Athyglisverð bók um Reykholt til forna 10. október 2010

Athyglisverð bók um Reykholt til forna

Mynd_0864721

Athyglisverð bók um Reykholt til forna, eftir Benedikt Eyþórsson, sagnfræðing

Búskapur og rekstur staðar í Reykholti 1200-1900 kom út árið 2008 og er þriðja bókin í ritröðinni Meistaraprófsritgerðir sem Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands gefur út.

Reykholt í Borgarfirði var um aldir í hópi betri brauða landsins og eftirsóknarvert þótti að vera staðarhaldari þar. Að sögn felldi Snorri Sturluson hug til staðarins skömmu eftir að hann fékk staðfestu í héraðinu á öndverðri 13. öld og lagði mikið á sig til að fá heimildir á honum. Gerði hann Reykholt að miðstöð í héraðsríki sínu og hafði þar lengstum aðsetur sitt. En hvað gerði Reykholt svo eftirsóknarvert? Af hverju sóttust metnaðargjarnir höfðingjar á 13. öld jafnt sem hefðarklerkar og sporgöngumenn biskupa á síðari öldum eftir forráðum staðarins?

Rekstur staðar á borð við Reykholt var umfangsmikið fyrirtæki á sinni tíð þar sem eignaumsýsla og búskapur skipuðu veigamikinn sess. Í bókinni eru helstu þróunarlínur í þessum efnum dregnar fram og sérstök áhersla er lögð á búskaparhætti staðarhaldara. Því verður svarað eftir hverju var að slægjast og sýnt fram á hvernig staðarhaldarar héldu um taumana og gátu stundað umfangsmikinn búskap þrátt fyrir ýmsa annmarka bújarðarinnar. Til þessa verður að mestu stuðst við óútgefnar frumheimildir ættaðar úr Reykholti en skjalasafn staðarins er einkar vel varðveitt og samfellt og á sér vart hliðstæður hér á landi. Rannsóknin á sér einnig víðari skírskotun enda varpar hún ljósi á almenna hag- og búnaðarsögu tímabilsins, á samfélag þar sem jarðeign var einn helsti grundvöllur auðs og valda.

Búskapur og rekstur staðar í Reykholti 1200-1900 er þriðja bókin í ritröðinni Meistaraprófsritgerðirsem gefin er út af Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands.

Benedikt Eyþórsson lauk M.A.-prófi frá Háskóla Íslands í febrúar 2007. Hann hefur tekið virkan þátt í hinu þverfaglega og alþjóðlega Reykholtsverkefni frá hausti 2001 og haldið erindi og skrifað greinar um staðinn og sögu hans. Benedikt veitir nánari upplýsingar í síma 863-7670 eða á netfanginu benedikt.eythorsson(hjá)gmail.com.

Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu

Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi

Opnunartímar Gestastofu

1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00

1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.