Fyrirlestrar í héraði: „Heimsborgari gerist sveitakona“

Í hátíðarsal gamla héraðsskólans þriðjudaginn 31. maí kl. 20:30. Um frú Önnu Bjarnadóttur (1897-1991) kennara, kennslubókahöfund og prestsfrú í Reykholti. Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur flytur.

Glæsileikinn geislar hér af frú Önnu.

Glæsileikinn geislar hér af frú Önnu.

Árið 1933 flutti frú Anna í Reykholt og var þá ein menntaðasta kona landsins, nýgift sr. Einari Guðnasyni. Hún átti eftir að setja sterkan svip á héraðið og lýsti löngu síðar þessum breytingum á eigin högum með orðunum „heimsborgari gerist sveitakona“. Hún hafði siglt strax eftir lok heimsstyrjaldarinnar fyrri, lokið háskólaprófi með láði í Englandi og tekið virkan þátt í Alþjóðasamtökum háskólakvenna sem trúðu á mikilvægi menntaðra kvenna við að koma á friði meðal þjóða. Það er dótturdóttur Önnu, Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur, sem segir sögu ömmu sinnar, sem þrátt fyrir einstæð tækifæri úti í hinum stóra heimi vildi snúa heim, ekki síst vegna sterkra tilfinningatengsla við náttúru og bókmenningu Íslands.

Anna Bjarnadóttir í kappróðri á ánni Thames. Anna er í miðju ræðara.

Anna Bjarnadóttir í kappróðri á ánni Thames.
Anna er í miðju ræðara.

Íslands.

Heim komin hélt hún háskólafyrirlestra fyrst kvenna á Íslandi, sex í röð um William Shakespeare, alla fyrir fullu húsi í Bárubúð. Anna kenndi ensku í fyrsta útvarpi á Íslandi og var fyrsta konan sem kenndi við Menntaskólann í Reykjavík  þar sem hún kenndi íslensku. Anna fékk síðan að kenna á bakslagi samtímans gegn konum á vinnumarkaði, sem lýsti sér í þróun starfsferils hennar.

 

Kennarar í Reykholti 1946-1947. Fremri röð f.v.: Anna Bjarnadóttir, Þórir Steinþórsson skólastjóri, Svafa Skaftadóttir. Aftari röð f.v.: Axel Andrésson, Einar Guðnason, Magnús Jakobsson, Björn Jakobsson, Þorgils Guðmundsson.

Kennarar í Reykholti 1946-1947. Fremri röð f.v.: Anna Bjarnadóttir, Þórir Steinþórsson skólastjóri, Svafa Skaftadóttir. Aftari röð f.v.: Axel Andrésson, Einar Guðnason, Magnús Jakobsson, Björn Jakobsson, Þorgils Guðmundsson.

Starfsferill hennar hófst í háskóla og lauk í Héraðsskólanum í Reykholti þar sem hún var annálaður kennari og höfundur kennslubóka í ensku. Föður hennar dr. Bjarni Sæmundssyni náttúrufræðingi fannst hún flytjast inn í afdal en sjálfri fannst henni ritunarstaður Heimskringlu vera í eðli sínu háborg og unni bæði samfélagi og fegurð sveitarinnar alla sína löngu ævi.  Frú Anna starfaði ötullega í Kvenfélagi Reykdæla og var lengi formaður þess. Kvenfélagið sér um kaffiveitingar í hléi af þessu tilefni.

 

Kristrún Heimisdóttir

Kristrún Heimisdóttir er lögfræðingur að mennt, hefur starfað sem háskólakennari, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og aðstoðarmaður ráðherra, bæði utanríkis og efnahagsmála, en gegnir nú rannsóknarstöðu við Columbíaháskólann í New York. Sumarið 2015 hafði hún ásamt Ævari Kjartanssyni umsjón með þáttaröð á Rás 1 Ríkisútvarpsins á sunnudagsmorgnum sem bar heitið Höfundar eigin lífs – um frelsi og helsi íslenskra kvenna. Tilefni þáttanna var að minnast 100 ára kosningarréttar kvenna.

Að venju verður boðið til umræðna og kaffiveitinga á þessu kvöldi. Aðgangseyrir er 500 kr.

 

 

 

Væntanlegir viðburðir

Engir viðburðir fundust.