftasonar og Guðnýjar Sigurðardóttur, konu hans. Börn þeirra, er upp komust, voru: Anna, er átti Sigurður hreppstjóri Ólafsson á Hellulandi, síra Skafti á Hvanneyri við Siglufjörð og Guðný, er átti Gunnar Ólafsson að Lóni.
Síra Jón var fríður sýnum, tæpur meðalmaður á hæð, en þjettur á velli. Rjóður í andliti og sljettur á vanga. Hafði jarpt skegg um kjálka, en rakaður um munn og höku. Hann var lítillátur og gestrisinn, glaðvær, barngóður og ör á fje, átti þó við fremur þröngan efnahag að búa. Voru þá ár erfið að ýmsu leyti. Vín þókti honum gott, en ekki var hann þó mikið kenndur við drykkjuslark, en sumum þókti orðalag hans höggva helzt til nærri broti á þeirri kurteisi, sem krefjast mátti af fyrirmyndarmanni. Prestur var hann talinn dágóður, en enginn jafnoki þeirra, sem snjallastir hafa verið taldir í Reykholti.
Síra Þórarinn Kristjánsson 1816-1883
Næstur tók staðinn síra Þórarinn Kristjánsson. Hann var Eyfirðingur að kyni, náfrændi Jónasar skálds Hallgrímssonar. Hann var fæddur 8. nóvember árið 1816 á Þönglabakka, sonur síra Kristjáns Þorsteinssonar, síðar á Völlum í Svarfaðardal, og fyrstu konu hans, Þorbjargar Þórarinsdóttur prests og skálds að Múla Jónssonar. Hann varð stúdent frá Bessastaðaskóla 1838. Vígður 1842 capellán föður sín, en fjekk Stað í Hrútafirði 1846, Prestbakka 1839 og Reykholt 1867. Prófastur Borgfirðinga 1867 til 1871. Hann sat þjóðfund fyrir Strandamenn 1851. Kristleifur Þorsteinsson lýsir honum svo: „Ekkert hlökkuðu söfnuðir Reykholts yfir komu hans. Fregnir bárust um hann að norðan. Var honum lýst þannig, að hann væri hinn mesti húsaseggur, stoltur og sjervitur. Þegar hingað kom reyndust fregnir þær ýktar, en ekki uppspuni. Síra Þórarinn var meðalmaður á hæð, grannvaxinn og ljettilegur. Magur í andliti og skegglaus. Svipur hans bar vott um alvöru og skarpar gáfur, en minna bar þar á lítillæti og mildi. Þó má vera, að þeirra hafi fundizt nokkur merki. Enginn búhöldur var hann talinn og í Reykholti fannst honum fátt um flest.
Ræðumaður þókti hann hinn prýðilegasti og skrifari af hreinustu list. Eftir fimm ára dvöl fór hann í Vatnsfjörð. Ýmsir söknuðu kirkjuverka hans og töldu hann meðal allra gáfuðustu presta, sem þeir mundu í Reykholti. En vínhneigð hans og ýmsir túrar slógu nokkrum skugga á þann ljóma, sem um hann var, að því undanskildu.
Reiðumaður var hann á embætti og fjárhald og var í því efni talinn fremri Reykholtsprestum þeim sem næstir honum voru bæði á undan og á eftir.“
Kona síra Þórarins var Ingibjörg Helgadóttir bónda, Alþingis- og dannebrogsmanns á Vogi á Mýrum Helgasonar og konu hans Ingibjargar Jónsdóttur capelláns í Hítarnesi Sigurðssonar. Börn þeirra voru: síra Kristján Eldjárn á Tjörn í Svarfaðardal, Helgi bóndi í Rauðanesi, Stefán gullsmiður á Akureyri, Ingibjörg, Sesselja og Þorbjörg.
Stuðzt hefur verið við frásagnir Kristleifs Þorsteinssonar bónda á Stóra-Kroppi, „Frá Reykholtsprestum“ úr hjeraðssögu hans um 19. aldar prestana. Eru mannlýsingar þeirra presta, sem hjer hefur verið fjallað um að mestu frá honum komnar. Mannlýsingar Kristleifs má telja til snilldarverka síðari alda bókmennta á íslenzku. Þáttur hans um síra Þórð Þórðarson Jónassen, má teljast til snjöllustu mannlýsinga fyrr og síðar. Er kaflinn um síra Þórð frá honum kominn óbreyttur.
Síra Þórður Þórðarson 1825-1884
„Eftir burtför Þórarins dróst um eitt ár koma hins næsta prests. Þjónaði þá Reykholtssókn séra Páll Jónsson á Hesti, en í Stóra-Ássókn séra Þorvaldur Jónsson frá Gilsbakka, er síðast var prestur á Ísafirði. Þá höfðu söfnuðir ekkert að segja með val prestsins. Þegar það kom í ljós, hver hnossið hlaut, var það Jörgen Kröyer prestur til Helgastaða, þá orðinn svo ellihrumur og örvasa, að fullyrt var, að hann kæmist ekki suður á annan hátt, en með því að flytjast á kviktrjám. Hlökkuðu menn lítið til þess að fá þvílíkan aðdrátt. En þá kom í ljós, hvar fiskur lá undir steini. Þórður Þórðarson prestur til Möðruvallasókna, sem þá bjó á Þrastarhóli, fékk samþykkt um brauðaskipti við Jörgen, sem varð þá jafnsnemma að segja af sér embætti. En vegna tölu embættisára töldu þeir honum vísari veitingu fyrir Reykholti, en Þórði.
