3. mars, 2020

Gestastofu lokað og samkomuhaldi slegið á frest

Frá og með mánudeginum 23. mars 2020 verður gestastofa stofnunarinnar lokuð ferðamönnum. Þetta er tímabundin ráðstöfun vegna COVID-19. Ekki er unnt að meta nú, hve lengi þessi ráðstöfun varir.
Við viljum á meðan bjóða gestum staðarins ókeypis hljóðleiðsögn okkar um Reykholtsstað, sem venjulega býðst einungis þeim, sem greiða aðgang að sýningu okkar, Sögu Snorra. Sækið appið „Snorra“ í snjalltækin, hlaðið niður leiðsögn á íslensku eða ensku  og njótið ð heimsóknar í Reykholt hvort sem þið eruð á staðnum eða heima í sóttkví. Athugið að það er ekki hægt að hlaða leiðsögninni niður frá þessari síðu. Til þess þarf að leita appið uppi í „Play Store“ eða „App Store“.

Fyrr í mánuðinum hafði Snorrastofa ákveðið að fresta öllum mannamótum í nafni stofnunarinnar frá og með miðvikudeginum 11. mars og svo lengi sem yfirvöld banna samkomur.

Vinsamlega hafið samband við stofnunina ef þörf er á þjónustu bókasafnsins.

Þetta þýðir að fyrirlestrar á vorönn færast aftur um óákveðinn tíma og sömuleiðis sunnudagssíðdegi með Páli Bergþórssyni, Bergþóri Pálssyni og Alberti Eiríkssyni sem Snorrastofa stefndi að sunnudaginn 22. mars í samvinnu við Litlu menntabúðina. Fyrirlestrarnir sem um ræðir, eru fyrirlestrar Sigríðar Bjarkar Jónsdóttur um William Morris á Íslandi, sem vera átti þriðjudaginn 24. mars, umfjöllun Valgerðar Bergsdóttur höfundar steindra glugga Reykholtskirkju sem vera átti þriðjudaginn í dymbilviku, 7. apríl og dagskrá um Þórð Kristleifsson 28. apríl. Þá er  Prjóna-bóka-kaffi Bókhlöðunnar á sama tíma fellt niður, fimmtudagana 19. mars, 2., 16. og 30. apríl.

Nánari ákvarðanir er varða samkomuhald og þjónustu Snorrastofu verða tilkynntar á vef stofnunarinnar og í héraðsfréttablaði Vesturlands, Skessuhorni.