23. mars, 2016

Passíusálmarnir lifa með þjóðinni

Mörður Árnason kynnti útgáfu sína á Passíusálmunum þriðjudaginn í dymbilviku, þann 22. mars s.l. í Bókhlöðu Snorrastofu. Fyrirlesturinn kallaði Mörður: Glíman við Hallgrím, og er ekki að orðlengja að kvöldið var bæði skemmtilegt og fróðlegt. Útgáfan er í sjálfu sér mikil nýjung í uppsetningu á umfjöllun og skýringum á sálmunum og hefur hún vakið verðskuldaða athygli fyrir efnistök og uppsetningu. Hönnuður bókarinnar er Birna Geirfinnsdóttir, en hún hefur á undanförnum árum unnið kynningarefni fyrir Snorrastofu.

Mörður fór á kostum í útlistunum sínum og vakti mjög lifandi og kröftugar umræður að fyrirlestri loknum. Með hugleiðingum Marðar og útskýringum las Kristín Á. Ólafsdóttir viðeigandi sálmavers.

Myndir tók Guðlaugur Óskarsson.