Í gömlu kirkjunni
Altaristafla, olíumálverk, eftirmynd Anker Lund af frummynd Carl Bloch. Á miðri mynd er Frelsarann sem blessar fólkið er þyrpist [upp] að honum. Neðst á myndinni er máluð eftirfarandi setning: KOMMER ·TILL· MIG ·I • SOM ·ARBETEN· OCH· ÆREN • BETUNGADE·OG· IAG· WIL·WEDERGWIKAEDER. Eitthvað hefur textinn skolast til á verkstæði málarans því þar ætti að standa á þessa leið í íslenskri þýðingu: Komið til mín allir þér sem þunga og erfiði eruð hlaðnir, sem er mikilvæg ritningargrein Biblíunnar. Þetta myndefni var Bloch hugleikið enda fjöldi áþekkra mynda varðveittur í Danmörku. Í hægra horni neðst stendur að myndin sé kópía eftir Anker Lund en hann gerði mikið af því að mála eftir myndum annarra málara. Taflan var keypt til kirkjunnar í byrjun tuttugustu aldar. Hún er 153 cm á hæð og 114 á breidd og í gylltum, skrautlegum ramma.
Hvítur altarisdúkur úr lérefti með brún sem gengur niður á altarið og er á henni úrklippt munstur með kappmelluðum brúnum. Krossmark er í miðju brúnarinnar og krjúpandi englar sinn hvor sínu megin og blómamunstur út til beggja enda hennar. Dúkinn saumaði Gyða Sigurðardóttir, 1910 – 1993, tengdadóttir síra Einars Pálssonar og frú Jóhönnu Briem.
Á altarinu eru tvær kertispípur af málmblöndu frá tuttugustu öld. Stéttin er kringlótt en leggir stjakanna gráir að lit. Hæð 20 cm.
Raflýstur ljósahjálmur frá tuttugustu öld, með látúnsspöngum og alsettur glerkristöllum. Hans er getið árið 1969, þá nýlega fenginn til kirkjunnar.
Gulmáluð söngtafla í strikuðum, gráleitum, ramma. Númeraspjöld eru grá með ámáluðum svörtum stöfum og geymd í þar til gerðum stokki með loki sem rennt er í nót. Söngtaflan er 65 cm á hæð og 52 cm breið og frá svipuðum tíma og kirkjan sjálf.
Skírnarfontur af tré eftir Bjarna Kjartansson myndskera í Reykjavík. Fonturinn er sexstrendur, digrari efst en neðst, og með renndum köflum að ofan og neðan, gerður úr brúnum, lökkuðum viði. Barmur og lóðréttar brúnir eru prýddar fíngerðu snúrumunstri. Hann stendur á sexstrendum fótstalli sem skreyttur er útskornum stuðlum. Á framhlið hans er krossmark og fyrir neðan það auga í þríhyrningi og stafar geislum frá hliðum hans. Fontinn gaf Guðrún Jónsdóttir á Brennistöðum í Flókadal til kirkjunnar skömmu fyrir 1958. Skírnarskálin er úr grænum leiri úr smiðju Guðmundar Einarssonar frá Miðdal.
Harmóníum, bandarískt, keypt til kirkju 1901. Það er með háu baki, útskornu og er innfelldur sporöskjulaga spegill framan á því fyrir miðju. Fyrsti organisti kirkjunnar, Bjarni Bjarnason á Skáney, hafði milligöngu um kaup á hljóðfærinu þegar hann kom frá orgelnámi við Dómkirkjuna í Reykjavík.
Gjafir og áheit til Reykholtskirkju frá árinu 2007
Árið 2023
Lítið hljóðkerfi til notkunnar við tónlistarflutning í kirkju og annars staðar ef þurfa þykir.
(Þetta hentar vel fyrir trúbadora og þess háttar en hingað til hefur þurft að fá slíkan búnað lánaðan, flytja á staðinn, taka síðan saman og koma til skila. Gefandi óskar nafnleyndar).
Gjöf frá fjölskyldum Eyfells og Briem fólksins.
Bækur og myndir sem tengjast Reykholti og Eggertsflöt úr eigu þessa fólks.
(Þetta fólk kemur hér árlega og hirðir um Eggertsflötina. Gjöfin var afhent á Eggertsflöt og tók Þorvaldur Jónsson á móti og þakkaði. Gjöfin er varðaveitt í Snorrastofu).
Árið 2022
Þann 17. júní barst kirkjunni höfðingleg gjöf frá Hvammssókn í Norðuárdal.
Gjöfin er samanbrjótanlegur líkkistuvagn á hjólum til notkunnar við jarðarfarir.
(Gjöfina afhentu þau Þórhildur Þorsteinsdóttir formaður sóknarnefndar þeirrar sóknar og Elvar Ólason, eiginmaður hennar. Gjöfinni veittu móttöku formaður sóknarnefndar og sóknarprestur og voru gefendum færðar hugheilar þakkir fyrir).
Þann 18. desember Voru okkur gefin 20 eintök af nýútkominni sálmabók.
Gefendur voru börn hjónanna Þórlaugar Símonardóttur og Bjarna Halldórssonar á Kjalvararstöðum. Þau eru: Snorri, Halldór, Ármann og Guðný ásamt þeirra fjölskyldum.
Árið 2021
Minningargjöf um Ingibjörgu Einarsdóttur frá Runnum...........................kr. 40,000
Gjöfin er frá börnum hennar og fjölskyldum þeirra.
Minningargjöf um Jón Eggertsson f.v. kaupmann í Borgarnesi..................kr. 200,000
Géfendur eru afkomendur Jóns.
Sorgarborði til notkunnar við útfarir þar sem það á við. Gefendur eru: Þuríður Guðmundsdóttir Sámsstöðum Hvítársíðu og Gréta Ingvarsdóttir í Deildartungu.
Árið 2020
Gjöf frá Helgu Guðráðsdóttur og Eyjólfi Sigurjónssyni..........................kr. 30,000
Orgelssjóður Bjarna Bjarnasonar frá Skáney........................................kr. 34,287
Árið 2019
Hjónin Helga Guðráðsdóttir og Eyjólfur Sigurjónsson gáfu kirkjunni kr. 60,000
( Gjöfin er til minningar um son þeirra Sigurjón sem hefði orðið sextugur á árinu en lést í bernsku).
Styrkur frá Guðríði Stefánsdóttur frá Norður Reykjum........................kr. 50,000
( Guðríður var mikill velunnari kirkjunnar)
Framlag sr. Geirs v/ móttöku skólabarna...........................................kr. 419,500
Árið 2018
Framlag sr. Geirs Waage vegna gripagreiðslna á árinu kr.140,000
Framlag sr. Geirs vegna móttöku skólabarna............. kr. 406,500
Þakklætisvottur frá Lionsklúbbnum Nirði.................... kr. 200,000
Edgar Willy Kristensen, vinur Dagnýjar og Geirs............. kr. 30,000
Helga og Eyjólfur á Kópareykjum................................... kr. 20,000
Minningargjöf Katrínu Auði Eiríksdóttur Glitstöðum.... . Kr. 20,000
Gefandi Sigurjón Valdimarsson eiginmaður Katrínar Auðar
Árið 2017.
Geir Waage gaf kirkjunni innkomu vegna fyrirlestra sem hann hélt á árinu kr.498,500
Þá sendu þau hjónin Helga og Eyjólfur á Kópareykjum okkur kr 10,000
( Þau hafa styrkt kirkjuna á hverju ári með einhverri upphæð).