Séra Þórður var sonur Þórðar yfirdómara í Reykjavík, Jónassonar hins gamla í Reykholti. Var hann hálfbróðir þeirra Jónasar landlæknis og Eggerts Theodórs sýslumanns í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu. Móðir séra Þórðar var Margrét Stefánsdóttir prests Einarssonar á Sauðanesi. Var hún alsystir Einars á Reynisstað, afa Einars skálds Benediktssonar. Séra Þórður var meðalmaður á hæð, en þrekinn mjög og með mikla ístru. Hann var hrafnsvartur á hár og skegg, sem var mikið og órakað. Dökkur var hann í andliti, og var það nokkuð þrútið. Augun voru stór og dökk og allur var hann svipmikill. Virðist mér auðsætt ættarmót á þeim frændum, Einari Benediktssyni og séra Þórði. Hann var þýður í viðmóti og nokkuð mjúkmáll og sýndi hið mesta lítillæti í allri framkomu. Hann var reiðmaður og lét sér mjög vænt um hesta sína, sem voru prýðisfallegir, að öðru leyti lét hann sér ekki umhugað um veraldarmuni. Var hann athugalítill um fjármál sín og hirti ekki um innheimtu lögákveðinna gjalda. Gaf hann fátækum oft öll gjöld, er þeir áttu að borga honum, en þeir efnaðri guldu honum eitthvað eftir áætlun, sem ekki var ætíð nákvæm. Af kirkjuverkunum varð hann frægari en af fjármálum. Var það almannarómur, að sem prestur bæri hann höfuð og herðar yfir embættisbræður sína hér í Borgarfirði. Á sumrum var kirkja svo vel sótt í hans tíð, að mikill fjöldi varð að standa úti, auk þess, sem í kirkjuna tróðst. Var það oft utan fyrir Skarðsheiði og vestan úr Mýrasýslu. Var sem allt hjálpaðist að, til þess að vekja hjá honum þessa miklu eftirtekt: Vel samdar ræður, sterk og drynjandi rödd, bæði í lestri, söng og tóni, og eldmóður í framburði. Börn spurði hann í messunni, jafnt sumar sem vetur, frá 1-16 ára aldurs. Röðuðu þau sér til beggja handa fyrir framan sætin í framkirkjunni, gekk hann þar fram á milli þeirra og lét hvert barn lesa greinar úr kveri eða biblíusögum. Undu börnin þessu vel og urðu ófeimin, en flestum þeim sextán ára gömlu mun samt hafa þótt góð lausnin. Gaf hann hverju barni til kynna, hvenær hann leysti það frá spurningum. Gerði hann það með langri skilnaðarræðu. Alla miðvikudaga í sjöviknaföstu messaði hann í Reykholti, en mánudaga á Stóra-Ási. Kom hann alltaf á messum, væri veður ekki ófært.
Hið mikla álit á prestsverkum séra Þórðar var víðar en hér um Borgarfjörð. Þegar Pétur Hafstein lést vorið 1875, hafði hann óskað þess fyrir dauða sinn, að séra Þórður syngi yfir sér látnum, og var hann sóttur suður að Reykholti til þeirra verka. Ánafnaði Hafstein honum uppáhaldsreiðhesti sínum, brúnkúfóttum að lit, fyrir ómakið. Sömuleiðis hafði séra Páll Jónsson í Viðvík, sálmaskáld, verið búinn að kjósa séra Þórð til þess að syngja yfir sér. En séra Páll lifði lengur, svo það kom ekki til með það. Þess minnist eg líka, að eitt sinn er eg var við Reykholtskirkju, að sumarlagi, var ein nafnkenndasta konan úr Saurbæjarsókn, Guðný Andrésdóttir á Draghálsi, lesin í kirkju í Reykholti. Hefur henni víst þótt virðulegra að velja séra Þórð til þess, heldur en sóknarprestinn sinn, séra Þorvald Böðvarsson. Þrátt fyrir hið mikla álit, sem séra Þórður hafði fyrir hin skörulegu prestverk sín, voru þó taldar veilur í fari hans utan kirkju. Hann þótti kríta nokkuð liðugt í frásögnum og ofnautn víns rýrði bæði efni hans og álit.
Kona séra Þórðar var Margrét Ólafsdóttir, læknis Stefánssonar, amtmanns Þórarinssonar. Nokkrum árum áður en hann flutti að Reykholti, missti hann konu sína og dóttur (Steinunni Margréti) sama vorið. Átti hann þá einn son eftir, Jónas (Tryggva) að nafni; dó hann ári síðar, þá kominn á Latínuskólann í Reykjavík. Greru þau sár aldrei til fulls. Bæði börn séra Þórðar dóu á 17. aldursári.
Á útmánuðum 1873 varð séra Þórður fyrir því slysi, er hann var á ferðalagi, ásamt fylgdarmanni, að súpa á flösku, er í var óhreinsuð karbólsýra, en hann hugði vín vera. Hafði fylgdarmaðurinn í tösku sinni tvær flöskur, aðra með víni, en hina með karbólsýru, en af gáleysi villtist hann á þeim, er til átti að taka. Skeði þetta á heimleið frá Síðumúla. Kom fylgdarmaður presti heim að Skáney aðframkomnum. Liðu áhrif eitursins nokkuð frá eftir mikil uppköst og hresstist prestur nokkuð við, en tók aldrei á heilum sér frá þeirri stundu. Messaði þó hvern sunnudag allt sumarið. Um veturnætur 1883 messaði hann síðast í Stóra-Ási. Voru þá hans miklu kraftar að þrotum komnir. Kvaddi hann þá söfnuðinn með fyrirbænum og tárum og sagðist vænta þess, að þetta væri sín síðasta messa. Fipaðist honum þá lítið eitt í hinum viðteknu siðvenjum, enda sagðist hann þá hvorki hafa vitað í þennan heim né annan, um messuna. Spá hans rættist. Þróttur hans hnignaði af blæðandi magasári eftir verkanir eitursins. Lézt hann í janúar 1884. Ekki var fjölmenni við jarðarför séra Þórðar. Þá voru harðindi mikil og fannkoma. Villtust menn, er heim var haldið um kvöldið, en varð þó slysalaust. Við greftrun hans fluttu ræður séra Janus á Hesti og séra Eiríkur á Lundi, síðast prestur á Stað í Hrútafirði. Steingrímur Thorsteinsson gerði erfiljóð eftir sinn mikla vin. Meðal annars voru þessi snjöllu erindi:
Stríðir nú ei lengur, hinn sterki maður
vopnaður þreki mót vetrar byljum,
yfir klaka og fönn, til kirkjustarfa,
ótrauður ástverka, − nú er öllu lokið.
Og ei á lífsins eyðisöndum
veður hann örlaga elfar kvíslir.
Eftir var sú hinzta, er óskelfdur
greip hann sundið yfir grafar móðu.“
Síra Þórhallur Bjarnarson 1855-1916
Síra Þórhalli Bjarnarsyni var veitt Reykholt árið 1884. Hann var sonur síra Björns Halldórssonar skálds í Laufási og konu hans, Sigríðar Einarsdóttur í Saltvík á Tjörnesi Jónassonar.
Hann varð stúdent frá Reykjavíkurskóla 1887 með 1. einkunn, las á Kaupmannahafnarháskóla 1878 til 1883. Tók hann próf í heimspeki með 2. einkunn, í kirkjufeðrafræði og í guðfræði, í hvoru tveggja með 1. einkunn. Vígðist í Reykholt árið 1884 og var skipaður prófastur sama ár. Hann hafði brauðaskipti við síra Guðmund Helgason á Akureyri, en fjekk skömmu síðar kennaraembætti við Prestaskólann og flutti suður þar sem hann gegndi einnig prestsembætti við Dómkirkjuna um eins árs skeið. Gegndi hann lektorsstöðu við Prestaskólann frá 1894 unz hann tók við embætti biskups yfir Íslandi árið 1908. Síra Þórhallur var dannebrogsmaður, prófessor að nafnbót, alþingismaður Borgfirðinga 1894-1899, formaður Búnaðarfélags Íslands 1900-1907, ritstjóri Kirkjublaðsins 1891-1897 og Nýs Kirkjublaðs 1906-1916. Hann þýddi og ritaði fjölda bóka.
