12. desember, 2017

Þriggja ára samningur Snorrastofu við ríkið

Þann 17. nóvember sl. var undirritaður í Mennta- og menningarmálaráðuneytinu nýr samningur Snorrastofu við ríkið um rekstur stofnunarinnar til næstu þriggja ára.

Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu, Björn Bjarnason, formaður stjórnar hennar, og Kristján Þór Júlíusson ráðherra undirrituðu samninginn við hátíðlega athöfn. Þetta er í fyrsta sinn frá því 2007 sem Snorrastofa fær staðfestan langan samning við ríkið vegna almenns rekturs og verður hann því starfi stofnunarinnar mikil hvatning.

Undanfarin 7 ár hefur stofnunin einvörðungu fengið framlög frá ári til árs án sérstaks samnings. Í samningnum er kveðið á um að Snorrastofa gangist fyrir og styðji rannsóknir í Reykholti og kynningu á sögu Snorra Sturlusonar og staðarins með skírskotun til arfsins frá Snorra.