Árið 2016
Frú Guðjóna Jónsdóttir frá Sturlu Reykjum gaf kirkjunni kr. 300,000 til kaupa á stólum í kór kirkjunnar.
(Gjöfin er til minningar um eiginmann hennar, Kristleif Jóhannesson, son hennar Jón Kristleifsson og barnabarn hennar Lísu Jóhannesdóttur).
Hjónin Helga Guðráðsdóttir og Eyjólfur Sigurjónsson sendu enn eina gjöf kr. 40,000
Þá barst kirkjunni önnur höfðingleg minningargjöf. Í gjafabréfinu segir svo:
Minningargjöf um ástkæra eiginkonu, móður, tengdamóður, ömmu og systur,
Jóhönnu Guðjónsdóttur, Grund í Skorradal, f. 20. júlí 1940, d. 6. júní 2015.
Minningargjöfin er „ Moldunarfontur“ smíðaður af syni mínum Jens úr viðartegundinni Wenge. Fonturinn er áttstrendur, krossinn myndar tólf hliðar og vísað er til skírnarinnar og heilagrar þrenningar í botni skálarinnar.
Moldunarrekuna vann hagleikssmiðurinn Gissur Árnason frá Hallormsstað úr Evrópu Eik, vegna þess að allt tréverk í kirkjunni er úr Eik en blaðið úr messing.
Áletrunin á Moldunarfontinum er skorin út af listagullsmiðnum Ívari Björnssyni í Reykjavík.
Þess er óskað að Moldunarfontur þessi sé til nota í Reykholtskirkju þegar moldað er við jarðarför innan kirkju.
Ég mælist til þess, að mold úr viðkomandi gröf sé í Moldunarfontinum og að athöfn lokinni sé moldin sem eftir er, tæmd í gröfina. Sé lík brennt að athöfn lokinni, sé mold notuð úr kirkjugarði kirkjunnar, en moldin, sem eftir er geymd og látin vera með við grafsetningu duftkers.
Moldunarfonturinn er gefinn á afmælisdegi Jóhönnu Guðjónsdóttur.
Grund, 20. júlí 2016.
Davíð Pétursson
Pétur Davíðsson og fjölskylda
Jens Davíðsson og fjölskylda
Guðrún Davíðsdóttir og fjölskylda
Guðjón Elías Davíðsson og fjölskylda
Skúli Guðjónsson og Friðrik Guðjónsson.
Sr. Geir og Dagný gáfu 12 stóla, sömu gerðar og eru í kirkjunni okkar. Stólana keyptu þau í Hallgrímskirkju en Hallgrímskirkja gaf 3 stóla til viðbótar.
Árið 2015.
Hjónin Helga Guðráðsdóttir og Eyjólfur Sigurjónsson á Kópareykjum færðu kirkjunni að gjöf kr. 50,000. ( Þau hafa í áranna rás sýnt kirkjunni eistaklega mikla velvild).
Við messu þann 3. maí kom Helga Magnúsdóttir og gaf kirkjunni forkunnarfagran handsaumaðan altarisdúk ( með harðangurs og klausturssaum), sem þykir meistaraverk. ( Helga er fædd og uppalin í Birkihlíð)
Árið 2014
Jón Emilsson rafvirkjameistari færði kirkjunni að gjöf lýsingarbúnað yfir altari sem og á bak við krossinn og ennig lýsingarbúnað í Pétursstúku.
( Hann annaðist sjálfur uppsetningu þessa búnaðar alls án endurgjalds)
Nemendur Reykholtsskóla frá 1958 til 1961 gáfu kirkjunni lýsingarbúnað utan húss.
( Tveir jarðlampar sem lýsa upp gluggana á norður og suður stúkum kirkjunnar)
Ennfremur kastara sem lýsa upp hringglugga yfir altari. ( kastararir eru festir á ljósastaur austan kirkju.
(Jón Emilsson annaðist uppsetningu án endurgjalds en Jón var nemandi í Reykholtsskóla á frá 1958 til 1961)
B.S.R.B. í Munaðarnesi færði kirkjunni 80 stóla, sömu gerðar og eru í kirkjunni
Börn dr. Björns Magnússonar f.v. prófasts á Borg færðu okkur að gjöf hluta af bókasafni hans sem og bókaskápa til varðveislu þessara bóka. Þessari gjöf var komið fyrir í Finnsstofu
Hjónin frú Dagný Emilsdóttir og sr. Geir Waage gáfu kirkjunni fallegan skáp sem nú prýðir einnig Finnsstofu.
Þá barst og gjöf frá Ara Arnórssyni. Gjöfin er Virginall, sem tilheyrir sembal fjölskyldunni .
( þetta er heimasmíðað hljófæri og var það þakkað).
Árið 2013.
Helga Guðráðsdóttir og Eyjólfur Sigurjónsson sendu kirkjunni styrk kr. 30,000
Erik Engeset sendi kirkjunni peningagjöf að upphæð kr.53,396 ( með þökk fyrir ánægjulega heimsókn.
Árið 2012.
Hótel Reykholts gaf 13 stóla til notkunnar í Finnsstofu.
Viðgerð á klukkum önnuðust Halldór Karl Þórisson og Hringur Baldvinsson án endurgjalds.
Árið 2011
Styrkur að upphæð kr. 120,000 til að gera sálmatöflu.
Gefendur eru Gunnar Gauti Gunnarsson og Steinunn Árnadóttir
Styrkur frá Helgu Guðráðsdóttur og Eyjófi Sigurjónssyni kr. 50,000
Hr. Jan Petter Roed. Styrkur vegna útikross. 1.800,000
( Kristján Pálsson annaðist smíðina)
G.A.Smíðajárn gaf efni í útikross sem og efni í sálmanúmer og tákn í gerð sálmataflna.
Marzena Eva Dukarska gaf kirkjunni altarisdúk.
Árið 2010
Minningargjöf um Kalman Stefánsson frá Kalmanstungu kr.100,000
Gefandi er frú Bryndís Jónsdóttir, eftirlifandi eiginkona Kalmans og fjölskylda.
Styrkur til að gera sálmatöflur í kirkjuna kr. 100,000
Gefandi er frú Guðrún Ólafsdóttir Skálatúni 7. Reykjavík.
Þá bárust kirkjunni 20 tágarstólar, sömu gerðar og eru í kirkjunni.
Gjöfin kom frá B.S.R.B Munaðarnesi.
Árið 2009
Helga Guðráðsdóttir og Eyjólfur Sigurjónsson á Kópareykjum kr. 50,000 til minningar um son þeirra Sigurjón sem hefði orðið fimmtugur á árinu. ( þau misstu hann í frumbernsku)
Hr. Jan Petter Roed 16 þús. Bandaríkjadalir, til lúkningar skulda vegna byggingar Reykholtskirkju.
Minningargjöf um Guðmund Garðar Brynjólfsson frá Hlöðutúni kr 50,000
Gefendur eru börn hans, Brynjólfur og Þuríður ásamt fjölskyldum þeirra
Árið 2008.
Styrkir vegna viðgerðar á orgeli kirkjunnar.
Sigurður Rúnar Jónsson kr. 20,000. Þorvaldur Jónsson kr. 20,000
Altarisdúkur og stóla. Gefandi Marzena Eva Dukarska frá Hýrumel.
Árið 2007.
Viðbótarmagnari fyrir hjóðkerfi kirkjunnar að verðmæti kr. 50,000
Gefandi er Reykholtskórinn ( eftir að allir hátalarar höfðu verið settir upp og tengdir, reyndist það hljóðkerfinu ofviða)
Styrkur v/ altarisklæðis á eldra altari í Pétursstúku.
