14. júní, 2019

Hlúð að lýsingu á sýningunni, Saga Snorra

Snorrastofa leggur metnað sinn í að veita ferðamönnum góða þjónustu og upplýsingar í gestastofu sinni. Þar gegnir sýningin, Saga Snorra, stóru hlutverki og meðal annars er lýsing hennar er með ágætum. Á dögunum kom Páll Ragnarsson höfundur lýsingarinnar, yfirfór kastara og lýsingu þeirra. Myndirnar hér fyrir neðan tala sínu máli.

Sýningin er í gestastofu stofnunarinnar, á jarðhæð Reykholtskirkju-Snorrastofu. Inngangur er frá neðra bílaplani við húsin. Hún var opnuð árið 2013 og segir frá ævi, umhverfi og samtíð Snorra Sturlusonar (1179-1241). Hún hefur fengið einróma lof gesta og óhætt er að mæla með henni við gestkomandi í Reykholti.

Boðið er uppá sýningartexta á íslensku, ensku, norsku, þýsku og frönksu auk þess sem íslenski og enski textinn er lesinn fyrir þá, sem það kjósa. Viðbótartungumálin, hljóðleiðsögnin og umtalsvert ítarefni er á spjaldtölvum, sem gestum býðst að nota á sýningunni.

Höfundur texta sýningarinnar er Óskar Guðmundsson rithöfundur, hönnuðir þær Birna Geirfinnsdóttir og Lóa Auðunsdóttir og ljósameistari Páll Ragnarsson, sem hefur heimsótt sýninguna og haldið lýsingu hennar við frá opnun.

Verið velkomin í Reykholt.

Myndir af ljósameistaranum að störfum (Guðl.Óskarsson)