Kvæntur var hann Valgerði Jónsdóttur hreppstjóra á Bjarnastöðum í Bárðardal Halldórssonar, fósturdóttur Tryggva bankastjóra Gunnarssonar. Elzti sonur þeirra var síra Tryggvi á Hesti, síðar bankastjóri og forsætisráðherra, formaður Framsóknarflokksins, en báðir voru þeir feðgar hinir mestu hugsjónarmenn um búskaparframfarir og bændahag auk þess sem síra Tryggvi var í fremstu röð guðfræðinga og kirkjusagnfræðingur. Ríkisstjórn Íslands keypti bókasafn þeirra feðga af erfingjum Tryggva og ráðstafaði í Reykholt, þar sem það síðar myndaði stofn að bókasafni Snorrastofu.
Börn þeirra voru: Svava er giftist Halldóri Vilhjálmssyni skólastjóra Bændaskólans á Hvanneyri. Björn, dó í Noregi, en Dóra átti Ásgeir Ásgeirsson bankastjóra, alþingismann og síðast forseta Íslands.
Þórhallur Bjarnarson má teljast einn helzti hugmyndafræðingur Þjóðkirkju Íslands. Hann festi prestastefnuna í sessi sem allsherjar synodus presta landsins þar sem þessir leiðtogar safnaðanna komu saman á hinum forna þingtíma, biskupi til ráðuneytis um brýn málefni kirkjunnar á hverri tíð. Synodus eða prestastefna á sér langa sögu, sem rekja má aftur til 12. aldar. Framan af virðast þær koma saman eftir efnum og ástæðum, en fjölgaði á síðmiðöldum og var yfirleitt stefnt saman á Þingvelli í tengslum við alþingishald fyrir bæði biskupsdæmin og voru þá nefndar synodus generalis, eða almennar prestastefnur. Prestastefnum var oft stefnt saman fyrir hvort biskupsdæmi fyrir sig eða á héraðsvettvangi og var þá nefnd synodus partialis. Það mun hafa verið Brynjólfur Sveinsson 1605-1675 sem festi synodus generalis fyrir Skálholtsstipti við Alþingissamkomur. Þannig hjelzt þetta til 1798 en 1799 fluttust þær til Reykjavíkur með öðru. Helgi biskup Thordersen vildi efla prestastefnuna um miðja 19. öld en varð lítið ágengt. Upp úr 1890 efldist hún nokkuð undir forystu herra Hallgríms Sveinssonar. Framfara- og frelsisandi aldarfarsins réði mestu um þetta ásamt áhrifum frá Vesturheimi, en herra Þórhallur efldi stefnuna markvisst á forsendu ríkrar vitundar um hlutverk hennar og hefð um aldirnar. Var prestastefnan í þessu fari fram undir lok 20. aldar, er hún var dregin fram á vetur og hefur oftast verið kölluð saman á útmánuðum uppá síðkastið.
Síra Guðmundur Helgason 1853-1922
Síra Guðmundur Helgason kom að staðnum með brauðaskiptum við síra Þórhall Bjarnarson. Kom hann að staðnum um vorið árið 1885.
Síra Guðmundur var sonur Helga bónda Magnússonar í Birtingaholti og konu hans Guðrúnar Guðmundsdóttur, fæddur 3. september 1853. Stúdent úr Lærða skólanum 1874 með 1. einkunn þrátt fyrir frátafir vegna brjóstveiki. 1876 lauk hann Prestaskólanum, einnig með 1. einkunn. Vígðist 1876 capellán síra Daníels Halldórssonar á Hrafnagili, en varð að láta af prestsskap vegna veikinda sinna. Hann fjekk Akureyri árið 1881, en var áður millibilsprestur í Odda á Rangárvöllum um árs skeið. Síra Guðmundur kom að Reykholti árið 1885, varð sama ár prófastur Borgfirðinga og gegndi því til 1896. Hann tók við formennsku Búnaðarfélags Íslands af síra Þórhalli árið 1907 og gegndi því til 1917, er hann var kjörinn heiðursfjelagi þess, enda var hann mikill áhugamaður um búskap og framfarir. Hann sat í amtsráði Suðuramtsins og var um tíma gæzlustjóri Landsbanka Íslands. Síra Guðmundur beitti sjer mjög að framförum landsins, einkum í búskap og að ræktun lands og lýðs. Kona síra Guðmundar Helgasonar var Þóra Ágústa Ásmundsdóttir prests í Odda. Börn þeirra voru: Guðrún, starfsmaður Ríkisútvarpsins, Laufey, síra Ásmundur prófessor, síðar biskup yfir Íslandi, Helgi bankastjóri Útvegsbanka og Guðmundur skrifstofustjóri Sjóvátryggingarfjelags Íslands.
Síra Guðmundur var „fluggáfaður og höfðingi í sjón og raun. Glaður og reifur og hinn veglátasti maður. Hann var hér 23 ár, og var sem að heimurinn hossaði honum á allar lundir lengst af þeim tíma. Góður fjárhagur, efnileg börn og velgefin á allan hátt og óskipt mannhylli, allt þetta hlotnaðist honum hér. Alla tíð var hann hér bæði í hreppsnefnd og sýslunefnd, og svo var hann ráðsnjall og tillögugóður, að enginn fór þar yfir,“ segir Kristleifur Þorsteinsson um veru hans í Reykholti í þætti sínum um Reykholtspresta. Mjög samtíða honum var síra Magnús Andrésson prestur á Gilsbakka, einn merkasti prestur sinnar tíðar fyrir lærdóms og röskleika sakir. Voru þeir frændur báðir miklir framfaramenn á þeirrar tíðar vísu og afskiptasamir. Víst er að síra Guðmundur tók af þá fornlegu brúðkaupssiði, sem lengi höfðu tíðkast í Reykholtsdal og nágrenni, og mjög höfðu festzt í sessi eftir brúðkaup Eggerts Ólafssonar og frú Ingibjargar. Þókti honum ungir menn reisa sér hurðarás um öxl í upphafi búskapar með þeim mikla kostnaði, sem þessum brúðkaupum fylgdi, og ekki síður vegna þess, að drykkjur voru þar hafðar mönnum til gamans, en síra Guðmundur mun hafa verið hinn mesti bindindismaður og raunar þeir báðir frændurnir, hann og síra Magnús Andrésson á Gilsbakka. Síra Guðmundur missti konu sína eftir þungbær veikindi um miðjan fyrsta áratug aldarinnar og átti sjálfur við veikindi að stríða. Sagði hann af sér embætti og flutti til Reykjavíkur árið 1908 og dó þar 1. júní árið 1922.