Sparisjóður Mýrasýslu kr. 500,000. Menningarsjóður Borgarbyggðar kr. 150,000
Skráð af Þorvaldi Jónssyni í Brekkukoti
----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Kross að Reykholtskirkju, reistur á kirkjudegi 2012
Árið 2011 var fagnað vígslu Reykholtskirkju í 15. sinn á kirkjudegi á Reykholtshátíð. Að því tilefni gaf velgjörðamaður kirkjunnar, Jan Petter Röd, fjármuni til þess að gjöra kross þann, er ætlaður hafði verið staður vestan við stafnþil hennar frá því að kirkjusmíðið hófst. Auk annarra stórgjafa hefur Jan Petter áður gefið allan búnað í turni kirkjunnar auk stiga og klukkuí turninum.
Norski myndlistarmaðurinn Jarle Rosseland hannaði krossinn og sókti formgerð hans til Gunnhildarkrossins, lítils róðukross af rostungstönn frá því um 1100, sem varðveittur er í þjóðminjasafni Dana. Jarle Rosseland hefur lengi fylgt Reykholtskirkju – Snorrastofu. Sumarið 1998 voru til sýnis í safnaðarsal Reykholtskirkju myndskreytingar þær er hann gerði í ævisögu Snorra Sturlusonar er rituð var af Ivari Eskeland. Færði Saga Petroleum AS, er kostað hafði útgáfu bókarinnar, Snorrastofu að gjöf myndasyrpuna “Snorre Suiten”. Krossinn er smíðaður af stáli og eru innlögð í hann fimm tungl af sedrusviði. Í þau eru skornar táknmyndir guðspjallamannanna eftir fyrirmyndum úr Kells bókinni írsku auk Kristsmyndar, sem sókt er í Íslenzku teiknibókina. Norski skurðmeistarinn Bjarte Aarseth annaðist skurð tunglanna af sedrusviði, sem vaxinn er í garði Jans Petters Röed í Mátsgarði á Essex í Englandi. Upphaflega kemur sedrusviðurinn frá Líbanon, en þaðan hafði krossfararriddari hrísluna heim með sjer á dögum Snorra Sturlusonar. Hefur hið mikla trje vaxið þar síðan. Kristján Pálsson í Borgarnesi smíðar krossinn.
Dúkristur þær af táknmyndum guðspjallamannanna sem hjer getur að líta, eru verk Jarle Rosselands. Þær eru gerðar í fimmtíu eintökum og eru til sölu. Gengur andvirði þeirra til þess að kosta gerð krossins.
Þegar ný kirkja var reist í Reykholti á árunum 1988–1996 var ákveðið að hafa ekki kross á turni eins og gömul venja hefur verið um kirkjur. Þess í stað var áformað að hafa standandi kross framan við stafnþil kirkjunnar og hefði hann þilið að bakjarli. Krossinn er táknmynd kristni og kirkju. Hann vísar til dauða og upprisu Drottins. Minning þeirra atburða er kjarni trúarinnar og grundvöllur kristins siðar.
Kirkja hefur staðið í Reykholti frá því að kristni var lögfest sem átrúnaður Íslendinga. Staðurinn var frá upphafi sínu kirkjumiðstöð. Þeir menn sem setið hafa hann, goðarnir fornu sem stofnuðu til hans og síðar prestarnir, hafa allir þjónað honum á forsendu minningar Jesú Krists. Þar fer fremstur að frægð Snorri Sturluson, 1178 – 1241. Edda hans og Heimskringla og að öllum líkindum Egils saga Skalla – Grímssonar eru miðlægt minningarmark á staðnum og um sögu staðarins. Þar tengist persóna Snorra persónum og sögu þeirra atburða sem hann hefur varðveitt í frásögnum sínum. Þannig verður krossmyndin í Reykholti miðlæg framan við kirkjuna og vísar til þessara tengsla í sögunni.
Gerð krossins
Krossinn sem hjer er nefndur í upphafi, sækir frumgerð sína til Gunnhildarkrossins danska. Hann er gerður af stáli og sedrusviði og er hannaður af Norska listamanninum Jarle Rosseland og Bjarte Aarseth, sem aðstoðað hefur með hönnun. Rosseland notar táknmyndir Guðspjallamannanna úr Kells bókinni írsku, en til Írskrar kristni er að rekja elztu kristni á Íslandi meðal vestrænna landnámsmanna. Kristsmyndin á krossinum er að rekja í Íslenzku teiknibókina. Krossinn smíðar Kristján Pálsson. Bjarni Árnason frá Brennistöðum í Flókadal hefur hannað burðarvirki krossins og GÁ smíðajárn leggur til stálið. Sedrusviðurinn í krossinum er vaxinn Í Mátsgarði, Maud ́s Court, setri Jans Petters Röed, sem kostað hefur verkið. Jan Petter er Norðmaður, og á bú í Mátsgarði í Tendring í Essex á Englandi. Þar bjó á dögum Snorra Sturlusonar krossfarariddari, er hafði heim með sjer sedrusviðarhríslu frá Líbanon og gróðursetti þar. Hefur trjeð vaxið þar síðan. Snorri Sturluson, f. 1178 , d. 23. september árið 1241 rítaði heimildir þær er hjer er vísað til um konunga ævir. Hann ólst upp í Odda á Rangárvöllum og nam í uppeldi sínu hjá Jóni Loftssyni fræði mörg, norræn og kirkjuleg. Afi Jóns, Sæmundur Sigfússon hinn fróði f. 1056, d. 22. maí 1133 nam í París á Frakklandi í ungdæmi sínu. Hann flutti að líkindum út hingað lærdómsmenn þaðan og hafði skóla í Odda. Þóra, móðir Jóns, var dóttir Magnúss konungs berfætts í Noregi. Magnús, er fæddur var árið 1073. Hann fjell á Írlandi árið 1103. Hann var sonur Ólafs kyrra, Haraldssonar Sigurðssonar hins harðráða. Þrír frillusynir hans, bræður Þóru, tóku ríki í Noregi eftir hann, Ólafur, Eysteinn og Sigurður Jórsalafari. Sigurður var hinn mesti hermaður eins og faðir hans hafði verið. Átján ára að aldri lagði hann upp í krossferð suður á bóginn á 60 skipum og voru hundrað menn á hverju. Hann vann Lisbóu í Portúgal og hreinsaði Baleareyjar, Majorku, Minorku og Forminterra af Serkjum. Þaðan hjelt hann til Sikileyjar, þar sem hann gaf Hróðgeiri hertoga konungsnafn. Þaðan fór hann til Jórsala og var með Baldvina konungi. Hann vann Akursborg af Serkjum og gaf Baldvina konungi. Hann var með Baldvini þegar unnin var Sídon í Líbanon. Á heimleið var hann með Alexíosi keisara í Miklagarði og hjelt heim til Noregs um Rússland. Hann háði átta stórorrustur við Serki á sjó og á landi og sigraði jafnan. Sagt er að af þeim sex þúsund mönnum er honum fylgdu suður hafi eitt hundrað snúið heim. Sigurður dó þann 26. marz árið 1130. Sigurður Jórsalafari er einhver frægasti krossfari á Norðurlöndum. Snorri hefur alizt upp við frásagnir af þessu fólki í uppeldi sínu í Odda og reit síðar sögur Noregskonunga. Þannig koma saman í krossinum minningar um menn og atburði er mótað hafa sögu þjóða og ríkja við Atlanzhaf.
