1. júlí, 2018

„Snorri“ ný leiðsögn um Reykholtsstað

Nú hefur Snorrastofa aukið þjónustu sína við gesti Reykholtsstaðar með því að gefa út stafræna hljóðleiðsögn. Útgáfan hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið og byggir á þeirri miklu vinnu sem lögð hefur verið í að merkja staðinn og veita upplýsingar um hann og frægasta son Íslendinga, Snorra Sturluson.

Leiðsagnarappið heitir því einfalda nafni Snorri og er auðfundið í snjalltækjum nútímans. Það byggir á tengingu við GPS staðsetningartæknina og býður þeim sem hlaða því niður leiðsögn um Reykholtsstað og veitir upplýsingar um þjónustu á staðnum og í nágrenni sem og áhugaverða staði og afþreyingu.

Í gestastofu (sjá flipa hér á vefnum, Þjónusta við gesti…) er ferðafólki veitt öll almenn upplýsingaþjónusta, boðnir styttri og lengri fyrirlestrar, sýning um sögu og samtíð Snorra Sturlusonar með hljóðleiðsögn og viðbót við staðarleiðsögnina Snorra. Allt þetta efni er boðið fram á viðbótartungumálum, sýningin Saga Snorra á ensku, norsku, þýsku og frönsku, hljóðleiðsagnir á ensku og fyrirlestrar og kynningar á ensku og norrænum málum. Þá má minna á hina vinsælu verslun, sem rekin er í gestamóttökunni með fallegri gjafavöru og bókum.

Bæði sýning og útileiðsögn byggja á texta Óskars Guðmundssonar rithöfundar. Það er íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Locatify, sem hefur unnið leiðsagnarappið Snorra, Reykhyltingurinn Guðmundur Ingi Þorvaldsson leikari ljær rödd sína og fylgir gestum, Guðni Páll Sæmundsson vann hljóð og Guðlaugur Óskarsson myndir.

Uppbyggingarsjóður Vesturlands veitti Snorrastofu á sínum tíma styrk til að taka þetta framfaraspor í þjónustu við gesti og handan við hornið er enn frekari útfærsla á leiðsagnartækni Locatify innan dyra, sem Snorrastofa væntir mikils af