18. maí, 2016

Afar  vel   heppnuð málstofa

Á annan dag hvítasunnu – 16. maí síðastliðinn var haldin  í Reykholti afar vel heppnuð málstofa um höfundarverk Snorra Sturlusonar og viðtökur verka hans (Snorri Sturluson‘s Authorship and Afterlife). Málstofan var á vegum  Snorrastofu og samstarfsaðila  við Háskóla Íslands.  Var almennt mál þátttakenda að með þessari málstofu væri hafin umræða og hugsanlegt samstarf um rannsóknir á þessu sviði til framtíðar. Meðal góðra gesta á málþinginu var Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands.

 Björn Bjarnason stjórnarformaður Snorrastofu setti málþingið og sagði í aðfararræðu sinni frá ýmsum verkefnum stofnunarinnar,  og vakti sérstaklega  athygli á Þingeyraverkefninu – þverfaglegu samstarfsverkefni um rannsóknir á Þingeyrum sem Snorrastofa tekur þátt í að móta og vinna að um þessar mundir.

Síðan var gengið til formlegrar dagskrár og var hafður sá háttur á að fyrst fluttu tveir fræðimenn fyrirlestra sína,  og síðan voru umræður eftir hverja lotu.  Fyrst  flutti Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar erindið „Author or authors? The enticing problem of medieval authorship.“ Þá flutti   Óskar Guðmundsson rithöfundur í Reykholti erindið „Höfundur – verk – vangaveltur um  víxlverkun  – æðri eða umfram merkingu Snorra verka“. Í næstu lotu fjallaði  Brynja Þorgeirsdóttir doktorsnemi erindið „Sorrowful heroes: Melancholy in the  times of Snorri Sturluson“. Og  Torfi Tulinius prófessor:  „Tumi’s feast. Saga-writing and the  wedding-celebration at Reykholt in 1241“.
Eftir hádegishlé reið  Jón Karl Helgason prófessor á vaðið með erindi sínu : „Endurritarinn Snorri Sturluson“  og prófessor  Tim William Machan flutti  sína tölu „Snorri Sturluson and the Fashioning of an English Nation“.

Í síðustu lotu talaði  Bergur Þorgeirsson forstöðumaður Snorrastofu um rannsókn sína á einum þætti viðtökufræðanna undir heitinu: „Saknaðarkveðja frá fósturjörðinni: Snorri
og Norðmenn í Ameríku“. Og síðustu ræðu dagsins átti svo doktorsneminn Simon Halink: „Mímir and his Well: Modern Images of Snorri Sturluson and Reykholt“.

Málstofustjórar voru Jón Karl Helgason og Óskar Guðmundsson. Málstofan var haldin að frumkvæði Snorrastofu og samstarfsaðila við Háskóla Íslands, en  starfsfólk Snorrastofu annaðist undirbúning á staðnum.

Sjá dagskrá ráðstefnunnar hér á vefnum…

Myndir Guðl. Óskars.