Þórhallur Bjarnarson og Guðmundur Helgason voru tímamótamenn á Reykholtsstað. Vegna þess hversu skamman tíma síra Þórhallur hélt staðinn varð umbyltingin og framfarirnar hjá eftirmanni hans, en báðir voru þeir miklir framtaksmenn. Í tíð síra Guðmundar tók söfnuðurinn við ljenskirkjunni í Reykholti. Reist hafði verið ný timburkirkja á staðnum, er enn stendur, vígð árið 1887. Var hún ekki byggð á hinu forna kirkjustæði í sunnanverðum kirkjugarði, heldur norðan garðsins, sem stækkaður var, svo kirkjan stóð sem næst í miðjum garðinum. Bærinn í Reykholti var einnig endurbyggður í burstabæjarstíl, og hafði þrjár reisulegar burstir á móti vestri, en undir fjórðu burstinni nyrzt var skemma. Sunnar á bæjarhólnum stóð matsuðuhús og var gufan úr Skriflu notuð til matsuðunnar. Í Guðmundar tíð lagðist Grallarinn af í Reykholtskirkju, en „danski“ stíllinn var upp tekinn. Dönsku lögin höfðu farið að tíðkast upp úr 1870 og stóðu átök um sönginn allan þann áratug. Höltruðu sumir á milli hinna gömlu og nýju laga og varð söngurinn þá óáheyrilegur í mesta máta. Síra Þórður Þórðarson hafði verið afburða söngmaður á gamla stílinn. Höfðu og verið miklir söngmenn í sókninni alla 19. öld og skipuðu sæti sín í kór gömlu kirknanna með vegsemd og prýði við sönginn. Gengu kórsætin í erfðir á milli kynslóða enda lögðu menn kapp á að skipa bekkinn í samræmi við vegsemdina, sem fylgdi því að halda uppi söng úr kór með prestinum. Átökin um söngstílinn vörðuðu því einnig hefðbundna þjóðfélagsstöðu kórbændanna, sem birtist í því hvar þeir skipuðu sæti í kirkjunni; hreppstjóri og meðhjálpari við altarishorn og út frá þeim betri bændur. Þjóðfrelsisbaráttu aldarinnar fylgdu nýjar hugmyndir, i.a. um jafnræði manna. Varla mun það vera tilviljun í þessu samhengi, að kirkjan, sem reist var árið 1883, hefur lítinn og þröngan kór, sem varla rúmar fleira en altarið og umbúnað þess. Öll hefðbundin sætaskipan riðlaðist, þegar kórbændurnir fluttust fram í kirkjuna. Endanlega hrósaði nýskipanin sigri með komu harmoníums í kirkjuna árið 1901. Umhugsunarvert hlýtur það þó að teljast, að gömlum, innlendum söngarfi kirkjunnar var fleygt um leið og krafizt var uppreistar frelsis lands og þjóðar á forsendu fornrar, innlendrar þjóðmenningar og hefða.
Prestar á tuttugustu öld
Síra Einar Pálsson 1868-1951
Síra Einar Pálsson kom að staðnum vorið 1908. Hann var fæddur 24. júlí árið 1868, sonur Páls Jónssonar bónda á Glúmsstöðum í Fljótsdal og seinni konu hans, Hróðnýjar Einarsdóttur frá Brú á Jökuldal Einarssonar. Hann var stúdent frá Lærða skólanum 1890 með 1. einkunn og lauk Prestaskólanum, einnig með 1. einkunn árið 1892. Vígðist til Háls í Fnjóskadal vorið 1893, fékk Gaulverjabæ 1903 og Reykholt vorið 1908. Kona hans var Jóhanna Katrín Kristjana Eggertsdóttir Briem sýslumanns Skagfirðinga á Reynistað og konu hans, Ingibjargar Eiríksdóttur sýslumanns í Kollabæ Sverrissonar.
Börn þeirra voru: Eggert Ólafur læknir í Borgarnesi, kvæntur Magneu Jónsdóttur. Ingibjörg, kona Eyjólfs listmálara Eyfells í Reykjavík, Gunnlaugur Briem guðfræðingur sem dó ungur, Hróðný Svanbjörg, átti Árna B. Björnsson gullsmið í Reykjavík og Valgerður húsfreyja Stefáns Ólafssonar bónda í Kalmanstungu, Páll Björn framkvæmdastjóri í Reykjavík, kvæntur Gyðu Sigurðardóttur og Vilhjálmur, bóndi á Laugabökkum í Árnessýslu, kvæntur Jórunni Guðmundsdóttur.
Síra Einari var veitt lausn frá embætti vorið 1930 og fluttist til Reykjavíkur þar sem hann var framkvæmdastjóri Söfnunarsjóðs Íslands. Hann dó í Reykjavík 27. janúar 1951.
Börn síra Einars og frú Jóhönnu efndu í minningu veru þeirra á staðnum árið 1947 til þeirrar trjáræktar, sem prýðir hlíðina ofan við staðinn, og byrjuðu hana við Eggertsflöt. Þar hafði Eggert Ólafsson tjaldað búðir sínar, er hann hélt brúðkaup sitt í Reykholti haustið 1767. Skógrækt ríkisins kom að þessari ræktun á tímabili og hefur nú Skógræktarfjelag Borgarfjarðar tekið við henni og stendur til að efla hana mjög á næstunni, staðnum til skjólsældar og prýði.
Í tíð síra Einars varð sú breyting á Reykholtsprestakalli, að prestssetur á Gilsbakka var lagt niður. Með lögum nr. 16/1907 urðu Gilsbakka- og Síðumúlakirkjur annexíur frá Reykholti, en breytingin tók gildi, er síra Magnús Andrésson á Gilsbakka ljet af embætti árið 1918.
Síra Einar Guðnason 1903-1976
Síra Einar Guðnason kom að staðnum vorið 1930 og fjekk veitingu fyrir honum árið 1931. Hann var fæddur á Óspaksstöðum í Hrútafirði 19. júlí árið 1903, sonur Guðna Einarssonar bónda og oddvita þar Guðnasonar og konu hans, Guðrúnar Jónsdóttur frá Saursstöðum í Dalasýslu Jónssonar. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík utanskóla árið 1924 með 2. einkunn og cand. theol. frá Háskóla Íslands vorið 1929 með 1. einkunn. Frá 1966-1972 var hann prófastur Borgarfjarðarprófastsdæmis. Hann var jafnframt kennari við Hjeraðsskólann í Reykholti frá 1931-1964 og prófdómari við skólann 1930-1964. Ýmsum trúnaðarstörfum gegndi hann: Var formaður skólanefndar Kleppjárnsreykjaskólahéraðs frá 1930-1950, formaður fræðsluráðs Borgarfjarðarsýslu frá 1950 um mörg ár, formaður skólanefndar Hjeraðsskólans 1965-1973. Var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslenzku fálkaorðu 1972.
