13. mars, 2018

Öldungur skipar sæti fræðarans á fornsagnanámskeiði

Þriðjudaginn 6. mars s.l. leiddi Páll Berþórsson veðurfræðingur fjórða námskeiðskvöld á fornsagnanámskeiði vetrarins í bókhlöðu Snorrastofu. Yfirskrift kvöldsins var „Vínlandsgátan” og Páll fór vandlega yfir það með þátttakendum hvernig sögurnar, Grænlendinga saga og Eiríks saga rauða greindu frá ferðum Íslendinga vestur um haf og hvernig sú frásögn rímaði við fornleifafundi nútímans. Lagði hann áherslu á, að meira verði rannsakað með sögurnar að leiðarljósi og er þess fullviss að rannsóknir muni sanna sannleiksgildi sagnanna um siglingar til Vesturheims og dvöl Íslendinga á þeim slóðum. Páli, sem nálgast nú 95 ára afmælið, tókst afburða vel upp með leiðsögn sína og undirtektir kvöldsins voru góðar. Hann hafði meðferðis ýmsa muni, máli sínu til staðfestingar og upplýsingar fyrir námskeiðsfólkið.

Myndir (Albert Eiríksson)