Velgjörðamenn kirkjunnar við uppsetningu krossins
Jan Petter Röed sem gefið hefur peninga til verksins, hefur áður styrkt Reykholtskirkju með stórmiklum fjegjöfum. Auk þess sem hann greiddi niður byggingarkostnað Reykholtskirkju gaf hann allan búnað í turn kirkjunnar ásamt klukku. Jarle Rosseland er norskur myndlistamaður. Hann myndskreytti ævisögu Snorra Sturlusonar þá sem Ivar Eskeland reit og Saga Petroleum AS kostaði. Saga Petroleum gaf Snorrastofu myndskreytingar þessar og voru þær á sýningu í safnaðarsal Reykholtskirkju árið 1998. Litógrafíur hans af táknmyndum Guðspjallamannanna á krossinum eru til sölu í Snorrastofu til ágóða fyrir verkið. Þar eru og til sölu aðrar myndir Rosselands. Bjarte Aarseth er trjeskurðarmeistari norska Víkingaskipasafnsins á Byggðey við Oslo. Hann hefur áður skorið vígása þá er prýða sýningar Snorrastofu. Bjarni Árnason er tæknifræðingur ættaður úr Reykholtssókn. Hann hefur mikið unnið í þágu Reykholtskirkju – Snorrastofu. Kristján Pálsson er málmsmíðameistari í Borgarnesi. Ásamt Bjarna Guðráðssyni tengdaföður sínum smíðaði hann ljósakrónur kirkjunnar eftir teikningu Garðars Halldórssonar húsameistara. Málminnflutningsfyrirtækið Guðmundur Árnason ehf eða GA Smíðajárn hefur lagt Reykholtskirkju – Snorrastofu lið. Frá fyrirtækinu er efni í járnvirkjum bygginganna svo sem handrið og ljósakrónur. Fyrirtækið hefur styrkt kirkjuna beint og óbeint. Forstjóri fyrirtækisins er frú Anna Jóhanna Guðmundsdóttir og framkvæmdastjóri maður hennar, Kári Geirlaugsson. Loftorka steypti undirstöður. Fjölmargir hjeraðsmenn ónefndir hjer hafa komið að þessu verki. Er öllum þakkað þeirraframlag
Litógrafíur
þessar eru verk Norska listamannsins Jarle Rosseland. Þær sýna táknmyndir Guðspjallamannanna, Mattheusar, Markúsar, Lúkasar og Jóhannesar. Fyrirmyndir eru sóktar í Kells bókina Írsku frá því um 900. Sömu myndir, skornar í sedrusvið, munu prýða kross af járni, er standa skal framan við kirkjuþil. Grunngerð krossins er sókt til Gunnhildarkrossins, lítils róðukross af romshvalstönn frá því um 1100. Tölusett eintök litógrafíanna fást í sölubúð Snorrastofu og gengur andvirði þeirra til þess að kosta verkið. Aðrar litógrafíur eftir Rosseland eru þar og fáanlegar. Hver mynd kostar 60.000 kr. Allar fjórar kosta 200.000 kr.
Nýr skrúði
Í messugjörð á Kyndilmessu 7. febrúar 2011 var vígður nýr skrúði sem Margrét Gunnlaugsdóttir hefur saumað, en hún gerði altarisklæðið fyrir altari Petursstúkunnar í kirkjunni. Það klæði er af bláu vaðmáli, eftirgerð klæðis frá 1719, farurlega útsaumað. Nýi skrúðinn er einnig af bláu vaðmáli, blómum prýddur. Armar krossins á bakhlið skrúðans enda í liljublöðum. Neðst á lóðrjettum krossarmi er krukka. Upp úr henni teygist viðarteinungur er greinist út í krossarmana, ber fögur blóm og endar í liljurósum, hin efsta rauðust. Krukkan vísar til Maríu Guðs móður ( eða móðurlífs meyjarinnar) og teinungurinn er sá sem sungið er um á jólum: „Það aldin út er sprungið og ilmar sólu mót sem fyrr vart fagurt sungið af fríðri Jesse rót“ Jesaja spáði fyrir um að mær myndi son fæða: Immanúel, Guð með oss. Jesse eða Ísaí var faðir Davíðs konungs. Með falli konungsríkis Ísraels var sá stofn niður höggvinn, en spádómurinn var um rótarkvist er upp skyldi renna af rótinni og bera mikinn ávöxt. Teinungurinn er því Kristur, blómin lærdómar hans og verk, rósin rauða pína hans og dauði. Framan á höklinum er kóróna vorrar frúar, Kristur; fullkomnun hennar einstæða hlutverks. Stólan ber sama táknmál: Blómum skrýddan þrígreindan teinung, sem vex upp úr krukku.
Harmoníum Bjarna Bjarnasonar
Við athöfnina á Kyndilmessu ljek organistinn, Bjarni Guðráðsson í Nesi á harmoníum afa sín, Bjarna Bjarnasonar á Skáney, en orgelið gáfu niðjar Magnúsar Bjarnasonar og BrynhildarStefánsdóttur í Birkihlíð kirkjunni. Ólafur Sigurjónsson í Forsæti í Villingaholtshreppi hefuryfirfarið það og lagað. Orgelsjóður Bjarna Bjarnasonar kostaði viðgerðina og naut til þess dánargjafar Vigdísar Bjarnadóttur í Nesi. Það er nú hið prýðilegasta hljóðfæri á ný, þrátt fyriraldur og mikla notkun, hljómfagurt og raddmikið.
Innréttingar í kirkjubyggingu
Þorvaldur Jónsson í Brekkukoti er formaður sóknarnefndar. Hann hefur að undanförnu lokið innrjettingum á hluta þess sem óklárað er enn í kirkjubyggingunni, en á Ólafsmessu á sumri komanda verður fagnað 15. vígsluafmæli kirkjunnar á kirkjudegi. Þorvaldur á mörg handtök í kirkjunni, því lengi og vel hefur hann og fólkið hans dugað henni, ekki síður en öðru fjelagsmálefni í sinni sveit. Allt sje það honum blessað.
