Snorrastofa í samstarf við Háskólann í Tbilisi, Georgíu 29. febrúar 2024

Snorrastofa í samstarf við Háskólann í Tbilisi, Georgíu

Snorrastofa í samstarf við Háskólann í Tbilisi, Georgíu

Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, fer í opinbera heimsókn til Georgíu í fyrstu viku marsmánaðar og verður Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu, í sendinefnd Íslands í heimsókninni (Business Delegation). Þann 6. mars mun Bergur undirrita samstarfssamning við Skandinavíudeild Háskólans í Tbilisi (Center for Scandinavian Studies) að viðstöddum forsetanum, sem í kjölfarið flytur fyrirlestur við skólann.

Markmiðið með samningnum er samvinna á sviði rannsókna og annarra samskipta í tengslum við forníslenskar bókmenntir og miðaldarit Georgíumanna. Þegar Snorri Sturluson sat við skriftir í Reykholti hugleiddi hann býsna oft Miðjarðarhafið, suðaustur Evrópu og Austurlönd nær, rétt eins og svo margir aðrir íslenskir sagnaritarar. Nokkrir forníslenskir textar fjalla um Georgíu og nágrenni, og má þar nefna Haralds sögu harðráða eftir Snorra og Yngvars sögu víðförla, sem hugsanlega er eftir Odd Snorrason, munk í Þingeyraklaustri. Þá var þjóðskáld Georgíu, Shota Rustaveli, samtíða Snorra.

 

Snorrastofa hefur undanfarin misseri þróað samstarf við ýmsar erlendar stofnanir vegna verkefna er varða Snorra og forníslenskar bókmenntir í alþjóðlegu samhengi. Auk Háskólans í Tbilisi er um að ræða The Thoreau Society í Bandaríkjunum, háskólana í Edinborg, York og Gautaborg, kastalabæinn Gradara á Ítalíu, og sænskar rannsóknarstofnanir í Istanbúl og Jerúsalem. Samvinnan hefur getið af sér verkefni, sem gagnast hafa í því sem nefna má útbreiðslustarfsemi um Snorra, enda eru vegna sterkrar stöðu Snorra sóknarfærin mörg fyrir stofnun eins og Snorrastofu.

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.