18
Eggertsflöt

Meðal nýrri örnefna á staðnum er Eggertsflöt. Hún er nefnd eftir Eggert Ólafssyni skáldi og náttúrufræðingi sem hélt margfrægt brúðkaup sitt og Ingibjargar Guðmundsdóttur frænku sinnar hér í Reykholti árið 1767. Hjónavígsluna framkvæmdi prófasturinn í Reykholti, sr. Þorleifur Bjarnason móðurbróðir brúðarinnar. Brúðguminn hafði kynnt sér brúðskaupssiði að fornu og skrifað um það bók sem til var í handriti og gefin út árið 1999 (Upp­kast til forsagna um brúðkaupssiðu hér á landi). Örlagasaga brúðhjónanna, Eggerts og Ingibjargar, eftir þetta haust var sú að þau áttu vetrar­setu hjá sr. Birni Halldórssyni í Sauðlauksdal, mági Eggerts, en ætluðu síðan að hraða sér yfir Breiðafjörðinn á tveimur skipum vorið eftir, en þau fórust bæði 1768. Var þá mikill harmur kveðinn að íslenskri þjóð.

Minnisvarði prestshjóna

Á Eggertsflöt er mikill varði til minningar um prestshjónin í Reyk­­holti, sr. Einar Pálsson (1868–1951) og Jóhönnu Katrínu Eggertsdóttur Briem (1872–1962), sem sátu staðinn frá 1908–1930. Viðreisn skógarins í Reykholti tengist minningu þeirra því fyrst þau og síðan börn þeirra og afkomendur hafa lagt skóginum til fjármuni og vinnu í áratuganna rás. Nýskógur, sunnan skógarins við Eggertsflöt heitir Aldamótaskógur, gróðursettur árið 2000. Skógræktarfélag Borgarfjarðar annast skóginn í Reykholti í samvinnu við staðinn.

Þið munið hann Jörund!

Jónas Árnason í Brennubæ gekk stundum inn í Eggertsflöt með skriffæri í pússi sínu og naut þess að láta andann koma yfir sig í skógarjaðrinum. Hér samdi hann texta í hið fræga leikrit Þið munið hann Jörund!