Kirkjugarður og minningarmörk
Kirkjugarður Reykholtskirkju var árið 1895 „nýlega gjörður. Vesturkanturinn er skíðgarður, hinir hlaðnir úr torfi.“ Árið eftir eða 1896 kemur litasamsetning grindverksins fram í vísitasíu þar sem segir: „sömuleiðis hafa grindur, sem mynda vesturhlið kirkjugarðsins, verið málaðar ljósgráar og sáluhliðið hvítt.“ Breyting varð á útliti garðsins 1910 en þá var vesturhlið hans steypt. Um verkið sáu þeir Ingólfur Guðmundsson á Breiðabólsstað og Helgi Þorbergsson í Hægindakoti. Steypuveggurinn tók fljótlega að skemmast og er reglulega kvartað yfir honum í vísitasíum. Ekki virðist þó hafa verið átt við hann fyrr en undir 1980 er timburgirðing leysti vegginn af hólmi. ATH. Hinn steypti veggur var afar illa farinn við upphaf níunda áratugarins, veðraður og holóttur og hjelt engri málningu. Eg reif hann því og setti trjegerðið á niðursteypta málmstaura og girti garðinn allan. GW Kirkjugarðurinn var sléttaður árið 1982 en getið er um að það hafi verið gert „nær eingöngu með handafli.“ Búið var að kortleggja og skrá leiðin í kirkjugarðinum árið 1922 að því er fram kemur í vísitasíu það ár. Sáluhlið er í stíl við nýju kirkjuna og var því komið fyrir samkvæmt teikningu húsameistara á árunum 1993-1994. Yfirbragð kirkjugarðsins mótast einkum af fremur lágstemmdum minningarmörkum ef frá eru taldir fáeinir stórir lóðréttir legsteinar frá fyrri hluta 20. aldar og tvær járngirðingar um leiði í suðurhluta garðsins. Svæðið suðvestan við kirkjuna gengur undir nafninu Sturlungareitur. Sjá lýsingu á brúðkaupi Eggerts og Ingibjargar í bréfi Björns prófasts Halldórssonar í Sauðlauksdal til Jóns Ólafssonar varalögmanns, sem gæti verið elzta, skriflega heimild um þetta. Einhvers staðar á Kristleifur að hafa sagt, að við prestaskipti í Reykholti hafi fráfarandi sýnt viðtakanda Sturlungareit og mælst til þess, að aðrir yrðu þar ekki grafnir vegna Snorra, sem þar á að vera. Þetta hefi eg þó hvergi fundið, en sögnin gengur. Hjörtur Þórarinsson skólastj.og sóknarnefndaroddviti ljet setja steininn á Sturlungareit um eða eftir 1980. Í Reykholtskirkjugarði er nokkuð fjölbreytt safn minningarmarka. Í eldri hluta garðsins, sem er sunnan við kirkjuna, ber mikið á Húsafellssteinum en einnig tveimur pottjárnskrossum sem virðast ekki eiga sinn líka hér á landi. Í garðinum er einnig að finna afar stóran legstein með rúnaáletrun. Þá er varðveittur nokkur fjöldi Húsafellssteina úr garðinum í geymsluhúsi á staðnum. Verður hér aðeins getið fáeinna þessara minningarmarka þar sem af svo mörgu er að taka. Þegar fjallað er um minningarmörk í Reykholtskirkjugarði er vert að benda á grein Þórs Magnússonar fyrrverandi þjóðminjavarðar „Legsteinar í Reykholtskirkjugarði“ sem birtist í Árbók hins íslenska fornleifafélags árið 1963 en þar fjallar hann á skipulagðan hátt um alla Húsafellssteina í garðinum auk annars. Í suðvesturhorni garðsins er ljósleitur Húsafellssteinn og mun tekinn úr Selgili í landi Húsafells. Hann er bogadreginn efst og neðst en boginn er mun krappari efst. Fjórar axlir eru á steininum. Hann er 85 cm á lengd og 47,5 cm á breidd víðast hvar. Axlirnar mælast 5 cm á lengd. Erfitt er að lesa á letrið en það virðist víðast hvar 4 cm á hæð og línubilið er 2 cm. Þykkt steinsins er rétt rúmir 10 cm. Letrið er læsilegt á steininum er er nokkuð farið að mást. Þór Magnússon las á steininn 1963. Þar stendur: ✝ HÉR BLUNDR HREPPSTIÓRA KONA GUÐRÚN GUÐMUNDS DÓTTIR FÆDD2.MARS 1834 GIFT 5. OcT. 1854 STEINOL[FI]. [GRI]MS [SI]N[I] BURT KÖLL[UÐ VAR TIL BETRA] LIFS 28 JÚNI, 1867 _________ DROTTINN GAF DROTTIN TÓK LOFAÐ VERI DROTTINS NAFN [JOb 1 CAP. V 21] _________ [S… G…] Biblíutilvitnunin er úr fyrsta kafla Jobsbókar, tuttugasta og fyrsta vers. Upphafsstafirnir neðst á steininum munu upphafsstafir ekkilsins Steinólfs Grímssonar. Næsti legsteinn sem hér verður lýst er ferhyrndur Húsafellssteinn sem tekinn er úr Bæjargili. Hann er nær kirkjunni en steinninn hér á undan. Steinninn er gerður af Gísla Jakobssyni bónda á Augastöðum. Hann var settur síra Jónasi Jónssyni (1773-1861) presti í Reykholti. Á steininum stendur: HÉR HVÍLIR HETIA HUGUM PRÚÐ STIRK I STRÖNGU STRIÐI JÓNAS PRESTR JÓNSSON FÆDDUR ÁRIÐ 1772 VÍGÐUr. 1793.PRESTUr 59 ÁR SIÐAST I REIKHOLTI 10 ÁR DAIN 18[61] 89 ARA HUGTRÚR HREISTIMAÐR HETIA BA[RNS]MEÐ GEÐ. ORDSNIALLGIEGN OG GLAÐR, GEIMIST HIER I BEÐ KIÆRLEIKKRAPT OG SNILLI KIENI MANSINS BAR. NÍTUR HIMNA HILLI HAN ÞVÍ GVUÐS BARNVAR Z DAN 12 Cap 3 V SINU[M]ÆRUVERDa afa til miningar LÉT. STEININ Þ.Þ.PRF. í Rh…. tilbúin af Gísla Jacobs. 1877 Þór Magnússon getur þess að líklega hafi Þórður Þórðarson (Jónassen) prófastur í Reykholti látið setja afa sínum steininn. Þessi er áletrunin færð til nútíma stafsetningar: Hér hvílir hetja hugumprúð, styrk í ströngu stríði, Jónas prestur Jónsson. Fæddur árið 1772, vígður 1793, prestur [í] 59 ár. Síðast í Reykholti 10 ár. Dáinn 1861 89 ára. Hugtrúr hreystimaður, hetja barns með geð, orðsnjall gegn og glaður, geymist hér í beð. Kærleik kraft og snilli, kennimannsins bar, nýtur himna hylli, hann því Guðs barn var. Sínum æruverða afa til minningar lét steininn [setja] Þórður Þórðarson prófastur í Reykholti, tilbúinn af Gísla Jakobs[syni]. 1877. Tilvitnunin er úr Daníelsbók, tólfta kapítula, þriðja vers og er svo í Biblíuútgáfunni frá 1981: Og hinir vitru munu skína eins og ljómi himinhvelfingarinnar og þeir, sem leitt hafa marga til réttlætis, eins og stjörnurnar um aldur og ævi. Mjög austarlega í gamla garðinum er pottjárnskross sem nú skal lýst. Krossar þeirrar gerðar sem þessi er eru ekki algengastir pottjárnskrossa hér á landi en við fyrstu sýn virðast þeir algengari í Borgarfjarðarprófastsdæmi en í öðrum prófastsdæmum. Hver krossarmur deilist í þrennt á endunum. Fyrir miðju hefur endinn gotneskt lag en hinir tveir hlutarnir eru tungulaga. Krossar sem þessi eru yfirleitt um 122 cm á hæð en breidd krossarma um 75 cm. Getur þó á stundum skeikað fáeinum sentímetrum. Krossstilkurinn stendur á stétt úr sama efni og er hvort tveggja steypt í heilu lagi. Í hverju horni stéttarinnar eru digrir boltar sem festa krossinn við fremur smáan en sléttan blágrýtissökkul. Á krossinum má lesa þetta: Hèr Hvilir HÖFÐINGI BONDA HREPPSTJÓRI ALTHINGISMAÐR Kolbeìnn Árnašon FÆDDR 25 NOV 1806. GPTUR 20 OCT 1831. JÒMFRÜ RAGNHEIÐR VIGFUS- DOTTIR DÁIN 2 MAI 1862. Kolbeinn var sonur Árna Þorleifssonar bónda í Kalmanstungu og konu hans Halldóru Kolbeinsdóttur prests í Miðdal Þorsteinssonar. Hann bjó í Brekkukoti 1831-1838 og á Hofsstöðum í Hálsasveit frá 1838 til dánardægurs. Hann var alþingismaður Borgfirðinga 1857 og hreppstjóri í Hálsasveit. Ragnheiður kona hans var dóttir síra Vigfúsar Eyjólfssonar prests á Reynivöllum í Kjós og konu hans Ingibjargar Guðmundsdóttir aðstoðarprests á Kirkjubæjarklaustri Þorlákssonar. Börn þeirra sem upp komust voru Rannveig kona Þórðar Þorsteinssonar að Leirá og Halldóra sem átti Sigurð Jónasson á Hofsstöðum í Hálsasveit prests í Reykholti Jónssonar.