Störf síra Einars auk prestsþjónustunnar helguðust mjög af kennslu- og fræðsluáhuga hans. Hann var fjölfróður mjög, einkar sögufróður. Kona síra Einars var frú Steinunn Anna Bjarnadóttir cand. phil, dóttir dr. phil. Bjarna Sæmundssonar fiskifræðings og konu hans, Steinunnar Önnu Mettu Sveinsdóttur. Bæði kenndu þau hjónin við Hjeraðsskólann í Reykholti.
Börn þeirra eru: Bjarni viðskiptafræðingur, kvæntur Guðrúnu Gíslínu Friðbjörnsdóttur, Kristín og Kristín Guðný, sem dóu í frumbernsku, Steinunn Anna cand. mag. menntaskólakennari, gift Heimi Pálssyni sagnfræðingi. Guðmundur forstjóri Heilsugæzlunnar í Reykjavík, kvæntur Dóru Sigurðardóttur hjúkrunarfræðingi. Síra Einar fjekk lausn frá embætti haustið 1972, fluttist til Reykjavíkur og dó þar 14. janúar 1976.
Síra Jóhannes Pálmason 1914-1978
Kom þá að staðnum síra Jóhannes Pálmason. Hann var fæddur í Kálfagerði í Eyjafirði þann 10. janúar árið 1914, sonur Pálma Jóhannessonar bónda Ólafssonar þar og konu hans, Kristínar skáldkonu Sigfúsdóttur Hanssonar. Stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri, utanskóla 1936 með 2. einkunn og cand. theol. frá Háskóla Íslands í ársbyrjun 1942 með 1. einkunn. Vígðist til Staðar í Súgandafirði vorið 1942, prófastur í Vestur-Ísafjarðarsýslu 1963-1966. Hann kom að staðnum í Reykholti haustið 1972. Síra Jóhannes gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum vestra, þar sem lengst af var starfsvettvangur hans og var víða í forystu, en eftir að hann kom í Reykholt sinnti hann mest rannsóknum sínum á sálmum, en hann var afar fróður um sálmakveðskap og sálmasögu auk þess sem hann var vel að sjer um tónlist. Hann sat í skólanefnd Hjeraðsskólans í Reykholti og í úthlutunarnefnd listamannalauna. Hann missti heilsuna í Reykholti og ljezt í Reykjavík þann 28. maí árið 1978, en hafði fengið lausn frá embætti ári áður. Kona hans er frú Aðalheiður Margrét Snorradóttir útgerðarmanns Þórðarsonar í Vestmannaeyjum og konu hans, Þorgerðar Jónsdóttur: Börn þeirra eru Snorri Þór, kennari, nú látinn, kvæntur Sigríði Bjarnadóttur kennara, Kristín sem dó ung, Sigrún, kennari, kona Jóns Sigurðssonar hagfræðings, Pálmi Hannes skrifstofustjóri, kvæntur Soffíu Birgisdóttur Kjaran skrifstofustjóra, Sigurður rafeindavirki í Reykjavík. Maki hans er Halla Hafdís Guðmundsdóttir skrifstofumaður.
Síra Hjalti Hugason 1952-
Þá kom að staðnum síra Hjalti Hugason dr. theol. Hann er fæddur 4. febrúar 1952 á Akureyri, sonur Huga Kristinssonar verzlunarmanns Tryggvasonar Jónssonar á Strjúgsá og Ytra-Dalsgerði í Eyjafirði og konu hans, Rósu Hjaltadóttur húsfreyju Sigurðssonar húsgagnasmiðs á Akureyri.
Síra Hjalti varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1972 með 1. einkunn, cand. theol. frá Háskóla Íslands 1977, einnig með 1. einkunn. Vígður að Reykholti haustið 1977. Síra Hjalti gegndi prestakallinu einungis í eitt ár, en varð kennari við guðfræðideild Háskóla Íslands og varð síðar prófessor í kirkjusögu. Hann hefur ritað mikið um kirkjusögu. Kona hans er frú Ragnheiður Sverrisdóttir djákni, B.A., dóttir Sverris Inga Axelssonar vélstjóra og konu hans, Ásu Oddrúnar Þorsteinsdóttur húsfreyju. Börn þeirra eru: Hugrún Ragnheiðar og Markús Ragnheiðar.
Síra Geir G. Waage 1950-
Kom þá að staðnum síra Geir Garðarsson Waage haustið 1978. Hann er fæddur á Hrafnseyri við Arnarfjörð þann 10. desember árið 1950, kjörsonur Garðars Bernhards Jónssonar Waage, Magnússonar Guðmundssonar frá Litla-Kroppi í Reykholtssókn og konu hans, Jakobínu Jónsdóttur Árnasonar Kristjánssonar frá Borg í Arnarfirði. Stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1971 með 1. einkunn, cand. theol. frá Háskóla Íslands árið 1978, einnig með 1. einkunn. Hann stundaði kennslu meðfram námi og tók þátt í ýmsum félagsstörfum á námsárunum svo sem í stjórn Stúdentafélags Háskóla Íslands. Var vígður til staðarins í Reykholti 19. nóvember 1978.
Síra Geir hefur setið í stjórnum ýmissa kirkjulegra fjelaga, svo sem Hins íslenzka Lúthersfjelags 1981-1984, Ísleifsreglunnar frá 1983, Hallgrímsdeild PÍ, stjórn Prestafjelags Íslands 1981-1987 og aftur sem formaður þess 1992-1998. Sat á Kirkjuþingi 1995-1997 og 1998-2001, og 2014-. Hann hefur gegnt ýmsum nefndarstörfum á vegum Þjóðkirkjunnar, var formaður löggjafarnefndar Kirkjuþings 1998-2001 og sat í nefndum til undirbúnings laga um þjóðkirkjulög 62/1990 og lög 78/1997. Í stjórn Norræna hússins í Reykjavík, Hjeraðsskjalasafns Borgarfjarðar, Dvalarheimilis aldraðra í Borgarnesi, skólanefnd Hjeraðsskólans í Reykholti og var síðasti formaður hennar, unz Hjeraðsskólinn var af lagður. Sat í skólanefnd Kleppjárnsreykjaskólahverfis. Kona hans er Dagný Emilsdóttir B.A., dóttir Carls Emils Ole Möller Jónssonar verzlunarmanns í Reykjavík og konu hans, Hrefnu Ólafsdóttur húsfreyju Sigurðssonar steinsmiðs frá Neistakoti á Eyrarbakka. Börn þeirra eru Heiðrún, Gunnhildur, og Bryndís Geirsdætur og Ásgeir Geirsson.
