Istanbul
17. september 2024Snorrastofa í Istanbul
Háskólinn í Edinborg, Snorrastofa í Reykholti og The Swedish Research Institute in Istanbul stóðu fyrir alþjóðlegri ráðstefnu 8. til 11. september sl. í Istanbúl um Harald konung harðráða. Í allt sóttu 32 fræðimenn frá 13 löndum ráðstefnuna, sem gekk vonum framar.
Sænska stofnunin, sem minnir um margt á Snorrastofu, hýsti ráðstefnuna, en aðrir samtarfsaðilar voru Koç University í Istanbúl, Háskóli Íslands og York University.
Þemað var staða kvenna, „Women and Power“. Um var að ræða annað málþingið af fimm um konunginn, en það fyrsta var haldið í Snorrastofu í fyrra. Yfirskrift verkefnisins í heild sinni er „Harald Hardrada, the Mediterranean, and the Nordic World between the late Viking Age and the Eve of the Crusades“. Þess má geta að krossferðirnar eru taldar hafa hafist árið 1095, en Haraldur yfirgaf Miklagarð að öllum líkindum árið 1042 og var hann þá þegar búinn að sækja Jerúsalem heim. Í Miklagarði átti hann glæstan feril sem Væringjaforingi.
Þess má að lokum geta að fyrr í sumar sótti Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu, ráðstefnuna „The Eighth International Conference of the Society for the Medieval Mediterranean (SMM). Being Human: Rhythms, Actions, Inter-actions in the Medieval Mediterranean“. Var verkefnið um Harald með tvær málstofur á ráðstefnunni, eða samtals sex fyrirlestra. Þar flutti Bergur fyrirlesturinn „Fantastical Vikings in the Sun. The Links Between Harald Hardrada and Arrow-Odd“. Ræddi hann framsetningu Snorra á Haraldi harðráða og annarra sagnfræðilegra verka um norska konunga og hvernig slíkt efni hafi smitast yfir í fornaldarsögur Norðurlanda. Einbeitti hann sér að fornaldarsagnaefni tengt Austur-Evrópu og Miðjarðarhafinu.
Reiknað er með að bókaútgáfan Brepols í Belgíu muni í samvinnu við Snorrastofu og Háskólann í Edinborg gefa út í ritstjórn Gianluca Raccagni og Bergs alla fyrirlestra þessara þriggja ráðstefna, er tengdust ævi og ferli Haraldar.
Myndasafn
Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu
Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi
Opnunartímar Gestastofu
1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00
1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.