Instrumenta et ornamenta Reykholtskirkju 2015
Altarisbúnaður
- Háaltari í kór kirkju, steypt, lagt utan af rauðum Húsafellssteini.
- Hliðaraltari í Petursstúku úr gömlu kirkjunni, af spónlögðum viði með fjórum skúffum, tveimur á hvorri hlið, smíði Kristjáns Benediktssonar í Víðigerði frá því um 1964.
- Altari í Petursstúku í stíl 16. aldar af furu. Smíði Stefáns Ólafssonar á Litlu- Brekku. Gert fyrir samskotafje og framlag prestshjóna. Frá 2011.
- Dúkar á háaltari, undirdúkur af líni, yfirdúkur af fínu ljerefti, útsaumaður krossum á hornum og krossi í miðju. Gjöf Helgu Guðráðsdóttur á Kópa-Reykjum 2002. Þrír altarisdúkar af polyester og tveir smádúkar undir kertisstikur. Gjafir Marzewu Dukarska. Kristslíkamadúkur og fleira af líni, gjöf síra Flóka Kristinssonar á Hvanneyri.
Ljereftsdúkur, útsaumaður Feneyjaverki með englamyndum og krossmarki á altarisbrún. Verk Gyðu Sigurðardóttur 1910- 1993, frá 7. áratug 20. aldar. Ljeð þjóðminjasafni í gömlu kirkju. Á altari í Petursstúku: Saurdúkur af hör, bryddaður, hördúkur, útsaumaður krossum og stungnu skrautverki til endanna. Dúkur af hör, gjöf prestshjóna. - Antependium af rauðu flosi, baldýrað IHS, minningargjöf barna síra Einars Pálssonar og frú Ingibjargar K.K. Eggertsdóttur Briem 1964. Verk Ingibjargar Eyfells Einarsdóttur 1895- 1977. Þarfnast viðgerðar. Korporalshús ( bursa corporale ), palla og kaleiksdúkar ( velum ) grænt og fjólublátt af silkidamaski, Vanpoulles verk. Lítil Antependia, grænt og fjólublátt, gjafir. Antependum af bláu vaðmáli fyrir altari í Petursstúku, eftirgerð antependii frá 1719. Verk Margretar Gunnlaugsdóttur frá 2011. Gert fyrir samskotafje og framlag prestshjóna.
- Kaleikur og Patína af silfri. Smíði Eggerts Guðmundssonar í Sólheimatungu frá öndverðri 19du öld.
- Þjónustukaleikur og patína af silfri, smíði Sveins Þorvaldssonar í Hvammi í Dýrafirði frá öndverðri 19du öld.
- Huslker af silfri, smíði Sigmars Ó Maríussonar gullsmiðs, gjöf Stefáns Ólafssonar kirkjusmiðs og byggingarflokks hans á vígsludegi.
- Róðukross af látúni, enskur, gjöf Vilhjálms Einarssonar frá Reykholti og konu hans, Jórunnar Ingibjargar Guðmundsdóttur.
- Tveir tvíarma kertastjakar af látúni, gamlir á altari í Petursstúku. Ljósastikur tvær, einarma, af gullhúðuðu látúni, enskar, minningargjöf barna síra Einars Pálssonar og frú Ingibjargar K.K. Eggertsdóttur Briem 1964. Fjórir kertastjakar af kopar frá Belgisku klaustri. Tillagt af prestshjónum. Aðrar ljósastikur: Ljósastikur, silfurhúðaðar, gjöf Vigdísar Bjarnadóttur í Nesi árið 1996. Ljósastikur tvær af norsku tini í gotneskum stíl. Tillagðar af presthjónum, síra Geir Waage og frú Dagnýju Emilsdóttur. Ljósastikur af messing og tini, gamlar, eru í gömlu kirkju, ljeðar þjóðminjasafni. Járnstjaki á undnum fæti undir páskakerti. Gjöf . Tvær uppihaldsstikur af járni, fótur undir uppihaldskross af sama. Beri undir reykelsisker af járni. Uppihaldskross af trje, reykelsisker og buðkur af látúni, smíði Snorra Kristleifssonar á Sturlu- Reykjum, tillagt af prestshjónum, síra Geir Waage og og frú Dagnýju Emilsdóttur. Í safnaðarsal: Tveir fimm arma ljósastjakar af tini, fimm stjakar undir stór kerti af tini, fjórar skálar af tini, misstórar.
- Hökull, af rauðu flosi, baldýraður krossmarki, gullbryddaður, minningargjöf barna síra Einars Pálssonar og frú Ingibjargar K.K. Eggertsdóttur Briem 1964.Verk Unnar Ólafsdóttur.
- Skrúði, grænn, hökull og stóla, verk Ingibjargar Styrgerðar Haraldsdóttur af ull og silki skreyti af gullvír, gjöf Borgarfjarðarprófastsdæmis í tilefni kirkjuvígslu.
- Skrúði, hvítur, hökull og stóla, lagt purpurarauðum krossum, Belgískur að gerð, tillagt af prestshjónum, síra Geir Waage og frú Dagnýju Emilsdóttur.
- Skrúði, fjólublár hökull og stóla af silkidamaski, Vanpoulles verk. Skrúði af bláu vaðmáli, hökull með stólu. Verk Margretar Gunnlaugsdóttur frá 2011. Tillagt af prestshjónum.
- Stóla, svört af silkidamaski með áfestum grísku bókstöfunum Α Ω, krossmarki og gylltu kögri, tillögð af prestshjónum, síra Geir Waage og frú Dagnýju Emilsdóttur.
- Hökull af rauðu flosi með rómönsku lagi, silfurbryddaður, lagður krossi af silfurflræði, gamall, upplitaður, óhæfur.
- Hökull með afbrigðilegu lagi, af fjólurauðum hördúk, útsaumaður blómum, lagður svörtu krossmarki af silkidamaski. Maddama Guðrún Bogadóttir lagði til legkaups árið 1836 eftir bónda hennar, síra Eggert Guðmundsson árið d.1832. Gamall, þó hæfur.
- Alba af hör, tillögð af prestshjónum, síra Geir Waage og frú Dagnýju Emilsdóttur.
- Rykkilín með gotnesku lagi
- Rykkilín af ljerefti, með íslenzku lagi, ermar og faldur af kniplingum
- Ræfill af altarisdúk af ljerefti, útsaumaður með Feneyjaverki á altarisbrún, krossmarki og englum, gamall, slitinn, óhæfur.
- Skírnarsár af kljásteini, gjöf hollvina staðarins í Björgvin árið 2000. Í sánum er hið gamla skírnarfat Reykholtskirkju að láni úr Þjóðminjasafni. Fatið er suður Skandinaviskt eða norður Þýzkt fá því um 1500.
- Klukkur í turni, fimm talsins: Tvær sem tilheyrt hafa Reykholtskirkju í langan tíma, sú eldri frá miðöldum, hin frá 1745. Tvær klukkur komu frá Hallgrímskirkju í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, önnur frá 1739 en hin að líkindum frá 15. öld. Þriðja klukkan og jafnframt sú stærsta er gjöf frá Jan Retter Røed.
