Fyrirlestrar í héraði: Skýjum ofar á hæsta tindi jarðar

Everest, himneskur staður eða martröð – nema hvort tveggja sé? Ingólfur Geir Gissurarson fasteignasali og Everestfari flytur.

Fyrirlesturinn hefst kl. 20 í Brúarási. Boðið verður til kaffiveitinga og umræðna að venju.

Aðgangseyrir kr. 1000

Þann 21. maí 2013 kl. 06:15 að staðartíma, náði Ingólfur tindi Mount Everest, hæsta fjalli heimsins (8.848 m), og varð þá elsti Íslendingurinn til að ná tindinum, fyrsti íslenski afinn! Í fyrirlestrinum rekur hann þetta mikla afrek í máli og myndum.

Ingólfur Geir Gissurarson er fæddur á Suðureyri við Súgandafjörð 1962 og ólst upp á Akranesi frá 4ra ára aldri. Hann er menntaður íþróttakennari og löggiltur fasteignasali.  Hefur unnið við fasteignasölu frá 1989 og starfar hjá fasteignasölunni Valhöll í Reykjavík.

8 ára hóf Ingólfur sundæfingar af krafti á Akranesi og komst í allra fremstu röð, varð margfaldur Íslandsmeistari á árunum kringum 1980. Hann setti alls 20 Íslandsmet og var valinn sundmaður ársins á Íslandi 1981.    Á 10. áratug síðustu aldar fór Ingólfur að stunda langhlaup af krafti og hefur lokið alls 24 maraþonhlaupum og varð 5 sinnum Íslandsmeistari í maraþonhlaupi á árunum 1995 – 2001.

Alla tíð hafa þó fjallgöngur heillað og verið stundaðar inn á milli.   Árið 2007 fór Ingólfur á Elbrus í Rúslandi sem er hæsta fjall Evrópu 5650 m.  Árið 2009 og 2011 gekk hann á fjallið Aconcagua  í Argentínu, hæsta fjall Suður Ameríku 6960 m. Það fjall er oft nefnt Everest áhugamannsins og er hæsta fjall heims fyrir utan Himalayja fjallgarðinn.  Árið 2016 gekk Ingólfur á Kilimanjaro, hæsta fjall Afríku. Ingólfur er giftur Margréti Björk Svavarsdóttur,  og eiga þau þrjár dætur og þrjú barnabörn.

Myndir úr ferð fjallakappans á Everest (I.G.).

 

 

Væntanlegir viðburðir