6. apríl, 2016

Lokið er sjötta og síðasta kvöldi með kóngum

Mánudagskvöldið 4. apríl s.l. lauk námskeiði vetrarins um ritun konungasagna í Borgarfirði. Óskar Guðmundsson rithöfundur í Véum leiddi öll sex námskeiðskvöldin, sem tókust afbragðsvel. Segja má að ekki hafi verið ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur að fjalla um þetta víðfeðma efni, en Óskari tókst að halda vel utan um það og komst til að fjalla um allar sögur Heimskringlu hins mikla meistara Snorra Sturlusonar.

Námskeiðið var haldið í samvinnu Snorrastofu, Landnámsseturs og Simenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi og hafa þessar stofnanir staðið fyrir námskeiðum af þessu tagi til fjölda ára.

Venjan hefur verið að nemendur námskeiðanna hafa farið saman í vorferðalag um ýmsar slóðir, sem tengjast viðfangsefnum hvers vetrar og nú er ætlunin að gera laugardaginn 16. apríl næstkomandi að samverudegi í sjálfu Reykholti. Dvalið verður við sýningu Snorrastofu um Snorra Sturluson, gengið um sögustaðinn og snædd hádegishressing á Fosshóteli staðarins.