3. nóvember, 2017

Glíman við íkonamálun í Prjóna-bóka-kaffi

Prjóna-bóka-kaffið okkar auðgaðist í gær, fimmtudaginn 2. nóvember, þegar Þórdís Rögnvaldsdóttir listakona í Reykholti sagði frá ikonum, sögu þeirra og glímu hennar sjálfrar við að feta í fótspor íkonamálara.

Sú leið er greinilega flóknari en virðist við fyrstu sýn og áhugavert var að fylgja Þórdísi í frásögn hennar, sem var bæði einlæg og fræðandi.

Prjóna-bóka-kaffið var að venju vel sótt og góð stemning var þar við vinnu, spjall og kaffisopann góða. Viðbót Þórdísar var kærkomin og óhætt er að mæla með því við þá sem vilja, að viðra áhugamál sín í þessum góða hópi.

Næsta kvöld verður á Degi íslenskrar tungu 16. nóvember í Norrænu bókasafnavikunni og þá kemur Friðrik Erlingsson rithöfundur til okkar og les einleik sinn „Uppgjör við smán: Mörður Valgarðsson segir frá“

Snorrastofa hvetur fólk til að nýta sér þá góðu stund með baðstofublæ í anda frásagnarhefðar.

Myndir J.E.