22. febrúar, 2019

ERASMUS-hópur gistir Reykholt

Mánudaginn 11. febrúar s.l. hýsti Reykholt áhugaverðan hóp evrópskan, sem hefur að viðfangi evrópskan menningararf og ferðaþjónustu á tímum fjölmenningarinnar. Verkefnið er á vegum ERASMUS og heitir PROPEACE. Umsjónarmaður og skipuleggjandi ferðar hópsins hér á landi var Gísli Sigurðsson rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar.

Í Snorrastofu héldu nokkrir heimamenn erindi, sem vöktu líflegar umræður og umþenkingar. Mælendur voru Bergur Þorgeirsson forstöðumaður Snorrastofu, Ragnhildur Jónsdóttir forstöðumaður Landbúnaðarsafns Íslands á Hvanneyri, Óskar Guðmundsson rithöfundur í Véum og sr. Geir Waage. Sérstakur gestur fundarins í Reykholti var Þjóminjavörður, Margrét Hallgrímsdóttir.

Innan PROPEACE er skyggnst eftir lykilhugtökum á sviði menningararfs og til grundvallar liggur sú nýja staða, sem uppi er þegar „erfingjarnir“ tengjast ekki arfinum með sama hætti og þegar við vorum öll meira og minna á sama stað. Í hópnum eru fræðimenn og fulltrúar ferðaþjónustu, sem mynda eins konar innri hring, sem skipuleggur og leiðir stúdenta sem vinna að markmiðum verkefnisins.

Þátttakendur eru frá Rúmeníu, Hollandi, Ítalíu, Frakklandi, Spáni, Skotlandi og franska hluta Kanada. Hér á Íslandi var að þessu sinni fundað með innri hring verkefnsins, sem farið hefur með fimm menningar- og ferðafræðastúdenta frá hverju landi til Edinborgar og Amalfi-strandarinnar.

Í vor er ráðgert að fara með þau til Santiago de Compostela. Með stúdentunum er unnið með lykilhugtökin, sem nefnd eru að ofan og að því að skrifa stuttar alfræðigreinar um fyrirbæri sem mæti flokkast og tengja við evrópskan menningararf.

Innri hópurinn (án stúdentanna) var hér á landi vikuna 11.-15. febrúar (áður hafa sambærilegir fundir í Frakklandi, Rúmeníu og Hollandi) og á mánudeginum hófst ferðin á Landnámssetrinu í Borgarnesi, og fundi í Reykholti. Daginn eftir var haldið á Árnastofnun í Reykjavík og Sjávarklasann úti á Granda en á miðvikudeginum var farið austur að Hala í Suðursveit með viðkomu á Skógum og Jökulsárlóni. Ferðin endaði á Hótel Rangá á fimmtudeginum og á föstudegi náðist að koma við á Þingvöllum á leiðinni til baka og skoða nýju margmiðlunarsýninguna á Hakinu. Á hverjum stað funduðum við um eitthvert menningar- og ferðaþjónustutengt efni með heimafólki.