Fyrirlestrar í héraði: Grasrótin og gervigreind

Vífill Karlsson

Geta mennta- og menningarstofnanir fleytt landsbyggðinni inn í framtíðina? Þriðjudaginn 4. febrúar 2020 kl. 20 í Bókhlöðu Snorrastofu . Vífill Karlsson ráðgjafi SSV og dósent við Háskólann á Akureyri flytur.

Kaffiveitingar og umræður, aðgangseyrir kr. 1000

Fyrirlesturinn byggir á könnun, sem gerð var árin 2016 og 2017 þar sem leitað var svara við því, hvort menntunarstig sé hærra á svæðum landsbyggðarinnar  þar sem mennta- og menningarstofnanir fyrirfinnast og meðal annars hvernig það hafi áhrif á viðhorf íbúanna til búsetu og brottflutnings. Vífill segir um efnið: „Yfirleitt er talað um að menntun sé mikilvæg samfélögum. Það virðist engum vafa undirorpið þegar stór samfélög eru skoðuð. Þegar kemur að einstaka landsvæðum fullyrða menn ekki alltaf af mikilli sannfæringu að menntun sé til bóta. Stundum er því haldið fram að menntastofnanir mennti unga fólkið „í burtu“ vegna þess að það séu engin eða illa launuð tækifæri fyrir þau í heimabyggð sinni… Í erindinu verður skoðað hvort meiri menntun fólks hafi mögulega áhrif á hvort það sé ánægðara með stöðu sína á vinnumarkaði úti á landi t.d. atvinnuöryggi og laun. Einnig hvort meiri menntun fólks hafi áhrif á ánægju með þau gæði og þá þjónustu sem landsbyggðin hefur upp á að bjóða, t.d. leikskóla, grunnskóla, menninguna heima í héraði, nálægðina við náttúruna og margt fleira.“

Vífill Karlsson lauk Cand. Mag. prófi  í hagfræði árið 1995 frá Háskólanum í Björgvin og Cand. Polit. prófi í hagfræði frá sama skóla árið 1997. Hann starfaði að kennslu og rannsóknum við Háskólann á Bifröst 1996 – 2008, þar af sem aðstoðarrektor 1999 – 2000. Vífill hóf kennslu við Háskólann á Akureyri samhliða atvinnuráðgjöf hjá SSV árið 2008 og lauk doktorsnámi í hagfræði frá Háskóla Íslands 2012. Nú er hann dósent við Háskólann á Akureyri. Svæðahagfræði er hans fyrsta sérsvið en auðlinda- og umhverfishagfræði annað sérsvið. Vífill hefur einkum rannsakað orsakir búferlaflutninga og velferð íbúa í hinum dreifðu byggðum ásamt rannsóknum á samgöngum og fasteignamarkaði.

Eins og geta má nærri er efni fyrirlestursins hugleikið efni í mennta- og menningarstofnunum héraðsins og snertir íbúa þess með beinum hætti. Snorrastofa hvetur því alla til að koma og hlýða á þetta áhugaverða sjónarhorn, sem Vífill Karlsson kynnir.

Vífill Karlsson flytur

Fyrirlestrar í héraði: Grasrótin og gervigreind. Tilkynning.

Væntanlegir viðburðir