23. janúar, 2017

Námskeiðið Borgfirðinga sögur rennur af stað 7. febrúar

Óskar Guðmundsson rithöfundur í Véum Reykholti.

Óskar Guðmundsson rithöfundur í Véum Reykholti.

Næsta þriðjudag 7. febrúar verður fyrsta námskeiðskvöld vetrarins á vegum Snorrastofu, Landnámsseturs Íslands í Borgarnesi og Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi. Það er upphaf námskeiðs í höndum Óskars Guðmundssonar rithöfundar í Véum, sem flytur fyrirlestra og efnir til umræðna meðal þátttakenda.

Þetta fyrsta kvöld verður í Landnámssetrinu í Borgarnesi og hefst kl. 20.

Stofnanirnar þrjár hafa staðið að fornsagnanámskeiðum í héraðinu um árabil og að þessu sinni er lítillega brugðið út af hefðinni hvað tímasetningu og lengd varðar. Það hefst síðar en venjulega, nú að afstöðnum áramótum og er haldið á þriðjudögum í stað mánudaga áður. Kvöldunum hefur til samræmis við það fækkað úr sex í fjögur. Þau verða til skiptis í Landnámssetrinu í Borgarnesi og Snorrastofu í Reykholti.

Fjallað verður um Borgfirðinga sögur (aðrar en Eglu). Þótt sögurnar séu ekki meðal þekktustu Íslendinga sagna, þá búa þær allar yfir sögulegum þokka – og hafa að sviði hið víðfeðma goðaveldi Snorra Sturlusonar. Sögurnar eru innbyrðis ólíkar, en það gerir viðfangsefnið enn frekar spennandi. Skráning fer fram hjá Símenntunarmiðstöðinni í Borgarnesi (simenntun.is)   og kostar námskeiðið 13.500 krónur. Sögurnar  sem teknar verða fyrir  eru Hænsa Þóris saga, Gunnlaugs saga ormstungu, Bjarnar saga Hítdælakappa, Heiðavígasaga og Gísls þáttur Illugasonar. Um námskeiðið í heild má ennfremur lesa hér á heimasíðu Snorrastofu.

Borgfirðingar allir eru hvattir til að nýta þér þetta aðgengilega námskeið um sögurnar, sem sprottnar eru úr jarðvegi héraðsins.