- Handbjalla (söngmær), til llögð af presthjónum, síra Geir Waage og frú Dagnýju Emilsdóttur.
- Blómavasi af kristal, gjöf Benedikts Guðlaugssonar í Víðigerði. Vatnskarafla af kristal. Til lögð af presthjónum, síra Geir Waage og frú Dagnýju Emilsdóttur.
- Vínkarafla af gleri. Blómavasi af kristal, til lagður af presthjónum, síra Geir Waage og frú Dagnýju Emilsdóttur.
- Þrír ítalskir blómavasar, gylltir. Annar sömu gerðar, þó minni, til lagður af presthjónum, síra Geir Waage og frú Dagnýju Emilsdóttur. Glervasi, gjöf frúGuðjónu Jónsdóttur á Sturlu- Reykjum.
- Bænaskemill, áklæði af rauðu flosi, gjöf Birnu Hauksdóttur á Skáney, áklæði gjöf Unnar Jónsdóttur í Deildartungu. 16. Kirkjugluggar af steindu gleri, verk Valgerðar Bergsdóttur, gerðir af Oidtmann í Linnich á Þýzkalandi. Stafngluggar gjöf frú Margretar Garðarsdóttur til minningar um mann hennar, Halldór H, Jónsson arkitekt árið 2003. Gluggar í stúkum gerðir fyrir samskotafje 2006.
- Ofin veggmynd; Heilagur Franz af Assisi eftir norsku veflistarkonuna Ragnhild Jacobssen. Gjöf til kirkjunnar frá fjölskyldu listakonunnar. Fjórar litografíur eftir Jarle Rosseland af táknmyndum Guðspjallamannanna 20013.
- Listaverk í Finnsstofu: Lúkas. Úr glermálverkaröð Guðmundar Einarssonar frá Miðdal ca. 1960, fyrirmynd. Gjöf Ara Trausta Guðmundssonar og Maríu G. Baldvinsdóttur og fjölskyldu 2004. Ísleifur Gizurarson vígður til byskups.Útsaumsmynd Lydiu Pálsdóttur eftir uppdrætti Guðmundar Einarssonar frá Miðdal 1960-1961. Gjöf Ara Trausta Guðmundssonar og Maríu G. Baldvinsdóttur og fjölskyldu 2004. Eftirmynd úr Niðarósdómi, Janus, gjöf frú Guðrúnar Ásgeirsdóttur 2013. Ljósmynd af málverki í Þjóðminjasafni af herra Finni Jónssyni. Eftirmynd af teikningu af herra Hannesi Finnssyni eftir Baltneskan listamann. Lituð ljósmynd
Messubækur og söngbúnaður
1. Harmonium, Bandarískt að gerð, keypt til kirkju árið 1901. Orgelbekkur við harmonium með áklæði af rauðu flosi. 2. Harmonium Bjarna Bjarnasonar á Skáney, organista. Gjöf barnabarna hans, systkinanna í Birkihlíð, barna Magnúsar Bjarnasonar og Brynhildar Stefánsdóttur. 3. Pípuorgel, I Starup & Søn, keypt til kirkju með styrk frá Orgel- og söngmálasjóði Bjarna Bjarnasonar á Skáney 1966. 4. Pípuorgel, Frobenius, smíðað 1934, keypt til kirkju frá dómkirkjunni í Reykjavík árið 1985, viðgerð og uppsetning kostuð af Orgel- og söngmálasjóði Bjarna Bjarnasonar á Skáney árið 2002. 5. Flygill, Grotrian Steinweg, fenginn kirkjunni árið 1996, en gefinn henni á vígsluafmæli hennar árið 2001. Safnað var fje til kaupanna og gengust eftirtaldir fyrir söfnuninni: Jón Björnsson í Deildartungu, Jón Kristleifsson á Kleppjárnsreykjum, Snorri Kristleifsson á Sturlu- Reykjum, Bernhard Jóhannesson í Sólbyrgi, Bjarni Guðráðsson og Sigurður Bjarnason í Nesi, Þorvaldur Jónsson í Brekkukoti og Gunnar Ásgeir Gunnarsson á Hýrumel. Píanóbekkur við flygil, tillagður af Bjarna Guðráðssyni organista. 6. Klavikord, smíði Ara Arnórssonar. Gefinn kirkju 2014. 7. Útskorin hilla úr eigu Bjarna Bjarnasonar og Helgu Hannesdóttur á Skáney, gjöf Vilborgar Bjarnadóttur frá Skáney um aldamót 2000. 8. Teppi undir flygil, tillagt af Heimskringlu ehf / Reykholtshátíð 1997. 9. Altarisbiblía í skinnbandi, gjöf Hallgrímsdeildar Prestafjelags Íslands á vígsludegi kirkju. 10. Handbók, tillögð kirkju á vígsludegi hennar af vígsluföður, herra Sigurði Sigurðarsyni í Skálholti. 11. Guðbrandarbiblía, ljósprentuð, minningargjöf um Alexander Jóhannesson skipstjóra fræddan á Skáney og eiginkonu hans, Halldóru Ólafsdóttur, frá börnum fleirra 1982. 12. Biblía, ( Grútarbiblía ) gjöf Diðriks Jóhannssonar í Hvannatúni á vígsludegi. 13. Biblíur útg. ( 1594 ), ( 1747 ),1947, 1956, (1981) 14. Messubók Sigurðar Pálssonar, gefin af herra Sigurði Pálssyni vígslubiskupi. 15. Sálmabækur með nótum 20 eint 16. Sálmabækur, eldri gerð 103 eint 17. Sálmabók, gamlar 4 eint 18. Sálmar 1991 18 eint 19. Sálmasöngsviðbætir 22 eint 20. Sálmasöngsbók Sigf. Ein. 9 eint 21. Hátíðasöngur síra Bjarna Þorsteinssonar 22. Passíusálmar útg 1971 19 eint, gjöf Gísla Sigurbjörnssonar á Grund. 23. Messusöngsblöð um 200 eint 24. Kóralbækur gamlar 6 eint. Kóralbók, ný, 25. Helgisiðabók 1910, 1934, 1981.
