29. mars, 2017

Opið verður um páskana í Snorrastofu

Snorrastofa hefur gestamóttöku sína opna yfir páskahátíðina og hefur opið kl. 10-18 alla daga í apríl.

Verið velkomin að njóta leiðsagnar og fræðslu um Reykholt og Snorra Sturluson (sjá nánar undir flipanum, Þjónusta við gesti… 

Starfsfólk Snorrastofu.

Um aukna þjónustu við ferðamenn:

Snorrastofa í Reykholti hefur um árabil rekið þjónustu við gesti staðarins og í gestastofu hennar er leitast við að koma sem best til móts við þarfir þeirra fjölmörgu, sem heimsækja staðinn.

Undanfarin ár hefur Snorrastofa skipt úr vetraropnunartíma yfir í sumartíma við mánaðarmótin apríl/maí en hefur nú ákveðið að færa hann fram að nýliðnum mánaðarmótum mars/apríl. Því er þjónusta fyrir ferðamenn nú opin alla daga frá 1. apríl til 31. september frá kl. 10 – 18.

Gestastofan veitir ferðamönnum þjónustu og fræðslu á jarðhæð Reykholtskirkju-Snorrastofu, en þar er sýning um Snorra Sturluson auk þess sem boðið er upp á styttri og lengri kynningar um miðaldir, Snorra og Reykholt. Þar er rekin verslun með úrvali af íslensku handverki, bókum, geisladiskum og smávöru fyrir ferðamenn.

Sýningin Saga Snorra hefur verið þýdd á ensku, norsku, þýsku og frönsku og fá gestir afhentar spjaldtölvur með viðbótartungumálunum, ítarefni um sýninguna og hljóðleiðsögn á íslensku og ensku.

Það er varla ofsagt að Grettistaki hafi verið lyft í að fegra umhverfi Reykholts og gera minjar og mannvirki þess sem aðgengilegust fyrir gesti. Meðal annars hafa verið lagðir göngustígar, sem eru færir hjólastólum og svæðið hefur verið merkt með nýjum skiltum og vegvísum auk þess sem samið hefur verið fræðsluefni fyrir þá sem vilja ganga um sögustaðinn.

Nú er unnið að hljóðleiðsögn, sem gestum mun bjóðast í sumar. Henni verður hlaðið niður í tæki gesta og þegar þeir ganga um staðinn njóta þeir leiðsagnar Guðmundar Inga Þorvaldssonar leikara við helstu áningarstaði hans. Þar nýtist hin margrómaða staðsetningartækni GPS, sem skila sínu þó gestir séu ekki nettengdir.