9. desember, 2015

Bókakynning og tónleikar – góð blanda í desember

Þrátt fyrir hrellandi óveður, hafa tveir ánægjulegir viðburðir fengið staðist hér í Reykholti, bókakynning og aðventutónleikar.

Bókakynning:

Þriðjudaginn 8. desember fjallaði Óskar Guðmundsson um bók sína, Þá hló Skúli, sem Forlagið gefur út nú fyrir jólin. Óskar las úr bókinni, sýndi fjölbreyttar myndir úr lífi Skúla og sagði lifandi sögur af tilurð verksins og hinum gengna merkismanni, Skúla Alexanderssyni. Snorrastofa samfagnar blekbóndanum í Véum við útkomu bókarinnar og gestir þáðu veitingar stofunnar af því tilefni.

Aðventutónleikar 6. desember:

Reykholtskórinn á aðventutónleikum 6. desember 2015

Reykholtskórinn á aðventutónleikum 6. desember 2015

Tónleikar Reykholtskórsins undir stjórn Viðars Guðmundssonara þóttu takast afbragðs vel og voru vel sóttir. Til að minnast látins félaga, Ágústu Þorvaldsdóttur á Skarði, flutti kórinn frumsamið ljóð og lag, Vinur kær, við lag stjórnandans og ljóð Guðlaugs Óskarssonar. Einsöngvarar kórsins á tónleikunum  voru Dagný Sigurðardóttir, Lára Kristín Gísladóttir, Snorri Hjálmarsson, Vildís Bjarnadóttir og Þorvaldur Jónsson. Undirleik annaðist Viðar sjálfur og með honum lék á fiðlu Kristín Sigurjónsdóttir. Að tónleikunum loknum bauð kórinn til samverustundar með kaffisopa, jólaöli og smákökum í safnaðar- og sýningarsalnum.