13. nóvember, 2017

Kærkomnir gestir í Snorrastofu

Í dag, mánudaginn 13. nóvember komu góðir gestir í Snorrastofu þegar hin Norræna bókasafnavika hófst, sem Samband norrænu félaganna stendur fyrir um öll Norðurlönd og nágrenni.

Gestirnir komu frá Kleppjárnsreykjum og Hnoðrabóli, hreiðruðu um sig í ljósaskiptunum og hlýddu á sögu Mauri Kunnas, Fjársjóðseyjuna. Ingibjörg Daníelsdóttir á Fróðastöðum las söguna með myndasýningu og að lestri loknum áttu börnin næðisstund á safninu, nutu hressingar frá Hönnubúð, skoðuðu bækur, teiknuðu og meltu upplifunina.

Óhætt er að hrósa gestunum fyrir hve vel þau þáðu stundina, komu prúðmannlega fram og hlustuðu af athygli. 

Nú hefur svona morgunstund í bókasafnavikunni verið haldin um nokkurra ára skeið og hefur sannað gildi sitt fyrir alla, sem að henni koma. Snorrastofa stendur í þakkarskuld við Grunnskóla Borgarfjarðar og Hnoðraból sem og þá, sem ljáð hafa rödd sína til að viðhalda upplestri og þeirri sagnahefð, sem við viljum fyrir alla muni halda á lofti.  Sjá ennfr. frétt á vef Grunnskóla Borgarfjarðar

Myndir (JE)