5. október, 2017

Og Snorrahátíðin 1947 lifnaði við…

Þriðjudagskvöldið 3. október s.l. má segja að löngu liðin saga hafi lifnað við  þegar Snorrastofa sýndi kvikmynd frá Snorrahátíð 1947, sem sett var saman í Kvikmyndasafni Íslands vegna afmælishátíðar s.l. sumar. Þá voru 70 ár voru liðin frá þessari miklu þjóðhátíð þegar Norðmenn komu færandi hendi með styttu Gustav Vigelands af Snorra Sturlusyni og hér í Reykholti þóttu það verðug tímamót að minnast. Óskar Guðmundsson rithöfundur hafði veg og vanda af heimildaöflun og undirbúningi að sýningu, sem sett var upp í gamla héraðsskólanum og opnuð á hátíðardegi sumarsins laugardaginn 15. Júlí (sjá vef Snorrastofu). Erlendur Sveinsson hjá Kvikmyndasafni Íslands vann hörðum höndum að yfirfærslu gamalla kvikmynda yfir á stafrænt form svo að þeir Óskar gætu sest við skjáinn og valið úr brot til að sýna hvað gerðist hér þegar Norðmenn komu færandi hendi og nutu vikulangrar gestrisni Íslendinga.  Úr varð u.þ.b. 80 mínútna kvikmynd sem rekur með skemmtilegum hætti hversu fram fór þessari miklu hátíð tveggja þjóða sumarið 1947.

Kvikmyndasýningin, sem kölluð var Snorrabíó, var vel sótt og gestir luku upp einum rómi um ágæti hennar. Þar eð myndin er án hljóðs rakti Óskar það sem fyrir augun bar og bætti við ýmsum fróðleik svo úr varð hin besta stund. Þá lék hann einnig hluta af upptöku Ríkisútvarpsins, sem varðveist hefur í 70 ár þar sem Helgi Hjörvar lýsir hátíðinni í Reykholti og vel heyrist í þeim sem þar töluðu. Það var Hreinn Valdimarsson tæknimaður Ríkisútvarpsins, sem hafði veg og vanda af þeirri yfirfærslu. Snorrastofa telur að með þessu framtaki öllu hafi menningarverðmætum verið bjargað og sómi sýndur íslenskri sögu og menningu.

Kvikmyndabrot, sem mynda téða kvikmynd voru fengin úr fórum Vigfúsar Sigurgeirssonar og Óskars Gíslasonar auk Árna Helgasonar, Eðvarðs Sigurgeirssonar, Sören Sörensen, Sigurðar Guðmundssonar og Viggó Nathanelssonar.

Að sýningu lokinni sköpuðust góðar umræður og þar kom að allir þeir í salnum, sem voru á sjálfri hátíðinni stóðu upp og röðuðust fyrir framan hina stórglæsilegu mynd, sem prýðir endavegg salarins.

Myndir G.Ósk.