30. september, 2006

Fjársöfnun vegna steindra glugga fyrir vígsluafmæli Reykholtskirkju 2006

Reykholtskirkja var vígð á Ólafsmessu 28. júlí 1996. Á næsta ári verða því liðin tíu ár frá vígslu hennar.

Frá fyrstu tíð var gert ráð fyrir því að kirkjuna myndu prýða gluggar úr steindu gleri. Árið 1992 var efnt til samkeppni um gerð glugganna og urðu tillögur Valgerðar Bergsdóttur myndlistarmanns fyrir valinu. Er þar víða leitað fanga í trúarlegum og listrænum arfi Íslendinga. Ýmsan fróðleik um gluggana er að finna í greinargerð listamannsins með verkinu en hana má nálgast í safnaðarsal.

Í júlí 2003 voru settir upp stafngluggar kirkjunnar en þeir eru gjöf frú Margrétar Þ. Garðarsdóttur til minningar um eiginmann hennar, Halldór H. Jónsson arkitekt.

Til að takast megi að ljúka uppsetningu og vinnu við glugga í stúkum á suður- og norðurhlið kirkjunnar reiðir söfnuðurinn sig enn sem fyrr á hlýhug og rausnarskap velunnara Reykholtskirkju. Þeim sem vilja leggja lið er bent á söfnunarbauk kirkjunnar. Jafnframt veita sóknarprestur og móttökustjóri Snorrastofu upplýsingar er varða fjárframlög.

Sóknarnefnd Reykholtskirkju

Ljósmyndir: Guðni Páll Sæmundsson