5. júní, 2018

250 ára ártíð Eggerts Ólafssonar haldin hátíðleg

Hátíð í tali og tónum

 

Laugardaginn 2. júní s.l. minntist Snorrastofa þess með dagskrá í Reykholti að 250 ár eru liðin frá drukknun Eggerts Ólafssonar og fylgdarliðs hans – 30. maí 1768.  Haustinu áður, í september 1767, var haldið í Reykholti brúðkaup hans og Ingibjargar Guðmundsdóttur og stóðu tjöld brúðguma, höfðingja og fylgdarmanna á flötinni, sem kennd er við hann, Eggertsflöt. Þangað hafa ættingjar sr. Einars Pálssonar og Jóhönnu Eggertsdóttur komið ár hvert til gróðursetningar í Reykholti.  Dagurinn var vel nýttur og undirritaður var einnig samningur kirkjustjórnar Íslands og Reykholtskirkju við Skógræktarfélag Borgarfjarðar og Skógræktarfélag Íslands um afnot af víðfeðmu landi Reykholtskirkju, allt norður til Hvítár, fyrir skógrækt og umhirðu landsins í þágu almennings. Þá voru einnig afhjúpuð tvö skilti á staðnum, sem tengjast tímamótunum.

Dagurinn hófst kl. 13:15 á Eggertsflöt þar sem Bergur Þorgeirsson forstöðumaður Snorrastofu setti hátíðina, sr. Geir Waage afhjúpaði skilti Snorrastofu um brúðkaup Eggerts og Ingibjargar og fulltrúar Reykholtskirkju, sr. Geir Waage, Skógræktarfélags Borgarfjarðar, Óskar Guðmundsson og Skógræktarfélags Íslands, Jónatan Garðarsson undirrituðu saming sín á milli. Skiltið teiknaði myndlistarmaðurinn Sól Hrafnsdóttir og Birna Geirfinnsdóttir hannaði það sem og skógræktarskiltið. Óskar Guðmundsson er höfundur texta þessara sömu skilta.

Þá var gengið að skilti Skógræktarfélags Borgarfjarðar, ofan Höskuldargerðis, þar sem fulltrúar þess, Laufey Hannesdóttir og Anna Gunnlaug Jónsdóttir afhjúpuðu endurnýjað skilti til marks um gjörning dagsins. Sr. Geir Waage ávarpaði samkomuna, lýsti fyrir fólki því sem samningurinn fæli í sér og dró upp skemmtilegar myndir frá löngu starfi sínu og fjölskyldunnar við aðhlynningu skóga í Reykholti.

Í Reykholtskirkju tók við dagskrá í tali og tónum um Eggert Ólafsson, í höndum Óskars Guðmundssonar rithöfundar. Hann hafði fengið til liðs við sig Kristján Kristjánsson tónlistarmann og Kristínu Á. Ólafsdóttur söngkonu, sem fluttu skáldskap Eggerts við þjóðlög og frumsamin lög Kristjáns af þessu tilefni. Í fordyri kirkjunnar hafði Snorrastofa komið fyrir fyrstu útgáfum af Ferðabók Eggerts og Bjarna, sem eru í eigu Snorrastofu.

Þessum fjölskrúðuga degi lauk með kaffiveitingum og nærandi samveru í safnaðar- og sýningarsal Reykholtskirkju. Var þar með lokið bjartri hátíð á blíðsumardegi í minningu skáldsins og náttúrufræðingsins, Eggerts Ólafssonar, sem umvafði jafnframt mikilvæg skref okkar jarðarbarna í átt að verndun og viðhaldi náttúrunnar í hendur komandi kynslóðum.

Nánar um viðburðinn…

Myndir Guðl. Óskars.