Fyrirlestrar í héraði: Dánarbúsuppskriftir og munasöfn

Anna Heiða Baldursdóttir

Íslenskt samfélag á 19. öld í gegnum efnismenningu.

Anna Heiða Baldursdóttir doktorsnemi í sagnfræði flytur.

Þetta verður fyrsti fyrirlestur ársins 2018. Þar fjallar Anna Heiða Baldursdóttir, doktorsnemi í sagnfræði, um íslenskt samfélag á 19. öld og hvaða mynd megi fá af því í gegnum dánarbúsuppskriftir og munasöfn sem varðveist hafa. Sérstaklega verður greint frá niðurstöðum rannsóknar á efnismenningu nokkurra borgfirskra dánarbúsuppskrifta og sagt frá gripum sem er að finna í munasafni Þjóðminjasafns Íslands frá sama tíma

Anna Heiða býr í Múlakoti í Lundarreykjadal og það er Snorrastofu sérstök ánægja að bjóða velkomna til leiks, unga og efnilega fræðakonu úr héraði.

Um efni fyrirlestursins segir Anna Heiða: „Oft hefur því verið fleygt að þeir hlutir sem við eigum segi margt um okkur sjálf. Þeir endurspegli á einhvern hátt einstaklinginn og umhverfið sem viðkomandi lifir í. Það er því forvitnilegt að velta því fyrir sér hvað fólk átti í fyrri tíð til að fá betri mynd af samfélagi þess tíma.“

Í von um betra ferðaveður en verið hefur að undanförnu, hvetur Snorrastofa fólk til að koma á fyrirlesturinn og kynna sér þetta áhugaverða verkefni.

Að venju verður boðið til kaffiveitinga og umræðna, aðgangseyrir er kr. 500.

Sjá dreifildi Snorrastofu…

Mynd af prjónastokk er frá Safnahúsi Borgarfjarðar.

Sjá nánar um stokkinn á Sarpi, gagnasafni íslenskra safna… 

 

 

Væntanlegir viðburðir