Búskaparumsvif
Búskaparumsvif á staðnum
Í Reykjaholtsmáldaga eru talin upp gögn og gæði staðarins á 12. og 13. öld.
Kirkjan á heima land með öllum lands nytjum, tuttugu kýr, tvævetran griðung og 150 ásauði. Athygli vert er, að hross eru ótalin, en hljóta að hafa verið einhver, þótt vísast hafi hestnytjar staðarins getað verið kvaðir á öðrum.
Utan heimalands á kirkjan laxveiði í Grímsá: Hlaupagarð allan og þrjá hluta árinnar fyrir norðan Miðberg að fjórðungi frátöldum, fjórðung Hörgshyljar að sjöttungi frádregnum og ástemmu að Reyðarvatns ósi. Hún á selför í Kjör og hálfa áveiði og skógartekju í Þverárhlíð að viða til sels. Geitland með skógi. Orðalagið bendir til þess, að aðrir hafi ekki átt þar nytjar, en ásókn í skógarítök virðist þegar hafin. Skógur í Sanddal í Norðurárdal er talinn. Sálds sæði niður fært og torfskurður í Steindórsstaða jörð. Akurland þetta þetta væri varla talið hefði það verið á heimastaðnum. Trúlega er það kvöð er liggur á öðrum. Er það talið strax eftir torfskurðinum á Steindórsstöðum og gæti hafa verið þar. Hefði þá Steindórstaða mönnum verið ætlað að erja landið og sá sáldi, sem er um það bil 40 lítrar af útsæði, líklega byggi. Ítak þetta virðist hafa horfið, eða að öllu leyti breyzt í torfskurðarítak fyrir 1400. Má ætla, að hin miklu byggingarumsvif um aldir í Reykholti hafi tekið til sín mikið torf, sem marka má af jarðvegsþykknun heima á staðnum, en dýpi niður á gólf elztu kirkjunnar er á þriðja metra af núverandi jarðvegsyfirborði. Ítaki þessu í Steindórsstaðalandi var fyrst mótmælt við afhendingu staðarins árið 1908. Afréttur á Hrútafjarðarheiði er enn þinglýst eign kirkjunnar. Nýtur hún jafnframt enn 5/8 hluta Laxfoss í Grímsá. Þrjár jarðir á kirkjan samkvæmt máldaganum: Hið forna höfuðból Breiðabólsstaði, er staðurinn byggðist úr, Hægindi sunnan Reykjadalsár og Reykjaland, sem að öllum líkindum eru Kópa-Reykir, en löndin liggja saman.
Ekki er víst, að áhöfn þessi gefi allar upplýsingar um heildarumsvif staðarins. Gæti fleira kvikfé hafa verið alið annars staðar, en þetta, sem upp talið er, en það hafa verið á kirkjujörðunum Breiðabólsstöðum, Hægindi og Kópa-Reykjum, sem allar liggja að heimastaðnum og taldar eru eignarlönd í máldaganum. Gæti það líka skýrt það, að hross eru ekki talin í Reykjaholtsmáldaga.
Rekaskrá Reykholts er að finna í yngstu viðbót við gamla máldagann og er talin frá því um 1300. Rekar eru taldir: Undir Felli ytra, þriðjungur hvalreka og hálfur viðreki og land hálft. Undir Innra-Felli þriðjungur hvalreka og líkt í ágóða sem undir Ytra-Felli, þriðjungur hvort tveggja í ágóða. Á Munaðarnesi fjórðungur hvalreka. Að Kambi fjórðungur í hvalreka. Í Byrgisvík fjórðungur í hvalreka.Allar þessar eignir eru í Árneshreppi á Ströndum. Oftast virðast þær hafa verið leigðar nærlendum mönnum, en þó sér þess staði, að þær hafi skilað afurðum heim á staðinn. Eru nefndir „strandasáir stórir“ í úttektinni frá 1392 auk þess, sem að minnsta kosti einn klerkur á staðnum byggði kirkju af rekaviði af Ströndum. Var það síra Ólafur Gilsson, í Reykholti á árunum 1518-1536. Skógarítökin gáfu raftvið til staðarins og kirkjujarðanna auk seljanna og viða til kolagerðar. Ekki er vitað hvenær skógur eyddist í eignarlandi staðarins í Geitlandi, en skógur í Sanddal er talinn gjöreyddur snemma á 18. öld. Skógur í Þverárhlíð var nýttur fram eftir 19. öld.
Áveiðar voru staðnum mikil búbót um aldir, einkum Grímsárveiðar.
Ítarleg athugun hefur verið gerð á umsvifum staðarins í Reykholti um aldirnar. Þar kemur fram, að engin heildstæð gögn eru til frá síðmiðöldum um fjölda búfjár í landinu. Slíkt yfirlit kemur fyrst til í byrjun 18. aldar. Máldagar, afhendingar- og virðingargjörðir gefa yfirlit yfir þessi umsvif í Reykholti. Árið 1358 eru 20 kýr, einn griðungur, 70 ær og 12 veturgamlir sauðir á staðnum. Er það í samræmi við ákvæði Wilkinsmáldaga um það, hvað vera skuli, en þar er tekið fram, að fimm kýr séu fram yfir það, sem forn máldagi segir. Flestar verða kýr árið 1394, eða 28 talsins, ær eru 72 og sauðir 12, einn griðungur er haldinn. Árið 1478 telst áhöfnin vera: 20 kýr, ærnar 105 og sauðirnir 24. Helzt svo svipað um langa hríð. Eftir siðbót fækkar mjög búfé í landinu, einnig á Reykholtsstað. Árið 1503 eru þar taldar 11 kýr, 84 ær og tólf sauðir. Á 17. og 18. öld virðist enn allvel búið í Reykholti og er þá miðað við framtal prestanna til tíundar. Í upphafi 18. aldar telur Páll Vídalín að staðurinn geti borið 15 kýr og 50 ær, sem eru um 23 málnytukúgildi. Um miðja 19. öld er talið, að hann framfleyti 4-5 kúm og 100-200 sauðfjár, eða 12-21 málnytukúgildi. Stórbú virðist hafa verið rekið út allar miðaldir og fram á 19. öld. Eru heimildir ríkulegar um þessi umsvif í skjölum Reykhyltinganna. Um og eftir Móðuharðindi dró úr umsvifunum og megináherzlan var á sauðfjárbúskap á 19. öld. Menn hafa getið sér þess til, að við gömlu búhættina hafi kýr mjólkað um eitt þúsund til ellefu hundruð potta á ári en ær um fjörtíu til fimmtíu.