Annar Búnaður
26. Hljóðkerfi í kirkju, gjöf Gunnars Ásgeirs Gunnarssonar og Ingibjargar Öddu Konrásdóttur og fjölskyldunnar á Hýrumel árið 2001. 27. Hljóðkerfi í kirkju og safnaðarsal ásamt myndflutningskerfi. Gjöf Halldóru Þorvaldsdóttur og fjölskyldu 2005-2007. 28. Borð fyrir sálmabækur, kostað af kirkju. 29. Uppihaldskross, kostað af kirkju. 30. Ljósakrónur tvær í kirkjuskipi, af járni og látúni, smíði Kristjáns Pálssonar eftir hönnun Garðars Halldórssonar, gjöf Gunnars Ásgeirs Gunnarssonar og Ingibjargar Öddu Konráðsdóttur og fjöl skyldunnar á Hýrumel árið 2001, Helgu Guðráðsdóttur og fjölskyldu hennar í minningu Sigurjóns Eyjólfssonar á Kópa-Reykjum, f.30.12. 1959, d.4.3.11.1961 og Kvenfjelagi Reykdæla. 31. Ljós í útbrotum kirkju, gjöf Helgu Guðráðsdóttur og fjölskyldu hennar í minningu Sigurjóns Ey jólfssonar á Kópa-Reykjum, f.30.12. 1959, d.4.3.11.1961, og Kvenfjelags Reykdæla. 32. Kastljós í kirkju, 12 talsins, gjöf Kvenfjelags Reykdæla. 33. Lýsing á kross á kórþili og á altarisbrík í Petursstúku. Gjöf Jóns Emilssonar rafvirkjameistara árið 2013. 34. Lýsing á glugga á kórþili og í stúkum kirkjunnar utan frá. Gjöf nemenda Hjeraðsskólans í Reykholti árin 1958- 1962. 35. Bænaljósaberi, verk Sigrúnar Jónsdóttur, gefinn kirkjunni af henni og vígslubiskupshjónunum í Skálholti, herra Sigurði Sigurðarsyni og frú Arndísi Jónsdóttur árið 2001. 36. Krossmark á kórvegg, gjöf Byggingarfjelagsins Borgar á vígsludegi kirkju. 37. Íkona, rússnesk, og klútur kniplaður, gjöf Ármanns Reynissonar á vígsludegi. 38. Stórir gólfvasar af gleri 6 að tölu. Stórir gólfvasar af keramiki 5 talsins, gjöf Kvenfjelags Reykdæla 1995. 39. Altaristafla, verk Anker Lund: “Komið til mín”, keypt 1904. Ljeð Þjóðminjasafni, í gömlu kirkju. 40. Lektari af eik. 41. Vatnslitamynd af Reykholti, verk Eyjólfs Eyfells, gjöf afkomenda síra Einars Pálssonar og frú Jóhönnu K.K. Eggertsdóttur Briem. 42. Málverk eftir Jóhannes Jóhannesson, gjöf barna og tengdabarna Guðmundar Illugasonar frá Skógum og konu hans, Höllu G. Markúsdóttur. Myndin var tillaga höfundar að glugga í Reykholtskirkju. 43. Ljósmyndir í römmum af síra Guðmundi Helgasyni of frú Þóru Ásmundsdóttur, gjöf frú Matthildar Arnalds, Kambaseli 46 Rvík 44. Minningarmörk af silfri á steini: Skjöldur um síra Einar Guðnason f. 19.7. 1903, d14. 1. 1976, skjöldur Bjarna Bjarnasonar organista, f.30.9. 1884, d. 5.6. 1979. Skjöldur af silfri um síra Þórð Þórðarson Jónassen, f 19. apríl 1825, d. 14. janúar 1884 Grafskrift síra Þorsteins Helgasonar frá miðri 19du öld. Gylltur texti á svörtu gleri, rammi af forgylltu trje, snúnar súlur með bjórum undir og yfir. 45. Stólar, danskir af eik með snærissetum, 146 að tölu keyptir af Hallgrímskirkju í Reykjavík 1996. 46. Fánastangir tvær af járni með fánum, gjöf Þorvaldar Jónssonar og Ólafar Guðmundsdóttur í Brekkukoti. 47. Fánastangir, sex talsins með fánum, framan við Reykholtskirkju- Snorrastofu, keypt til kirkju 2000. 48. Tvær myndamöppur, Reykjavíkurmyndir Jóns Helgasonar biskups, tölusett eintök no. 2. Gjöf Jóns Guðbjörnssonar og frú Guðrúnar Þorsteinsdóttur á Lindarhvoli 2002. 49. Fermingarkyrtlar af ljerefti gamlir, sumir þó hæfir. Fermingarkyrtlar nýir 18. Gjafir Kvenfjelags Reykdæla og Kvenfjelags Hálsasveitar. 50. Fimm áttundu hlutar allrar veiði í Laxfossi í Grímsá. Talin í máldögum kirkju. Afrjettur á Hrútafjarðarheiði. Talinn í máldögum kirkju. Gripir úr Reykholti að láni í Reykholtskirkju frá Þjóðminjasafni. Grafskriftir yfir bændafólk sem átti heima í Reykholtsdal og Hálsasveit á 19. öld. Tvær þeirra eru eftir sr. Eggert Guðmundsson í Reykholti (1769-1832) en sú þriðja er merkt stöfunum V.E. og ekki er vitað hver það hefur verið. Þær eiga það sammerkt að vera skrifaðar með gylltu eða gulleitu letri á svartan eða dökkan flöt sem er innrammaður í strikaða umgjörð. Nr. 12901 Áletrun: Fædd þann 14da Febrúari 1790 Deydi þann 21ta Aprilis 1827 Gudrún yfirsetukona Jóns Dótti. Elskud og vyrdt af öllum sem þecktu veik önd hennar í upphædir Rækti hún kall sitt í radvendi og Dygd utann húss og innann þanig í trú eydt tíd léntri Þad leit alfadir og því kalladi Kom mitt Barn í þér búna sælu þar ad sameinast þínum Kristi Vertú trúr í litlu og muntu setjast yfir mikid Virdtri vinkonu setti E….. (Eggert Guðmundsson) Nr. 12902 Áletrun: Anno 1804. ára 54 Deydi . Dánumadurin Halldór. Hákonar. son Bónde Gestrisin. Greidatamz. fastlindtz. frómz Erfidismadz. Ötull. og. hreifur. Hugrackz í Strídu. Hóglátur í Blídu van han sér vinsemd velþeinkenda hvörs. stands.þú. varst, vardar litlu. hvad. þú. varst. þar. vardar. miklu, hins dána þektu manæru setti E….t Halldór Hákonarson var bóndi á Skáney í Reykholtdal, Signýjarstöðum og Brúsholti í Hálsasveit. Fæddur 12. des. 1750 og drukknaði á jólaföstu 1804 í Flókadalsá. Nr. 12903 Áletrun: Geymist. í. gardi. húss. þessa moldfúin. líkami ÁRNA. SIGURDS. SON Fæddur. 13da aug. 1750 deidi. 12ta decembr. 1800 gudrækin. og. gjætti. skilldu. Ordvar. stödugur. ástsæll. trúr Sómi. húss. og. sóknar. prýdi merkis.madz. á. midi. sínu hans. skein. digd. á. dockum. feldi nú. er. hans. sála. í. sælu. komin. setti. Sanmæli. þetta. V.E. Untu synir öndudum födur Þórólfur – Gudmundz Árni bjó á nokkrum bæjum í Reykholtsdal og Hálsasveit. Altarisbrík frá 16. öld með vængjum. Umgjörðin eða skápurinn er yngri úr dökkleitum harðviði. Bríkin er útlend. Taflan var hér í Reykholti frá 16. öld til ársins 1896 þegar Forngripasafnið í Reykjavík keypti hana. Síðast í timburkirkjunni sem reist var 1886. Á miðju er krossfestingarmynd og María og Jóhannes hvort sínu megin við krossinn. Innan á báðum hurðum eru tvö útskorin og máluð líkneski. Heilög Barbara verndardýrlingur byggingamanna og ein af fjórum höfuðdýrlingum Reykholtskirkju er í efri hluta vinstra megin með tákn sitt, turninn. Þar fyrir neðan er Gabríel erkiengill, sem boðaði Maríu fæðingu Krists. Efri myndin hægra megin er af heilagri Margréti verndara kvenna í barnsnauð en Mikael erkiengill er fyrir neðan með lensu sem hann rekur í hinn ægilega dreka, og sigrar þar með illskuna í heiminum á dómsdegi. Þjms. 4333
Opnunartímar skrifstofu Snorrastofu og Bókhlöðu
Virka daga 10:00–17:00
Prjóna-bóka-kaffi
Opnunartímar Gestastofu
1.maí - 31.ágúst:
Alla daga 10:00 - 17:00
1.sept - 30.apríl:
Virka daga 10:00 - 17:00
Á öðrum tímum eftir samkomulagi.