8. nóvember, 2015

Dr. Þuríður Kristjánsdóttir gefur handsaumað veggteppi

Þriðjudaginn 3. nóvember s.l. kom dr. Þuríður Kristjánsdóttir frá Steinum í Stafholtstungum færandi hendi og afhenti Snorrastofu handsaumað veggteppi að gjöf. Teppið saumaði Þuríður eftir dönsku munstri árið 1989. Það er saumað með krosssaumi sem fyllir umgjörð myndmálsins, sem verður til með auðu flötunum. Þuríður er dóttir Kristjáns Fr. Björnssonar á Steinum, sem vann að byggingu Reykholtsskóla og sjálf var hún þar nemandi síðar.  Með gjöf þessari er Reykholti sýndur mikill vinarhugur og ræktarsemi, sem Bergur Þorgeirsson forstöðumaður þakkaði Þuríði fyrir. Með henni í för voru systursynir hennar, Bjarni og Geir Finnssynir.