Talið er, að mjólkurbúskapur hafi verið meginviðfangsefni búskapar í Reykholti á fyrri öldum og raunar fram undir miðja 19. öld. Voru umsvifin miklu meiri en heimastaðurinn sjálfur gat borið, enda mun búsmali hafa verið hirtur á jörðum þeim er kirkjan átti, en hafður í seljum á sumrum. Beitilöndin skiptu þar sköpum. Þessir búhættir miðaldanna voru viðhafðir lengur í Reykholti, en víðast hvar annars staðar á Íslandi.
Allnokkrar tekjur hafði staðurinn á miðöldum af þjónustu við annexíur sínar, sem að mestu gengu til þurrðar upp úr siðbót.Auk þess, sem staðnum efnaðist af búrekstri og nytjum ítaka, hafði hann lausafjártíund, fasteignatíund, ljóstoll og legkaup að tekjulindum, eins og aðrir staðir. Fór að aldarhætti um tekjur þessar.
Í viðbót Reykjaholtsmáldagans, þeirri sem talin er frá því um 1206 er Snorri kom að staðnum, eru taldar jarðeignir staðarins, Breiðabólsstaðir, Reykjaland og Hægindi. Sá sem í Reykholti búi skuli annast Háfsland og tvö kúgildi búfjár með. Því fé skuli fylgja kvengildur ómagi hver misseri. Líklegt er talið, að jarðeign þessi sé upphaflega í heimanfylgju staðar í Reykholti. Ytra-Fell á Ströndum er talið í rekaskránni frá því um 1300. Þegar Gyrðir byskup Ívarsson visiterar árið 1358 hefur staðnum bætzt Kjalvararstaðir og Hrísar hálfir. Eru þessar jarðir taldar í Wilkinsmáldaga. Í skránni um eignir kirkjunnar, sem gerð var þegar Einar bóndi Ormsson afhenti síra Hrafni Gilssyni staðinn árið 1463, eru í byggð eftirtaldar kirkjunnar jarðir: Hofsstaðir með 5 kúgildum, Norður-Reykir með 9 kúgildum, Breiðabólsstaðir með 5 kúgildum, Grímsstaðir með 5 kúgildum og Kópa-Reykir með 6 kúgildum, en Kjalvararstaðir og Hraunsás voru það ár í eyði. Þar sem ekki er minnst á Háf, Hægindi, Hrísa og Ytra-Fell má gera ráð fyrir því, að þær hafi einnig legið í eyði um þær mundir. Hofsstaðir, Hraunás og Hrísar hafa því bætzt við jarðeignir staðarins sé Reykjaland það, sem getið er um í hinum forna máldaga, Kópa-Reykir. Staðurinn í Reykholti safnaði jarðeignum stöðugt út allar miðaldir. Var hann eftirsótt brauð, enda haldinn af umsvifa- og aðstöðuklerkum. Brauðamatið frá 1854 telur tekjur staðarins vera rúmlega 420 ríkisdali, sem et talsvert yfir meðallagi sem var 286 ríkisdalir, en beztu brauðin gáfu þá meira en 640 ríkisdali og að meðaltali 741 ríkisdal.
Með lögum nr. 46/ 1907 breyttust starfskjör presta þannig, að í stað þess að lifa af lénstekjum fóru þeir að taka föst laun um landssjóð. Kirkjujarðirnar voru teknar undan stöðunum og afhentar hreppstjórum, sem byggðu þær á leigu væru þær ekki seldar ábúendum. Andvirði kirkjujarðanna, svo og leigur af þeim, rann í Prestlaunasjóð sem greiddi laun presta, en var í vörzlu landssjóðsins. Jarðir þessar voru loks afhentar íslenzka ríkinu til eignar með samningum ríkis og kirkju á árinu 1997. Staðir og prestssetur voru afhentir Þjóðkirkjunni úr vörzlu ríkisins árið 2007. Eftir að söfnuðirnir tóku við vörzlu og fjárhaldi lénskirkna, létti útgjöldum kirknanna vegna af prestum. Höfðu þeir eftir það staðina með gögnum og gæðum sjálfum sér til uppihalds. Söfnuðirnir tóku hins vegar við kirkjunum án þess að þeim fylgdi nokkuð af þeim tekjustofnum, sem frá upphafi var ætlað að kosta byggingu þeirra og viðhald.
Kristleifur Þorsteinsson
Kristleifur Þorsteinsson lýsir kirkjum og kirkjusiðum við aldahvörf
Í Prestafjelagsritinu birtist árið 1932 ritgerð eftir Kristleif Þorsteinsson á Stóra-Kroppi um kirkjur og kirkjusiði. Er ritgerðin prentuð í Hjeraðssögu Borgarfjarðar 1. bindi bls. 414-422. Lýsir hann vel hvoru tveggja, kirkjunum og kirkjusiðunum. Á lýsing þessi einkum við um Reykholtskirkju og Stóra-Áskirkju, en þær voru sóknarkirkjur Kristleifs:
„Að ytra útliti voru hinar gömlu kirkjur í sama formi. Þær voru allar með hliðarveggjum úr torfi og flestar með torfþaki,en með timburstöfnum. Þrír sexrúðugluggar voru á hvorum stafni og voru rúðurnar mjög litlar. Einn lítill fjögurrarúðugluggi var á suðurhlið, yfir predikunarstól. Stafnþilin voru kolsvört af stálbiki, sem á þau var borið við og við, til að verja þau fúa. Hurðirnar voru bæði stórar og þykkar og mjög rammlega gjörðar. Lamir, skrár og lyklar var íburðarmikið og hið prýðilegasta smíði.Var það jafnan eftir beztu járnsmiði, sem voru í kirkjusóknunum. Koparhringir, stórir og útflúraðir á ýmsan hátt, voru í kirkjuhurðunum. Voru þeir líka, oftast, bænda smíði. Allar þessar kirkjur stóðu í kirkjugörðunum miðjum. Yfir sáluhliði var lítið timburskýli, sem kallaðist klukknaport, þar voru kirkjuklukkurnar, eða þá fremst í kirkjunni, þar sem ekki voru klukknaport. Allar þessar torfkirkjur voru byggðar nákvæmlega í sama stíl. Timbrið í þeim var óvenju gott og allt benti til þess, að mest áherzla var lögð á það, að allt væri rammlega gjört og ósvikið. Umhverfis altarið og gráturnar var kórinn. Þar voru fastir bekkir við gafl og hliðar og og sömuleiðis innan við kórstafi. Kórstafir nefndust endar á þeim skilrúmum, sem skiptu kór frá framkirkju. Í framkirkju voru allir bekkir fastir, og vegna þess, að þessar kirkjur voru mjóar, rúmaði hver stóll eða bekkur ekki nema fjóra menn í mesta lagi. Þessar kirkjur voru ómálaðar, að undanteknum predikunarstólnum, og skrautlausar að mestu. Stærð kirknanna fór eftir tölu sóknarmannanna, en flestar munu þær hafa rúmað vel alla fermda menn, sem í sóknunum voru, og sumar nokkuð meira.
