Dagur Snorra Sturlusonar haldinn hátíðlegur 2. október 2024

Dagur Snorra Sturlusonar haldinn hátíðlegur

Laugardaginn 21. september var haldinn hátíðlegur Dagur Snorra Sturlusonar

Þema dagsins var  var „Snorri og ritmenning íslenskra miðalda“.  Reiknað er með að halda árlega upp á Dag Snorra í kringum ártíð hans, 23. september en þetta var í fyrsta sinn sem haldið var upp á daginn með þessu sniði. Að dagskrárhaldi komu fjölmargir aðiljar, bæði innlendir og erlendir, og var dagskráin allvel sótt.

 Góðir gestir – nýsköpun í miðlun 

Í tilefni dagsins var einnig boðið upp á borðspilaviðburð í Finnsstofu inn af sýningarsal Snorrastofu, sem hófst kl. 13. Viðburðurinn heppnaðist vel og var setið við tvö borð, annað með stríðsleik undir stjórn James Holloway, sem byggðist á Haraldar sögu harðráða eftir Snorra, en hitt með hlutverkaleik byggðum á forníslenskum sögum, sem Pedro Ziviani stjórnaði. Þessi þáttur dagsins var haldinn í samvinnu við Game Lab við Edinborgarháskóla.

Í hátíðardagskránni síðar um daginn, var boðið upp á kynningu á væntanlegri gerð líkans af bæ Snorra og hlutverki leikja við miðlun miðaldasögunnar. Eftirfarandi erlendir gestir hátíðarinnar sáu um kynninguna: Sagnfræðingurinn Gianluca Raccagni, dósent við Edinborgarháskóla, James Holloway, leikjahönnuður frá Cambridge, Federico Mammarella, forstöðumaður upplýsingamiðstöðvar ferðamanna og safnstjóri kastalans í Gradara á Ítalíu, og Pedro Ziviani, Brasilíumaður búsettur í Reykjavík.

 Ráðherra menningarmála styður Snorrastofu

Hin formlega dagskrá hófst kl.16  með setningarávarpi Lilju D. Alfreðsdóttur, ráðherra menningarmála, sem Arna Kristín Einarsdóttir, skrifstofustjóri í menningarráðuneytinu flutti fyrir hennar hönd. Í máli hennar kom skýrt fram afdráttarlaus stuðningur ráðuneytisins við starf Snorrastofu, ekki síst fræðslu- og útbreiðsluþætti starfseminnar. Í því samhengi kynni nýstárleg miðlun sögunnar með borðspilum að vera vænleg til að kveikja áhuga ungmenna á sögu lands og þjóðar.

 Ritmenning íslenskra miðalda

Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður lýsti starfsemi Snorrastofu í erindi sínu „Snorri í Istanbúl“. Í kjölfarið komu síðan sérlega áhugaverð erindi á fræðasviðinu, erindi Óskars Guðmundssonar, „Snorraskólinn“, Guðrúnar Nordals, „Rannsóknir á ritmenningu íslenskra miðalda“, Gottskálks Þórs Jenssonar, „Ritmenningin á Þingeyrum í ljósi fornleifanna“ og Torfa H. Tulinius, „Kristin nýgerving í heiðnu kvæði. Um Sonatorrek í Egils sögu.“. Haft var á orði að hér hefði áheyrendum gefist kostur á að skyggnast inn i áhugaverðar rannsóknir, umræðu og tilgátur á sviði norrænna fræða.

Dagskrárstjórn annaðist séra Geir Waage. Félagar úr Reykholtskórnum fluttu nokkur lög undir stjórn Hólmfríðar Friðjónsdóttur. En samkomunni sleit Þorgeir Ólafsson, formaður stjórnar Snorrastofu

Myndasafn

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.