Í þessum kirkjum var nákvæm skilgreining á fólki eftir stétt þess og stöðu. Allir bændur sóknarinnar áttu sæti í kór, en samt fór það eftir mannvirðingum, hvar í kórnum þeim var skipað niður. Hreppstjóri og meðhjálpari áttu sæti við altarishorn og út frá þeim komu betri bændur. Réði fjárhagur jafnan mestu um þá sætaskipun. Við kórstafi þótti meiri vegur að sitja, en um miðja kórbekki, þótt það jafnaðist ekki við þann heiður, sem því fylgdi, að eiga sæti við altarishorn. Þótt kórsætin væru ekki alveg fullskipuð af sóknarbændum, leyfði enginn sér að ganga þangað óboðinn, sem ekki var í tölu sóknarbænda, en væru einhverjir mikilsvirtir menn utansóknar við kirkju, átti meðhjálpari að gæta þess, að slíkir menn væru leiddir í kór. Í framkirkjunni var líka mjög nákvæm og ákveðin aðgreining á fólki. Allir bekkir norðanmegin í kirkjunni voru skipaðir kvenfólki. Innsta sæti norðanmegin var kallaður „öfugi bekkurinn.” Hann var við það skilrúm, sem aðskildi kór frá framkirkju. Þar var beztu bændadætrum valið sæti. Sneru þær andlitum við öllum þeim, sem í framkirkju voru. Í önnur sæti var konum raðað eftir líkum mælikvarða og bændum þeirra í kórnum. Í innstu sætum sunnanmegin voru konur líka. Fremstu sætin sunnanmegin áttu vinnumenn og drengir á ýmsum aldri. Þegar meiri háttar konur voru utansóknar, þá átti einhver mikilsvirt sóknarkona að gæta þess að útvega þeim sæti, sem ekki væru framar en það í kirkjunni, að það væri þeim vel samboðið. Slík sætaskipun, sem einkum var á sumrin, þegar fólk reið í aðrar kirkjur, kostaði oft mikinn troðning, ýtingar og olnbogaskot. Ef karlmaður settist norðanmegin í kirkju, þótti það mesta hneyksli og varð hver sá, sem gerði sig sekan í slíkum misgáningi að hafa sig á burt með kinnroða.
Sönginn urðu bændur að annast. Konur sungu þá aldrei í kirkju. Væru ungir menn og ógiftir vel sönghæfir, fengu þeir kórsæti, áður en þeir voru komnir í bændastöðu, en varla gat slíkt þó komið til mála, væru þeir aldir uppá sveit eða af mjög fátækum komnir. Þannig gægðist alstaðar fram þessi metorðagirnd, sem byggðist mest á efnum og ástæðum.
Engir bændur lágu á liði sínu við sönginn, sem sungið gátu. Við sálmasöng æfðust menn á þeim árum í heimahúsum, þar sem aldrei féll úr dagur, að ekki væri sungið við kvöldlestra alla vetur og alla sunnudaga, sem ekki bar upp á messudag við sóknarkirkjuna. En mjög var sönghæfni manna misjöfn þá sem nú. …
Eftir 1870 komst hér á hin mesta ringulreið á kirkjusönginn. Þá fóru ýmsir ungir menn, sem komu frá Reykjavík að innleiða hér hin nýju lög, er svo voru nefnd á þeim árum. Undu margir hinna eldri forsöngvara því illa, þegar gömlu grallaralögin, sem þeir unnu hugástum, urðu að rýma úr vegi fyrir hinum „dönsku lögum,” en svo nefndu þá ýmsir gamlir Borgfirðingar kóralbókarlög þau, sem kennd voru við Pétur Guðjohnsen. Fundu hinir gömlu kirkjuvinir, bæði konur og karlar, ekki í þeim þá andakt, sem svo lengi hafði hrifið huga þeirra með gömlu Grallaralögunum. …
Áður en samhringt var til messu, þegar altarisganga var, fór prestur í kirkju ásamt öllum altarisgestum, aðrir máttu ekki þar koma. Flutti hann þar hina svokölluðu skriftaræðu og söng sálm bæði fyrir og eftir. Að öðru leyti var sömu reglu fylgt í því efni, sem nú á dögum. …
Þá var enn siður, að allir veizlugestir (við brúðkaup) skipuðu sér í þétta fylkingu við kirkjudyr á kirkjustaðnum, þegar að því var komið, að gengið var í kirkju. Voru þá valdar úr veizlugestum ungar og virðulegar stúlkur. Þær áttu að ganga fyrir söfnuðinum til kirkju og „stilla brúðarganginn.” Á eftir þeim gengu brúðhjónin, en næst þeim gekk prestur og forsöngvari. Hófst söngur jafnsnemma og lagt var af stað frá bæjardyrum og var gengið syngjandi til kirkju. Við þetta tækifæri var sungið versið „Leið þú mig Guð, þinn vissa veg.” Þessum siðvenjum sá ég hér aldrei fylgt eftir 1880. Úr því lagðist líka niður hinn gamli sveitasiður að syngja borðsálma í veizlum.
Þá þótti það brot á helgisiðum kirkjunnar, ef konur gerðu sig sekar í því að fara til næstu bæja, fyrr en þær höfðu verið lesnar í kirkju eftir barnsburð. Þeim var reiknuð bæði helg og háleit skylda að láta þá hvergi sjá sig á almannafæri, fyrr en í kirkjunni, en það bar þeim að gera svo fljótt, sem heilsan leyfði. Allar konur báru þá skaut, er þær voru lesnar í kirkju. Á brúðkaupsdegi báru líka allar konur skaut. …
Margir prestar höfðu þann sið, að fara yfir allt kverið með börnunum í kirkjunni á fermingardaginn. Gilti sú regla, hvort sem börnin voru mörg eða fá. Létu þá flestir prestar raða börnunum á fermingardaginn eftir því, hvað vel þau kunnu og skildu hin kristilegu fræði. Ekki var það samt óraskanleg regla.Væru foreldrar barnanna vel fjáreigandi og hefðu mikil sveitarráð, þótti prestum stundum vissara að ætla eitthvað fyrir því. …
Fyrir 60 árum (i.e.um 1870) mátti líkja hinu gamla fólki hér í Borgarfirði við hinar gömlu kirkjur. Það var traust og sterklega byggt af góðum efnivið, en ekki að því skapi vel heflað.“
Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu
Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi
Opnunartímar Gestastofu
1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00
1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.